fimmtudagur

Lukka litla

Það er ótrúlegt að hugsa til þess að bráðum verða 18 ár liðin frá því að ég vaknaði upp klukkan fjögur að nóttu með verulega slæmar meltingatruflanir.......á 38. viku meðgöngu. Þar sem að ég var frumbyrja datt mér að sjálfsögðu ekki í hug að litla manneskjan væri að koma í heiminn. Vöfflunum og kakóinu hjá Sollu vinkonu, sem var innbyrt daginn áður, var að sjálfsögðu kennt um verkinn. Frumbyrjur ganga jú alltaf framyfir - ekki satt þær eiga aldrei snemma.....eða hvað? Eftir þó nokkuð brölt og skrepperí á klósett, þar sem ekkert markvert gerðist, hætti mér að lítast á blikuna og um sex leytið hnyppti ég í barnsföðurinn sem hafði sofið eins og gamalmenni við hlið mér í gegnum stunur og prumptilraunir og spurði hann hvort að það gæti verið komið að þessu. Eins og að hann hefði eitthvað vit á því!! Klukkan sjö var ljóst að verkurinn kom með hléum en ekki mjög löngum. Ég hringdi því upp á spítala og spurði ósköp skilningsríka konu sem þar var á vakt hvort að þetta gæti verið málið, að ég væri komin af stað? Henni fannst það heldur líklegt, en sagði mér að bíða bara róleg heima þangað til að það væru komnar tvær mínútur á milli verkja. Það voru bara einoghálf á milli þá þegar, en ég ákvað samt að bíða - fannst þetta eitthvað hálf óraunverulegt Örugglega bara bull í mér. Klukkan átta þorði ég ekki að bíða lengur enda farin að svitna eins og Samurai í miðri keppni og leit ekki ósvipað út ef út í það er farið. Upp á fæðingadeild var brunað þar sem mér var skellt upp á borð á ganginum og einhver kona ákvað að kanna mín innstu rök að framan og aftan, sem kom mér algjörlega að óvörum vissi ekki að þetta færi svona fram!! Einn í útvíkkun og ein og hálf á milli. Sem sagt - ekkert að gerast en FULLT vont. Svona gekk þetta til klukkan ellefu, þegar doksi mætti á kantinn. Þá var ég búin að svitna í gegnum fjóra boli, bíta nokkrar ljósur, kalla barnsföðurinn öllum illum nöfnum og búin að reyna allar stellingar í bókinni. Ennþá einoghálf á milli og ekkert að gerast. Doksi hallaði sér yfir mig og hvíslaði hvort að það væri ekki allt í lagi hjá mér? Ég reif í kragann á sloppnum hans og sagði skýrt og ákveðið með áherslum að ég vildi fá mænudeyfingu.........NÚNA! Að sjálfsögðu fékk ég það, skil ekki af hverju? En nú fór allt að gerast. Klukkan 16:37 var 16 og hálfrar markar stelpa sem mældist 52 sentímetrar fædd og mamman ældi. Vissi ekki heldur að það gæti komið fyrir. Hef aldrei séð það í bíómyndunum. Útsprengd, sveitt og bólgin fékk ég svo spottið í fangið og með barnsföðurinn grenjandi við hliðina á mér hófst nýr kafli í lífinu. Bráðum 18 ár. Vá hvað tíminn líður.

það sagði hún þá.......

Engin ummæli: