fimmtudagur

Lukka litla

Það er ótrúlegt að hugsa til þess að bráðum verða 18 ár liðin frá því að ég vaknaði upp klukkan fjögur að nóttu með verulega slæmar meltingatruflanir.......á 38. viku meðgöngu. Þar sem að ég var frumbyrja datt mér að sjálfsögðu ekki í hug að litla manneskjan væri að koma í heiminn. Vöfflunum og kakóinu hjá Sollu vinkonu, sem var innbyrt daginn áður, var að sjálfsögðu kennt um verkinn. Frumbyrjur ganga jú alltaf framyfir - ekki satt þær eiga aldrei snemma.....eða hvað? Eftir þó nokkuð brölt og skrepperí á klósett, þar sem ekkert markvert gerðist, hætti mér að lítast á blikuna og um sex leytið hnyppti ég í barnsföðurinn sem hafði sofið eins og gamalmenni við hlið mér í gegnum stunur og prumptilraunir og spurði hann hvort að það gæti verið komið að þessu. Eins og að hann hefði eitthvað vit á því!! Klukkan sjö var ljóst að verkurinn kom með hléum en ekki mjög löngum. Ég hringdi því upp á spítala og spurði ósköp skilningsríka konu sem þar var á vakt hvort að þetta gæti verið málið, að ég væri komin af stað? Henni fannst það heldur líklegt, en sagði mér að bíða bara róleg heima þangað til að það væru komnar tvær mínútur á milli verkja. Það voru bara einoghálf á milli þá þegar, en ég ákvað samt að bíða - fannst þetta eitthvað hálf óraunverulegt Örugglega bara bull í mér. Klukkan átta þorði ég ekki að bíða lengur enda farin að svitna eins og Samurai í miðri keppni og leit ekki ósvipað út ef út í það er farið. Upp á fæðingadeild var brunað þar sem mér var skellt upp á borð á ganginum og einhver kona ákvað að kanna mín innstu rök að framan og aftan, sem kom mér algjörlega að óvörum vissi ekki að þetta færi svona fram!! Einn í útvíkkun og ein og hálf á milli. Sem sagt - ekkert að gerast en FULLT vont. Svona gekk þetta til klukkan ellefu, þegar doksi mætti á kantinn. Þá var ég búin að svitna í gegnum fjóra boli, bíta nokkrar ljósur, kalla barnsföðurinn öllum illum nöfnum og búin að reyna allar stellingar í bókinni. Ennþá einoghálf á milli og ekkert að gerast. Doksi hallaði sér yfir mig og hvíslaði hvort að það væri ekki allt í lagi hjá mér? Ég reif í kragann á sloppnum hans og sagði skýrt og ákveðið með áherslum að ég vildi fá mænudeyfingu.........NÚNA! Að sjálfsögðu fékk ég það, skil ekki af hverju? En nú fór allt að gerast. Klukkan 16:37 var 16 og hálfrar markar stelpa sem mældist 52 sentímetrar fædd og mamman ældi. Vissi ekki heldur að það gæti komið fyrir. Hef aldrei séð það í bíómyndunum. Útsprengd, sveitt og bólgin fékk ég svo spottið í fangið og með barnsföðurinn grenjandi við hliðina á mér hófst nýr kafli í lífinu. Bráðum 18 ár. Vá hvað tíminn líður.

það sagði hún þá.......

Vel eða ekki

Er búin að fatta hvað málið er. Ég geri þetta ekki vel og ég þoli ekki að gera eitthvað illa. Ég geri þetta ekki vel, vegna þess að ég hef ekki ánægju af því. Ég vil gera allt vel. Ergo Ég vil hafa ánægju af því sem ég geri.


það sagði hún þá.......

Hve glöð er vor æska

Ef ekki væri fyrir sakleysi æskunnar fáfræði ungdómsins og fífldirfsku þess sem ekki veit betur myndum við að öllum líkindum aldrei gifta okkur og aldrei eignast börn. Þegar við, þessi sem klúðruðum töku eitt, leggjum loks í töku tvö með hálfum huga og hræðslu í hjarta er að mörgu að hyggja. Ekki endurtaka sömu mistökin ekki taka að sér aumingja ekki brenna sig á ástinni ekki láta meiða sig aftur Ofan á þetta bætist svo að nú eru kröfurnar aðrar og meiri það þarf að púsla saman lífum sem eru löngu komin í fastar skorður vanans Bíllinn rúmar ekki fjölskyldustærðina. Pakkarnir eru mismargir og stórir suma er hægt að sætta sig við aðrir eru illþolanlegir og best geymdir óuppteknir, en erfiðast er að læra að treysta upp á nýtt. Ó, að fá að vera vitlaus á ný.

það sagði hún þá.......

Orð

Orð geta verið hættuleg. Sum orð eiga það til að bora sér leið inn í vitundina og sitja þar sem fastast um aldur og ævi. Fólk ætti ávallt að passa hvað það segir. Aðgát skal höfð í nærveru sálar. Foreldrar þurfa að fara einkar varlega í það hvað þeir láta út úr sér við börn sín og óharðnaða unglinga, jafnvel unglinga á fimmtugsaldri. Hjón og sambúðarfólk verður líka að vanda sig og fyrrverandi makar geta skemmt heila sál með óvönduðum orðum. Það hafa orðið vinslit vegna orða. Orð geta verið falleg en þau geta líka verið hættuleg og það á að bera virðingu fyrir þeim. Sum þeirra meiða meira en krepptur hnefi.

það sagði hún þá.......

Rómantík

Hvers vegna eru konur svona uppteknar af rómantík? Sér í lagi vegna þess að karlar virðast ekki hafa hugmynd um, um hvað hún snýst. Við hinsvegar rembumst við að reyna að sannfæra þá um að þetta sé skemmtilegt fyrirbæri, en þeir sjá ekki pointið með því. Gera stundum eitthvað sætt vegna þess að þeir vita að við viljum það, en ekkert endilega vegna þess að þá langar til þess eða finnist það skipta máli. Svo leyfum við okkur að svekkja okkur á því og skiljum ekki hversvegna þeir gera ekki þetta eða hitt. Klikk. Þetta er reyndar í sömu katagoríu og hugsanalesturinn. Við höldum að ef að við bara hugsum nógu stíft um eitthvað þá muni þessar elskur ná að lesa þessar hugsanir. Bull. Ávísun á svekkelsi og leiðindi, ekkert annað.

það sagði hún þá.......

Kerlingabækur

Þegar ég var lítil var mér sagt að ég myndi hætta að stækka ef ég drykki kaffi og líka ef ég borðaði kertavax.

Ég á vinkonu sem borðaði kertavax og drakk alltaf kaffi. Hún borðaði að vísu líka blöð. Hún er 176 sentímetrar á hæð og vann fyrir sér sem módel.

Hvað var málið?

það sagði hún þá.......

Utanlegs

Það er ekki tekið út með sældinni að vera læknisdóttir. Eins og ég hef nefnt áður, þá er það nú oftast þannig að á heimili pípara lekur allt, hjá rafvirkjanum er allt sambandslaust, en læknisbörn eru hins vegar ávallt send fárveik í skóla og vinnu.
Iðulega var ég send heim úr skólanum eftir að hafa gubbað út alla gangana því ég hafði eftir aumingjalegt kvart heima fyrir verið send í skólann með orðunum: “það er ekkert að þér” sem svo reyndist vera gubbupest, hettusótt, hlaupabóla eða flensa.

Ég var því alin upp við að það væri aldrei neitt að mér og best væri að sleppa því að kvarta. Leið því oft ansi langur tími frá því að mér varð eitthvað illt, þar til eitthvað var gert í því. Verst er að ég er líka svo ljómandi óheppin í heilsuferðinu. Stundum var byrjað á að hringja í föður vor og sagt eitthvað í líkingu við:”Ég er með eitthvað skrítið í hálsinum, á ég að hafa einhverjar áhyggjur af því?” Ef svarið var nei, var haldið í vinnu þrátt fyrir að það væri mér jafnvel um megn að kyngja munnvatni.

Nótt eina í seint í ágústmánuði árið 1989 vaknaði ég upp við afar óþægilegan verk í kviðarholinu. Svipaði honum þó nokkuð til vindverkja einungis miklu, miklu verri.
Þar sem að það er aldrei neitt að mér ákvað ég að bíta nú á jaxlinn og bíða eftir að þetta liði hjá. Þetta var um fjögur leytið. Um sex leytið er ég ekki alveg að fíla þetta lengur og ákveð að slá á þráðinn til gamla mannsins. Hann var eitthvað létt úldinn, enda sofandi og tilkynnti mér að líklegast þyrfti ég bara að skella mér á klósettið.
Ég tók þessu náttúrulega sem heilögum sannleik og skreið samviskusamlega inn á bað. Þar gerðist hins vegar ekkert, en verkurinn fór þó versnandi. Ég hringdi aftur í gamla manninn. Hann sagði mér að ég gæti svo sem komið upp á spítala til hans klukkan átta, en klukkan var þá hálfsjö.

Klukkan átta var ég löngu mætt fyrir utan stofuna hjá honum enda orðin gjörsamlega viðþolslaus af kvölum. Karlinum brá nú eitthvað við að sjá mig og sagði mér að leggjast upp á bekkinn. Þar potaði hann eitthvað í mallann á mér en varð svo voða skrítinn í framan. Sagðist ætla að skreppa fram, en kom von bráðar með martröð allra sjúklinga í eftirdragi, skurðlækni dauðans, sem hann biður um að kíkja á mig og gefa sér álit.
Eftir fruntalegt pot og píningar af hálfu hins einkar mannlega skurðlæknis lá fyrir úrskurður. Stúlkunni var að blæða út!

Babú bíllinn var nú kallaður út hið snarasta og hringt og tilkynnt um komu kerlingar, því þetta var mál fyrir annan spítala. Þegar þangað er komið er ég sett í svæfingu og beint í bráðauppskurð. Kom í ljós að annar eggjaleiðarinn hafði sprungið í loft upp og var kviðarholið nú fullt af blóði. Læknirinn setti smella, renna, hneppa, hnýta í gang og ég vaknaði einum eggjaleiðara fátækari.

Eitthvað var nú ræfilslegur svipurinn á föðurnum sem kom að heimsækja litluna sína upp á spítala, en ég sagði honum að þetta væri allt í lagi. Hinn læknirinn sem ég hafði heimsótt tveimur vikum áður hafði líka sagt mér að það væri ekkert að mér.
Í hvert sinn sem ég fæ vindverk í dag er ég mætt á slysó. Ég tek enga sénsa á svoleiðis verk aftur. Oftast endar það nú með góðu prumpi um leið og ég heyri nafnið mitt kallað úr afgreiðslunni. En “better safe than sorry” segi ég bara. Allir aðrir verkir fá hins vegar að kvelja mig óáreittir áfram.

það sagði hún þá.......

Upplifði dálítið undarlegt í gær.

Í stigaganginum mínum býr eldri kona.

Þessi kona hefur vanið sig á þann ósið að í hvert sinn sem aðrir í stigaganginum, nágrannar hennar, mæta henni á ganginum virðist hún knúin til að tuða og röfla yfir öllu og engu, sönnu og ósönnu, skiljanlegu og óskiljanlegu. Einnig hefur hún tekið upp á því að banka upp á í tíma og ótíma til að kvarta undan engu og öllu.
Hefur þetta leitt til þess að allir eru farnir að forðast þessa konu eins og pestina og veigra sér við að nota stigaganginn, eða opna hurðina ef ekki er von á gesti.
Er þetta auðvitað bara sorglegt.

Í gær var ég á harðahlaupum niður stigann þegar að konan stendur allt í einu fyrir framan mig eins og þrumuský í framan og er að óskapnast yfir einhverju ógurlegu. Þar sem að ég gat ekki komist framhjá henni án þess að hún færði sig varð ég að stöðva framgang minn og hlýða á konuna. Skildist mér að málið væri að einhver heimilishjálp hennar hefði ekki komist inn til hennar vegna þess að dyrabjallan hennar væri biluð. Ég spurði þá af hverju heimilishjálparkonan hefði ekki bara ýtt á aðra bjöllu. Þá varð hún alveg galin. Þar sem að ég var á hraðferð varð mér á að segja: ”Æi, (nafn) mín. Ekki vera alltaf svona neikvæð, það er svo leiðinlegt þetta endalausa tuð” um leið og ég smokraði mér framhjá henni og hljóp áfram niður. Frúin gargaði eitthvað á eftir mér og ég kallaði:”Suss, ekki neikvæð!” og út var ég rokin.

Þegar ég kom heim seinna um daginn kom ég við í þvottahúsinu. Er ég skrönglast upp með fullt fangið af þvotti sé ég að konan stendur í hurðargættinni sinni og þar sem ég geng framhjá henni ...ULLAR hún framan í mig!! Mér bregður svo við að stundarkorn er ég frosin. Áður en ég veit af er ég búin að ulla á hana á móti og held svo áfram leið minni, ekki viss um hvort ég eigi að hlæja eða gráta.
Þá kom það. Konan æpir á eftir mér: ” Þú ert bara helv**** hó**!!!!”
Nú fauk í mína. Ég snéri mér við og sagði konunni að skammast sín.
Hún ætlaði að fara að bæta í munnsöfnuðinn en ég endurtók:”Skammastu þín, svona segir maður ekki við fólk!” og hún þagnaði. Ég fór inn til mín í sjokki.
Hvernig tekur maður á svona löguðu?
Og ég sem hef ekki verið við karlmann kennd í laaaaaaangan tíma.

það sagði hún þá.......

Tvíburi

Ég er fædd með tvíburabróður í rassinum. Það er alltaf pínu fyndið að segja þetta, þar sem þetta er heilagur sannleikur. En ef ég orða þetta á annan hátt þá er málið svona: Rétt fyrir ofan rófubeinið á mér var lítið gat, sem enginn sá, en ég hins vegar fæddist með. Margir fæðast með þennan kvilla og geta þessi göt verið á ýmsum stöðum - en þessi er þó algengastur. Þegar að fólk vex úr grasi á þetta gat til að láta á sér kræla með þeim hætti að það sem er í raun innan í gatinu fer að vera með vesen. Ýmislegt getur komið þessu af stað svo sem útreiðartúrar, eða aðrir reiðtúrar, en þá bólgnar þetta út og verður óskaplega sárt fyrir þolanda að sitja, liggja, standa eða bara .......vera. Þá þarf oft að skera í bólguna og hleypa úr því veseninu. Í mínu tilfelli var þetta 6 sm djúpt 3 sm vítt gat (að innan) og í því voru skinn, hár, beina og tannaleifar - hence the name - ”Tvíburabróðir”. Ég var um tvítugt þegar ég skreið nær dauða en lífi inn á spítala með bólgu á stærð við appelsínu, faðir minn er nefnilega læknir, sama þar og með píparann, rafvirkjann og .....já þið skiljið. Ég var s.s. skorin upp og svo hent inn á stofu sunny side up og morfín í æð. Ég var ung og óhörnuð og ákaflega spéhrædd. Það stöðvaði þó ekki skurðlækninn, sem á öðrum degi mætir inn á stofu hjá mér með hóp af læknanemum sem raða sér í kringum rúmið mitt. Án þess að yrða á mig sviptir hinn góði læknir af mér ábreiðunni og byrjar að pota, benda, ýta og glenna upp á mér bossalinginn á meðan hann talar latínu við áhugasama nemana sem eru nú komnir með nefin nánast ofan í gilið. Ég feikaði meðvitundarleysi.....og geri reyndar enn.


það sagði hún þá.......

Tannsteinn

Í morgun þurfti ég að fara til tannlæknis í annað skiptið á einum mánuði, eftir 6 ára fjarveru. Planið var að fjarlægja tannstein.

Eftir að hafa séð mig í síðast þar sem einungis var framkvæmd skoðun og ég leið nærri útaf vegna hræðslu,var ákveðið að fara nýja leið. Kellingin hafði fengið pillu með sér heim, sem hún svo tók klukkutíma áður en farið var í tannsteinspartýið.
Pillan átti nánast slá mig út og ég yrði í kæruleysis rússi milli svefns og vöku á meðan á plokkinu stæði.
Vandamálið var þá að koma sér á staðinn.
Hringt var í bróður sem lofaði að redda málunum.

Nóttinni var eytt í martraðir dauðans, þar sem fyrir komu ógeðfelldir tannlæknar með kvalarlosta og handsnúna bora ásamt ýmsum tannleysingjum sem ég nefni ekki hér. Klukkan fimm gafst ég upp og skrönglaðist framúr. Páfagarður var heimsóttur nokkrum sinnum og eitthvað var ætt um gólf.

Í bílferðinni inn eftir réri ég mér fram í gráðið í framsætinu sem galóð væri, óðamála og skíthrædd, því að pilluhelvítið var ekki að virka. Hún var ekki að virka.

Tannsteinninn plokkaður, ég með fullri meðvitund og eins og fulldekkað borð, plankastíf í stólnum. Skjálfti, sviti, viðbjóður. En þessu lauk og ég er allt í einu með sköllótttar tennur sem tungan þekkir ekki. Ég hafði ákveðið að ganga bara heim, en viti menn!
Eftir að ég var búin að borga milljónina sem þetta kostaði gerðist nokkuð merkilegt.

Pillan fór að virka.

Þar sem að enginn sá sér fært að sækja mig úr hremmingunum var afráðið að hringja á leigubíl. Út í hann drattaðist ég sem dauðadrukkin væri klukkan rúmlega níu að morgni og bað bílstjóran þvoglumælt að skila mér heim. Skildi ekkert í því að hann virtist ekki vita hvar það væri. Bílstjórinn með 20 ára reynslu fann nú samt út úr því á endanum.
Kannski hefur hann skutlað mér áður.

Þá tóku við hæðirnar fjórar. Guði sé lof að ég mætti engum í stigaganginum á þessari ferð minni. Hvernig útskýrirðu svona lagað?
Miðaldra kona á fjórum fótum skríðandi upp tröppurnar heim til sín snemmmorguns á fimmtudegi, tautandi: ”alveg að koma, alveg að koma.....alveg......”

Svaf eins og grjót í þrjá tíma. Hefði betur sofið í einn hjá tannsa.

það sagði hún þá.......

Sumar?

Hafið þið tekið eftir því hversu uppteknir Íslendingar eru af veðrinu?
Það líður ekki sá dagur að ég lendi ekki í umræðum um veðrið.
Þetta er mjög merkilegt vegna þess að í raun er nánast alltaf sama veðrið á Íslandi.
Kalt, blautt og vindasamt.
Samt höldum við á hverju ári að það komi alvöru sumar, með sól og yl og göngum jafnvel svo langt að tala um vor!

Ég hef undanfarin 7 ár verið að vinna á Sumardeginum fyrsta og ávallt undir berum himni. Man ég ekki eftir einum slíkum degi þar sem ég var ekki íklædd lopapeysu og húfu með sultardropa á nefi óskandi fólki skjálfandi til hamingju með sumarið.
Bjartsýni þessa sama fólks var líka unun á að líta þar sem að létt og ljósklæddir foreldrar mættu með ungana sína íklædda spánnýjum sumarfötum ættuðum frá heitum löndum og síðan skulfu allir saman í kór. Eftir að hafa fokið eins og eina skrúðgöngu var leitað skjóls um stund innivið þar sem boðið var upp á heitt kakó, (aaaa...hvað er sumarlegra en heitt kakó?) en því næst var barist út aftur til að börnin gætu fengið að hossast um á hestbaki í tilefni dagsins. Á meðan að barnið fór hringinn stilltu foreldrar sér upp með bakið í vindinn og vonuðu innilega að túrinn tæki fljótt af. Þetta er auðvitað bara bráðfyndið og með ólíkindum að enn sé haldið í siðinn.

Á 17. júní, u.þ.b. tveimur mánuðum síðar ætti nú að vera komið sumar, en þar sem ég hef einnig unnið á þeim degi síðustu 7 ár get ég sagt með sanni að oftast voru allir mjög glaðir að skemmtanahald var innivið. Þá var hægt að þræla sér í gönguna, vitandi að við endann var skjól. Í fyrra var hins vegar mjög gott veður á 17, júní í fyrsta skipti á þessum ferli mínum. Stóð ekki á því að allir voru sammála og höfðu um það hátt, að halda ætti upp á daginn útivið hér eftir. Allir búnir að gleyma síðustu árum.

Kannski er það málið. Við Íslendingar erum bara svona gleymnir og þess vegna búum við hér áfram. Á hverju ári bíðum við glaðbeitt og brosandi eftir vori, sumri, og hausti sem aldrei kemur og gleymum að hér ríkir nánast eilífur vetur. Við lifum á þessum einstöku, óvanalegu sólardögum sem kíkja hér við en gleymum hinum. Kannski sér vindurinn um að feykja þessum slæmu minningum út í buskann? Blessað sé rokið.

það sagði hún þá.......

Leikur

Dagurinn rann upp bjartur og fagur……. Um sex leytið.
Því næst varð hann dimmur og grár. Loks blautur og kaldur. Áður en varði var kominn fimbulvetur. Ég var búin að skipta fjórum sinnum um föt og gafst loksins upp.
Það var þó orðið nokkuð ljóst að ekki yrði farið í útileiki.

Keyrði vestur í bæ og sótti enn eitt snilldarbarnið sem alist hefur upp í hvatningu kerlingar. Sá hinn sami er undrabarn og spilar á gítar (acoustic og rafmagns), bassa (kontra og rafmagns) píanó, hljómborð, orgel, saxófón, melodicu, munnhörpu, syngur, leikur, gengur vel í skólanum, er í hljómsveit OG er félagslega vel staddur.
Er hægt að biðja um betra sidekick?

Á skemmtistað var barist í gegnum haglél dauðans sem var harðákveðið í að berja úr okkur allan sumar og gleðifíling, en listamenn eru ekkert ef ekki sveigjanlegir.

Blásið var í lófa, hrist í sig yl og gengið til fundar við gin ljónsins.

Sagan af Hans Klaufa lesin með undirspili, hljóðeffectum og leiktilburðum. Gargað míkrófónlaust í tjaldi (það er spes og einkar gott fyrir raddböndin).
Þurfti iðulega að stilla mig af til að detta ekki í hálsrembinginn og færa niður í þind.
Unglingurinn klikkaði ekki, allt undirbúið eins og “mamman” hafði beðið um.
Gamla kunni sjálf ekkert utanað - enda enginn tími til heimalærdóms.

Gera þurfti þó hlé á lestri um stund (3 mínútur, sem er eilífð á sviði), þegar að mesta haglhrynan gekk yfir því það buldi svo á þakinu að ekki heyrðust orða skil. Lítið gagn í að þruma yfir aumingjans börnunum og líta út eins og ofvirkur, hljóðlaus geðsjúklingur fyrir vikið. Ég beið - og bað.

Hópsöngur. Búmmatsjikkíbúmm! Gaman að reyna á höftin. Þeir fullorðnu feimnir og fóru hjá sér, börnin öpuðu því miður mörg eftir þeim, nokkur fjáls og óháð tóku þátt af öllum mætti. Okkur unglingnum fannst gaman.

Þá var það leikurinn. Alltaf fyndið að sjá hvað kynin eru eitruð gagnvart hvort öðru á vissum aldri. Ekki um það að RÆÐA að leiðast. SÉNSINN!!!

Kvödd með virktum og klappi. Nokkrir orðnir óþekkir í lokin, farnir að sprella óumbeðnir. Þá er tilganginum náð.

það sagði hún þá.......

Að gefa

Brósi horfði út á svalirnar og spurði mig, voðalega hissa í framan:
“Ertu að gefa fuglunum brauð?”
“Já” sagði ég. “Það gleður mig að einhver skuli borða það”
”En áttu ekki nóg með sjálfa þig?” spurði hann, enn meira hissa.
”Jú” sagði ég. ”En það er gott að gefa öðrum, þegar þú átt eitthvað að gefa” sagði ég.

það sagði hún þá.......

Heimaskemmtun

Lótintóta og Lumbrulamb héldu af stað í vettvangsferð í sveit til að skoða alíslenska skemmtanamenningu sem þar átti að vera veltandi um í móum og kjarri flatlendis Íslands, en ryðgaði grænfriðungurinn sem nafn Almera ber var þó ekki alveg að fíla að skreppa úr öryggi bifreiðaverkstæða höfuðborgarinnar, auk þess sem að einungis virtist bæta í frekar en draga úr rigningardembunni eftir því sem að skrjóðurinn skrölti austar.

Því var brugðið á það ráð að gefa skít í blautar tjaldbúðir og falskt gítarglamur og dvelja í stað í borg ósómans og óttans og planað að athuga hvort eitthvað væri þar í boði fyrir framleiðnar konur með lafandi barma og signa rassa. Úrvalið virtist nú einskorðast við fólk með ungabörn í eftirdragi og annan óæskilegan félagsskap sem eigi hentar vel í sukki og endaði því allt við tvímenning í Hlíðarstofu, en hún er búin diskasafni sem gæti gert Pál Óskar öfundsjúkan.

Unglingurinn hafði svikið lit, gerðist púrítani og var farinn í sumarbústað með eiginmanni og tengdamömmu og Lótintóta því verið leyst undan skyldustörfum sínum allsendis óvænt, en þá hafði alveg gleymst að koma við í “mjólkurbúðinni” fyrr um daginn. Það var því brugðið á það ráð að skreppa í “viltu lána mér” ferð um stigaganginn sem endaði á því að stöllurnar hefðu hæglega getað rekið sinn eigin bissness í “góðum” bílum langt fram eftir helgi.

Útbúnir voru ýmiskonar klonkteilar með reffhlífum og urru skruti og skemmt sér við blöndun ógeðisdrykkja á meðan að Svalur og félagar ásamt fröken Summer léku undir borðum. Nóttin leið hratt í diskaþeytingum og rassaköstum og er ekki frá því að Lótintáta hafi skemmt sér betur en hún hefur til langs tíma enda voru harðsperrur í munnvikum og rifbeinum áberandi þegar ræst var í morgunsárið.

Það þarf ekki alltaf að leita langt yfir skammt þegar sækja á skemmtun.

Heima er best.

það sagði hún þá.......

Símonætis ...

er sjúkdómur sem hefur einkum lagst á fólk ættað að vestan eða innan úr Skagafirði eða hvorutveggja. Lýsir sjúkdómurinn sér í meginatriðum þannig að þegar að fólk úr þessum ættum hefur bragðað áfengi er eins og yfir það komi ólýsanleg þörf fyrir að hringja í ættingja eða vini og hella yfir það skömmum og dónaskap en einnig hefur verið eitthvað um röfl og s.k. síendurtekningar. Forðast má þessi einkenni með því að hætta neyslu áfengra drykkja.

það sagði hún þá.......

Cheap talk

If talk is cheap - why do we then pay pshyciatrists loads of money to do just that- talk?

það sagði hún þá.......

Tónlist

Maður hefur nú, maður hefur nú, lent í öðru eins í vetur og staðið sig og staðið sig svo miklu, miklu, miklu, miiiiiiiklu betur.

Sat og hlustaði á Jónas og Diddú í gærkveldi. Var það gott.
Spottið kom inn og sagði:
”Manstu mamma þegar þú varst alltaf að gera svona við mig”.

Það man ég.

Þegar hún var lítil reyndi ég eftir fremsta megni að ”kenna” henni að ”hlusta” á tónlist. Finna tónlist. Sjá tónlist. Upplifa tónlist.

Þegar hún var bara tveggja ára var þetta auðvelt. Við einfaldlega lékum lögin saman. Ímynduðum okkur hvað væri að gerast. Hugurinn var svo óheftur og frjáls að það fór allt á flug. Um stofuna var skutlast fram og til baka, lýsingar voru ótrúlegar, litla andlitið svo kómískt og skemmtilegt þar sem það fetti sig og bretti. Eina lagið sem mátti aldrei spila var Air on G string eftir Bach, þá fór litla neðri vörin að titra og mamman var grátbeðin um að taka ”vonda” lagið af. ”Það er sárt mamma, sárt”. Sorgin og treginn greinilega þetta áþreyfanlegur á unga aldri. Eftir því sem hún varð eldri reyndist þetta þó erfiðara þar til að að því kom að þetta þótti einfaldlega ótrúlega hallærislegt.

Ég tel samt að hún búi ávallt að þessu og komi til þess að njóta þess seinna, en aldrei kom ég henni til að langa að læra á hljóðfæri. En þetta voru yndislegar stundir.


það sagði hún þá.......

Ríkisstarfsmenn

Ég hef á löööööngum ferli sem bæjar og ríkisstarfsmaður orðið vitni að ýmsu athygli verðu í fari fólks sem alla jafna situr þá stóla sem tilheyra þessum batteríum. Einkum er það merkilegt að því ofar sem starfsmaður er í goggunarröðinni því minna virðist skila sér frá honum, en hinsvegar þarf flestallt sem honum er rétt að fara fyrir nefnd. Allt virðist óskaplega þungt í vöfum og taka mikinn tíma, en staðreyndin er sú að alla jafna eru fæstir í vinnunni og margir sem eru í vinnunni eru gjörsamlega úti á túni þegar kemur að því að vita hvað þeir eiga að gera. Setningin:" Það er ekki í mínum verkahring" er mikið notuð og endalaust er hægt að benda á næsta mann þar til loks kemur að því að bent er á auðan stól þar sem situr einmana jakki sem einhver Guðmundur á víst, en hann virðist alltaf vera á fundi. Guðmundur er að vísu löngu hættur að mæta en fær þó ennþá tékkann sinn þann fyrsta hvers mánaðar svo lengi sem jakkinn er á stólnum. Lögbundnir kaffitímar og matarhlé eru hvergi virt af jafnmikilli ástúð og sannfæringu og á þessum stofnunum, enda loka sumar þeirra í matartímanum, sem á móti er kannski eini tíminn sem hinn almenni borgari hefur til að útrétta. Almenn fýla og neikvæðni einkennir ávallt vissan hluta fólks á þessum stöðum og virðist oft vera búið að murka úr þeim húmorinn fyrir æviráðninguna, en einnig er smámunasemin oft á tíðum stórkostleg og hægt er að eyða heilu dögunum í að ræða kaup á plastpokum. Margir þessara fýlupúka sitja og bíða færis að geta nappað einhvern fyrir að gera mistök í miðju góðverki og geta þá nöldrað yfir því út í hið óendanlega. Þessar týpur sjá allt sér til foráttu og þola ekki ef vel er gert því þá er ekkert til að kvarta yfir.

Á stað þar sem engin er yfirstjórnin og flestir hafa ekki hugmynd um hvaða starfi eða hlutverki þeir gegna verða til margir smákóngar. Þeir líta hins vegar ekki á sig sem slíka heldur sem kónga í ríki sínu og vei þeim er fara inn á þeirra svið. Þessir kóngar berja sér gjarnan á brjóst, hafa hátt og eru með stórar yfirlýsingar. Þeim finnst fátt skemmtilegra en að dreifa tilkynningum á starfsmenn þar sem beðið er um að þetta og hitt sé gert, en eins og með flest sem að þeir gera er eftirfylgnin engin enda skiptir þá engu máli hvað gerist í raun. Þeir eru búnir að gefa skipunina, það er annara að framkvæma og ekki þeirra mál. Í raun er það svo fíflið - húsvörðurinn - sem ræður öllu og ekki gott að styggja hann, enda hefur hann alger lyklavöld og umsjón með klósettpappírnum og hefur því í raun umsjón með aðalrekstri stofnunarinnar.

Aðalstarfsemin er svo í höndum ungra og saklausra starfsmanna sem detta inn í tímabundin störf á sumrin eða rétt eftir skóla og hörkuduglegu og samviskusömu konunnar sem hefur unnið þarna svo áratugum skiptir fyrir lúsarlaunum án þess að fá svo mikið sem klapp á bakið. Kona þessi er með allt á hreinu og gengur um með höfuðið á undan sér í skynsömu pilsi og rúllukragabol. Hún másar örlítið þar sem hún þrammar á undan þér upp tröppurnar á ecco skónum og útskýrir mál sitt í leiðinni til þess að eyða engum tíma til einskis. Hún hefur komist yfir ótrúlegt magn af lyklum sem glamra hátt við hvert skref. Þetta er konan sem segir alltaf elskan mín við þig og útskýrir hvers vegna þú þarft 10 eyðublöð til að fá einn pakka af blýöntum. Það eru hennar líkar sem að halda öllu gangandi og hana er gott að þekkja.
Ég hefði gaman af því að láta gera almennilega úttekt á þessum stofnunum. Hversu margir mæta til vinnu, hver eru afköstin, hvaða fólk er nauðsynlegt og hvað ekki og hreinsa svo til. Líklegt er að uppi stæðu nokkrar vaskar konur og örfáir unglingar.
Ég sé það hinsvegar ekki gerast þar sem að það er gott að vera kóngur í ríki sínu og kóngar hafa yfirleitt hirð í kringum sig.

það sagði hún þá.......

Óttinn

Okkar dýpsti ótti er ekki að við séum ekki nógu góð.
Okkar dýpsti ótti er sá að við séum valdameiri en við gætum mögulega ímyndað okkur.
Það er ljósið okkar, ekki myrkrið sem hræðir okkur mest.
Við spyrjum, hvað á ég með að vera frábær, hæfileikarík/ur, stórkostleg/ur?
Í raun er það, hvað ættirðu ekki að geta verið? Þú ert barn almættisins. Það að þú gerir lítið úr þér gerir heiminum lítið gagn. Það er engin hugljómun í því að gera sem minnst úr þér til að annað fólk verði ekki óöruggt innan um þig. Við erum fædd til að sýna í verki þá dýrð sem almættið er sem býr innra með okkur. Það er ekki einungis innra með fáum útvöldum, það er innra með öllum. Þegar við látum ljós okkar skína, gefum við ómeðvitað öðru fólki leyfi til að gera slíkt hið sama. Þegar við losnum undan okkar eigin ótta, mun nærvera okkar samstundis frelsa aðra.

það sagði hún þá.......

Blint stefnumót

Er að hugsa. Blint stefnumót. Það er ekki blint. Tæknilega. En hvað ef fólk færi raunverulega á blint stefnumót? Bara bundið fyrir augun allan tímann. Við finnum lyktina af ferómónunum ekki satt (og skítalyktinni ef hún er fyrir hendi - sem er þá totalt no go)? En oftast er það útlitið sem rústar öllu. Er mannfólkið svona hégómagjarnt? Að vísu er þetta alltaf smekksatriði, en... samt. Eitt sumar var ég ofboðslega ástfangin af manni sem ég talaði við daglega í símann, þar sem ég vann. Við döðruðum hægri vinstri og mér fannst hann æði! Skemmtilegur, sexý, klár og frábær í alla staði. Einn daginn mætti hann á staðinn. Má ég bara segja að mér fannst hann ekki ........fyrir mig. (shame) Af hverju er þetta svona? Er það ekki manneskjan, persónan, hinn innri maður sem er málið? Þannig vil ég sjálf vera metin.....eða hvað?
Hvað er málið með þetta útlit? Ég vil ekkert eiga einhvern snoppufríðan fávita, en ég gef kannski ekki þeim sem ég hitti svona í framhjáhlaupi og heilla mig eitthvað andlega, séns á að verða fallegir í mínum augum. Ég hef orðið ástfangin af skriflegum samskiptum en svo hitti ég viðkomandi og vindurinn fer úr seglunum. En......Allir sem mér þykir vænt um eru fallegir í mínum augum. Allir! Kannski spurning um að fá sér blindragleraugu- sem gera mann blindan - og ganga bara með þau í einhvern tíma.

það sagði hún þá.......

Til-finningar

Mörgum verður oft tíðrætt um tilfinningar. Oftar þó um þær ”góðu” en sjaldnar þær ”slæmu”. Mér finnst persónulega eðlilegt að tala um tilfinningar mínar og einnig sýna þær, vegna þess að þannig er ég gerð og hef ávallt verið. Ég hef aldrei verið fylgjandi þeirri stefnu að fela tilfinningar mínar, bera þær ekki á torg, láta eins og ekkert sé o.s.frv. Ástæða þessa er sú að tilfinningarnar eru svo stór partur af okkur og geta breytt sýn okkar á allt og alla í kringum okkur. Sum okkar – ykkar elskuleg þar með talin – erum þeim ókosti búin að eiga erfitt með að hafa stjórn á þessum tilfinningum. Þær fara því stundum að stjórna okkur. Það getur stundum endað illa – en persónulega hefur mér þó alltaf líkað betur við innsæið mitt og hjartað, heldur en rökhyggjuna sem stundum treður sér inn og jafnvel eyðileggur allt. Frekar að renna á rassinn eða fá á túlann og hafa verið samkvæmur sjálfum sér, en að tróna á toppnum með skítuga samvisku. En ég er líka á móti því að það sé ávallt verið að tala um slæmar og góðar tilfinningar og þar með setja okkur í þá stöðu, að ef okkur líður ekki vel eða erum ósátt, þá eigum við að skammast okkar fyrir þá líðan.Við höfum verið slæm. Ég vil tala um dimmar og bjartar tilfinningar því að þær spanna jú allan litaskalan þessar elskur og reiði er ekkert verri en gleði – hún er líka tilfinning, en hún er dimm. Aðalmálið er hvernig við tökum á þessum tilfinningum. Það á ekki að vera bannað að tala um dimmu tilfinningarnar en leyfilegt að tala um þær björtu (jafnvel hrópa þær af skókassa ofan í bæ) og þar með loka þær dimmu innan í sér og láta sjálfan sig halda að allir í heiminum séu glaðir nema þú og þar með skammast sín heil ósköp yfir þessari ólund. Fólk sem er alltaf í Pollýönnuleik og þykist alltaf vera í góðu skapi á bara bágt að mínu mati, því það getur ekki verið að það sé mjög mennskt. Finnst mér það líka bara falskt og ég treysti þeim ekki. Við erum fædd með allar okkar tilfinningar – ekki bara þessar björtu. Það er hins vegar til fólk sem að hefur náð góðum tökum á lífinu sínu, er sátt við sjálfan sig og sitt nánasta, hefur átt góða að og auðvelda ævi og er því í sannleika glatt og ánægt – uppfullt af björtum tilfinningum. Það fólk er heppið, en afar sjaldséð. Hins vegar eru margir sem eru alltaf í þykjó leik vegna þess að það má ekki segja það sem þeim finnst. Það má ekki láta í ljós óánægju sína. Þá fer að grassera og bulla innan í þeim potturinn sem að svo kannski gýs einn daginn og sprengir allt í loft upp, jafnvel eitthvað sem þeim var kært. Eða étur það upp að innan, en þá heitir það krabbamein. ( það er mín skoðun) En ég mun alltaf segja satt. Hvort sem ég er dimm – eða björt. Ef ykkur líkar ekki hreinskilnin, má alltaf sleppa því að lesa. Það er nefnilega val.

það sagði hún þá.......

Miz Lion

Var minnt á gamla píanókennarann minn í gær. Hafði að vísu séð á henni smettið utaná einu pjásublaðinu um daginn en varð svo um að sjá þetta andlit martraða minna flennt út og strekkt á forsíðunni að ég máði það úr minninu. Það náði þó ekki að liggja í dvala lengi þar sem að einhver minntist á að slá á fingur við æfingar og allt í einu varð ég sex ára aftur. Frúin sem átti að kenna mér á hljóðfæri drauma minna var valin eftir samtal móður minnar og skólastjóra tónlistarskólans sem ég hafði verið flautunemandi í, en vegna framúrskarandi hæfileika á blokkflautuna átti ég nú að fá að komast í “alvöru” tónlistarnám. Kennarafrauka þessi átti nefnilega að vera svo einstaklega flink og fagleg, sú besta í bissnessnum, en það láðist að nefna að hún væri ekki mannleg, hataði börn og fyndist hrein kvöl og pína að umgangast þau. Í tvö ár mætti ég til þessarar hræðilegu kerlingar***** þar sem hún lamdi inn í mig nótnalestur og fingraæfingar af þvílíku offorsi að ég kláraði nokkur stig á einu bretti og það allt af einskærri hræðslu við hvað hún myndi gera ef ég klikkaði. Hún notaði til þessa sína hvellu og ógnandi rödd ásamt naglaþjölinni góðu sem hún beitti ópart á fingurna á nemendum sínum þess á milli sem hún sat út við horn á skólastofunni, horfði út um gluggan og pússaði á sér neglurnar með henni. Athugasemdirnar í tímum voru eftirfarandi: Nei! Aftur! Vitlaust! Þess á milli var lítið sagt og ekki var mikið um uppörvandi orð. Með einhverju móti tókst henni að finna öll þau leiðinlegustu og andstyggilegustu verk sem hafa verið samin fyrir þetta hljóðfæri, en sem betur fer hafði ég sjálf næmt eyra og hafði upp á tónverkum sem höfðuðu til mín og æfði mig á þeim sjálf heimafyrir. Það varð stundum til þess að naglaþjölinni var beytt ótæpilega í næsta tíma, en bjargaði áhuga mínum á píanóinu.
Seinna átti ég eftir að fá yndislegan píanókennara sem enn þann dag í dag er að spyrja mig hvenær ég ætli að koma og spila fyrir hana aftur, þrátt fyrir að ég hafi hætt að læra um það leiti sem ég byrjaði að sofa hjá. Ég er enn að gæla við hugmyndina um að láta verða að því að byrja aftur. Vantar bara píanóið, það er heima hjá gömlu.

það sagði hún þá.......

Mindfulness

Er búin að vera að velta “mind over matter” kenningunni mikið fyrir mér.
Ákvað að fara að kenna teygjutíma með hugann stilltan á að ég gæti alveg farið í splitt og spíkat. Hugsaði bara:”svo fer ég í splitt og spíkat”
Hvað haldiði?
Hún bara renndi sér í splitt og spíkat!
The power of thought!!!!!
Á eftir ætla ég að segja mér að ég skilji algebru.


það sagði hún þá.......

Maraþon

Þar sem að núverandi vinnustaðurinn minn var lokaður um páskana var það óhjákvæmilegt að manneskja sem er vön að sprikla allt upp í fimm tíma á dag, fengi alvarleg fráhvarfseinkenni. Það var þó ekki fyrr en á sunnudagseftirmiðdeginum sem ástandið var orðið óþolandi. Hvað átti ég að gera? Ég á eftir að fá mér ný hjól á línuskautana og reiðhjólið var með unglingnum hjá pabbanum. Það var því ekkert annað í boði en að skokka. Ekki mín uppáhalds tegund af hreyfingu og ansi langt síðan að ég hef farið út að hlaupa, enda engin þörf verið á.
Ég gallaði mig upp, setti á mig húfu til að vera örugg um að enginn þekkti mig og hélt af stað. Þegar hálftími var liðinn, ég komin langleiðina upp í Árbæ og ekki enn orðin móð fóru að renna á mig tvær grímur. Hvað var að mér? Hvar var súrefnisverkurinn í brjóstinu? Krampinn í kálfanum, verkurinn í mjóbakinu? Allir þessir þættir sem hingað til hafa stuðlað að því að ég hef komið mér undan því að skokka voru horfnir. Ég var orðin þindarlaus!! Ég ákvað samt að snúa við á þessum tímapunkti því ég vildi ekki enda eins og Forrest Gump, en þetta var merkileg reynsla. Býst við að ég geti sagt að ég sé í nokkuð góðu formi. Spurning að hlaupa í maraþoninu í sumar. Kemur einhver með?

það sagði hún þá.......

8.5.03

Datt niður í ógeðslega fýlu í gær - Er jafnvel í henni ennþá. Er orðin leið á að lifa eins og skítalabbi.......þ.e. ég hef aldrei tíma né orku í að gera fínt heima hjá mér - enda væri það líka hálf vonlaust því það er allt að hruni komið þar og sést ekki einu sinni munur ef ég þríf!!! Það er allt sjúskað, ljótt og slitið. Mig langar að henda ÓGEÐSLEGA sófasettinu mínu...........................reyndar langar mig bara að henda þessu öllu saman. Þetta er allt jafn ógeðslegt.Ég finn ekki íbúð sem að ég get keypt og ekki sel ég mína fyrir gott verð í því ástandi sem hún er í núna. Ég leita og leita og nú er fólk farið að segja mér að flytja bara út á land. Afhverju á ég að þurfa að flytja út á land til að hafa það sæmilegt????? Flytjið bara sjálf út á land!HVAÐ Á ÉG AÐ GERA??? Faðir sæll segir mér örugglega að ég sé bara væluskjóða - enda lifði fólk á súrsuðu spiki í gamla daga, bjó í óupphituðum holum og kvartaði ekki. (Yeah right!) Ég hef aftur á móti allt til alls og á að skammast mín. (ekki að ég viti hvað þetta allt til alls er........ónýt íbúð - gömul ónýt húsgögn sem voru gömul þegar þau voru keypt fyrir 16 árum, vinnu sem er erfið og borgar ekki rassgat, bíl sem er ónýtur og annan í láni þar til bráðum, risa skuldir, heilsuleysi, ljót gömul föt, ónýt heimilistæki, ekkert félagslíf, engan mann, ungling sem skilur ekki afhverju hún er púkalegust í bekknum og afhverju mamma hennar á ekki alltaf fyrir bíó, brotið hjarta, sært stolt.......á ég að halda áfram? ) Pabbi - ég var ekki fædd árið 1903 og ég var alin upp á heimili ykkar mömmu og á því góðu að venjast. Það var kannski ekkert bruðl og ég átti ekki endilega meira en aðrir en ég átti nóg. Ég leið engan helvítis skort. Frá því að ég flutti að heiman 18 ára gömul hef ég verið í þrælkunarbúðum sem au pair stúlka hjá ömmu satans í USA, ég hef verið ógeðslega fátæk í Noregi, ég hef aldrei átt pening sem ég hef getað eytt án samviskubits, ég eignaðist fyrst íbúð 33 ára gömul - þar til þá var ég í leigu, öll mín húsgögn eru gefin eða keypt í second hand búðum, ég hef alltaf keypt mér það næstbesta hvort sem er í vöru eða þjónustu - stundum jafnvel það versta. Ég er andskotakornið ekki að biðja um einhvern lúxus - ég vil bara fá að lifa eins og manneskja. Ég vil koma heim til mín og finnast það gott. Ég vil sitja í stofunni á heimilinu mínu og líða vel. Ég vil bjóða barninu mínu upp á staðgóðar og hollar máltíðir og ég vil að hún gangi í fötum sem að eru ekki orðin of lítil á hana. ER ÞETTA ROSALEGA FREKT? Ég er orðin bitur, fúl og reið kona og verð það líklegast til dauðadags nema að eitthvað stórkostlegt gerist. Á laugardaginn er ég að vonast til að einmitt eitthvað þannig gerist þegar að þjóðin gengur til kosninga - en einhvernveginn hef ég á tilfinningunni að það sé ekki í vændum. Það getur vel verið að mörgum finnist ég vera materíalísk og að ég eigi að þakka fyrir það sem ég hef. Jú ég þakka fyrir að eiga heilbrigt barn - góða vini - og....og...og... ja hvað meira? Allt annað virðist vera í rassgati. Ég hef ekki einu sinni heilsuna - þó svo að ég sé kannski ekki með krabbamein - Ég er ekki að heimta neitt. Ég er bara að biðja um að fá að lifa mannsæmandi lífi og ég vil að mér líði vel. "Hættu þá að væla þetta" myndu sumir segja " og gerðu eitthvað í því"! Þeir sem hafa verið vonlausir vita að þetta er ekki svona auðvelt - þeir sem hafa ekki verið það eiga að halda sér saman. Ég þekki fólk sem var þunglynt og drykkfellt af vonleysi svo áratugum skiptir en telur sig nú hafa rétt til að segja mér að hætta að væla vegna þess að það lagaðist eða breyttist eitthvað hjá þeim. Maður líttu þér nær er bara mitt svar við þvi. Það er alltaf auðvelt að predika og það er alltaf auðvelt að segja öðrum til, það er alltaf auðvellt að skella fram frösum - það er bara ekki alltaf eins auðvelt að gera þessa hluti. Ég býðst hér með til að skipta við einhvern sem lifir áhyggjulausu lífi í öruggu húsnæði, með ágæta innkomu. Skiptumst á lífum í c.a. einn mánuð eða svo og sjáum hvernig við fílum það. Hmmm? Það getur vel verið að fólki finnist ég leiðinleg, vælin, vanþakklát, svartsýn, neikvæð og miklu meira til.....EN ÉG ER BARA UPPGEFIN!!!! ÉG NENNI EKKI AÐ LIFA SVONA LÍFI - ÞAÐ ER HUNDLEIÐINLEGT OG ANDSTYGGILEGT!!!! Kallið mig fýluprump - mér er alveg sama, ég veit það best sjálf.

það sagði hún þá.......

15.5.03

Var komin á fætur fyrir sex í morgun. Vaknaði bara eins og hvert annað gamalmenni og gat ekki sofið lengur. Fór samt ekkert svo snemma að sofa. Það var samt ágætt - klukkan átta var ég búin að fara í leikfimi, borða morgunmat, lesa blaðið og setja í eina vél. Það væri kannski fínt ef að maður vaknaði alltaf svona sprækur. Er annars með hálfgerðan móral yfir fýlublogginu um daginn - en svona er þetta bara. Suma daga er maður bara pissed og aðra skárri!!! Það er að koma helgi aftur og ég skil eiginlega ekki hvernig stendur á þessum hraða. Tíminn bara flýgur áfram og maður hefur varla tíma til að taka eftir. Það væri kannski best að fara að undirbúa jólin hvað úr hverju svona til að vera reddí þegar þar að kemur! Ég held að það sé orðið of seint að plana einhverja skólagöngu í haust - búin að missa af öllum deddlænum. Er hvort eð er ekkert búin að ákveða hvað ég ætla að verða þegar ég er orðin stór. Ég ætlaði alltaf að verða leikari - eða frá því að ég var sex ára og fór að sjá Jesús krist súperstjörnu í Austurbæjarbíói. ( Hef aldrei ákveðið neitt annað ) Man að það var farið með fjölskylduna á miðnætursýningu og ég var látin leggja mig um daginn. Sat svo og skalf af hrifningu og spennu alla sýninguna - fannst þetta æði. Sjokkeraðist allhressilega þegar að Pálmi hengdi sig á sviðinu - líka þegar Jens Hansson - saxófónleikari Sálarinnar - stóð upp í miðri sýningu og spurði hvar klósettið væri! Man annars bara eftir tveimur leikhúsferðum með foreldrunum - hin var Svartfugl í Iðnó. Við fórum ekkert mikið saman fjölskyldan.......eða ég man ekki eftir því allaveganna. man eftir Spánarferð þegar ég var fimm ára. Drukknaði næstum í djúpu lauginni ( Tóti bróðir bjargaði mér ) og lokaðist í lyftu. Spánverjarnir elskuðu mig af því að ég var pínulítil með hvítt hár og blá augu. Fékk alltaf gefins ís frá Tony vegna þessa. Endalausir bíltúrar þar sem að miðstöðin var í botni, engir gluggar opnir út af ryki og pabbi reykjandi frammí - eftir góðan túr í amerísku dýnunni var lillunni alltaf orðið óglatt og endaði úti í vegakanti ælandi. Man eftir ferð í Borgarfjörðin þar sem ég var nærri drukknuð í ánni ( Tóti bróðir bjargaði mér ) Einhverjum bíltúrum að skoða veiðiár með pabba þar sem hann þuldi upp fjallanöfnin - náttúruna.......spurði mig svo út úr á leiðinni til baka - ég mundi aldrei neitt. Ég næstum farin út í Ölfusá í bílnum einu sinni - pabbi náði að rykkja í handbremsuna á elleftu stundu......skrítið að mér skuli vera illa við vatn! ferð til Svíþjóðar og Danmerkur - Tóti bróðir á gelgjunni - ég fékk sólsting eftir að hafa verið í jarðaberjagarði - borða ekki jarðaber í dag. Það er nánast allt og sumt. Kannski voru einhverjar sumarbústaðaferðir en ég held að ma og pa hafi alltaf farið tvö í frí og ég var sett í pössun hjá Eddu frænku ( þar sem ég fitnaði alltaf því þar voru alltaf kaffitímar í eftirmiðdaginn og á kvöldin með heimalöguðu bakkelsi) eða þá að amma gamla kom og passaði okkur öll þrjú. man alltaf þegar að kraninn losnaði af vaskinum á litla baðinu og amma þessi rólega kona stóð argandi og gargandi í vatnselgnum og við Tóti hlógum svo mikið að við gátum ekkert gert. Afhverju er ég þá alltaf með móral yfir því að ég sé ekki að gera neitt með dóttur minni? Þetta er bara lenskan í minni famelíu. Ætla nú samt að reyna að dröslast austur í Hallormsstað með tjald í sumar - eins gott að það verði veður.

það sagði hún þá.......

26.5.03

Snobb er undarlegt fyrirbæri. Fæst okkar viljum vera kölluð snobb en það er nú samt svo merkilegt að ansi margir eru það samt innst inni. Sama á við um fordóma. Margir básúna það út um víðan völl að þeir séu ekki fordómafullir en svo kemur á daginn að svo er ekki þegar að á reynir. En aftur að snobbinu. Hvað er snobb? Jú, það að finnast eitthvað eða einhver fínni en eitthvað eða einhver annar. Margir snobba fyrir peningum, aðrir fyrir menntun, sumir fyrir útliti, frægð, ættum og svo mætti lengi telja. En hvers vegna? Er einhver annar betri manneskja eða meiri vegna einhvers sem er á yfirborðinu eins og áðurtaldir hlutir? Fullt á fólki á Íslandi er frægt fyrir að hanga á börum og kaffihúsum og birtist fyrir það eitt í glansblöðum landsins og fullt af fólki snobbar fyrir því – hvað er málið? Ég hef oft sagt við sjálfa mig þegar að ég hef fundið fyrir því að mér finnst einhver persóna við hlið mér eða jafnvel bara í sjónvarpinu vera merkilegri en ég……..” ja, hún/hann kúkar líka” Það er nefnilega málið. Það kúka allir – og enginn er fínn þegar hann er að kúka. Sumir kúka líka á sig í annarri merkingu. Hversu margir af “flottustu” og “fínustu” einstaklingum þessa lands hafa ekki orðið gjaldþrota oftar en einu sinni – lagt líf sakleysingja í rúst en samt sem áður átt áfram sín einbýlishús og Benza og fyrir það ( að eiga peninga) haldið þeim status að fólk snobbar fyrir þeim og enn birtast myndir af þeim í blöðunum? Ansi margir. Og hvað með menntasnobbið? Fólk er ekki fínt nema að það hafi menntað sig. Ég veit um fólk sem hefur menntað sig í áratugi en vinnur samt sem kennarar á skítalaunum á meðan að Valli sem féll á Samræmdu keypti sér gröfu 17 ára og lifir góðu lífi í dag. Þegar að vaskurinn bilar hjá mér þá kann ég ekki að gera við hann þrátt fyrir að ég sé með fimm ára háskólamenntun. Sama með rafmagnið eða bílinn…..er þá fólkið sem að kann að laga það hjá mér lægra sett en ég vegna þess að það kann eitthvað sem tók ekki fimm ár í háskóla að læra? Iðn og verknám þykir bara ekki fínt. Hvað þá sjálfmenntaðir menn. Þeir einu sem fá virðingu út á það eru þeir sem lærðu ungir að stela og pretta og búa til pening. Ég gæti aldrei haldið það út að vera á sjó – en samt eru sjómenn annars flokks fólk á Íslandi. Svo er það útlitið. Fullt af fólki er fínt fyrir það eitt að vera fallegt. Þú getur orðið frægur fyrir að vera fallegur – sama þó þú sért skítakarakter- og fólk snobbar líka fyrir fegurð. Ég veit um menn og konur sem hafa lufsast um með fallegt dót á arminum sem ekki var einu sinni talandi eða var svo andstyggilegt að ekki var hægt að vera nálægt því, en hékk áfram með því vegna þess að það var fallegt og það að hafa þetta á arminum gaf þeim status. Ég veit ekki um neinn sem að snobbar fyrir mér – enda er ekkert sem að ég hef sem að fellur undir áðurnefndar kategoríur og mér finnst það fínt. Ég ætla að vona að allir sem að kynnast mér og vingast við mig á minni ævi geri það á réttum forsendum. Það getur ekki verið gott að vera orðinn áttræður og krumpaður og hugsa til þess að allir sem þú hélst að væru vinir þínir voru bara með þér af því að þú áttir peninga, varst fallegur eða varst svo asskoti vel menntaður.

Það sagði hún þá........

Komin út

Eftir u.þ.b. 20 mínútna lestarferð, sem ég áttaði mig síðar á að var að mestum hluta undir sjávvarmáli, var mér spýtt út á mörkum Union og Powell, miðpunkti San Fransisco – Ðe túristahorn. Ég var komin heim. Ég hafði íklæðst stuttbuxum og bol í borg byssuskotanna, en áttaði mig fljótt á því að þessi stutta vegalengd á milli þessara tveggja borga skipti þó miklu máli hvað varðar veðurfar vegna þess að Oakland er inni í landi, en Frisco stendur við fjörð. Þar er því oft “pínu” vindasamt og einnig á þokan það til að leggjast yfir hana ef mjög heitt er í veðri og þá verður hreinlega kalt. Það á til dæmis aldrei að ferðast til San Fransisco í Júlí - það er ávísun á lopapeysur og skyggni 0 metrar. En, ég var því frekar ferðalangsleg og púkó þar sem ég arkaði um borgina með gæsahúð og bera kálfa þar til ég datt inn í búð sem ég átti síðar eftir að versla mikið í. Salvation Army búðir í USA selja nefnilega sömu hágæða tískufötin sem seld eru í versluninni Spútnik ofl. í Reykjavík en á því verði sem á að á að selja notaðan sveittan fatnað með saumsprettum á - þ.e. slikk, en ekki á sama uppsprengda verðinu og nýtt drasl, eins og gert er hér heima. Ég varð mér úti um gamlar Levi’s gallabuxur og forláta mótorhjólastígvél og göngulagið góða hóf að fæðast.
Á þessum eina degi náði ég að ganga nánast alla borgina endana á milli, enda er hún í raun ekkert voðalega stór. Ég villtist líka inn í Tenderloin hverfið, þar sem ég hefði hæglega getað endað mína ferð hér á jörðu, en þar sem að ég var komin í stígvélin og áttaði mig fljótlega á að ég var ekki komin á góðan stað náði ég að töffarast þaðan út á lífi. Ég arkaði upp og niður hæðir, úúúú aði og aaaaa aði, og var einfaldlega á fullu í að rápa og glápa. Í einni götu hátt uppi á einni hæðinni sá ég skilti í glugga “For Rent” stóð þar rauðum stöfum. Þetta var hið snyrtilegasta hverfi með fallegum gömlum húsum og einni götu fyrir ofan var lítill garður með leikvelli. Príma staður fyrir litlu fjölskylduna. Seinna átti ég eftir að sjá þennan litla róló ansi oft í bíómyndum en hann er staðsettur fyrir framan hið fræga Fairmount Hotel. Ég bankaði uppá og hitti fyrir leigusalann. Hann vildi ólmur leigja mér íbúðina fyrir litlar 90 þúsund krónur – athugið að þetta var árið 1992, en ég var alveg græn. Ég var búin að heyra að leiguverð væri hátt og þó að mér blöskraði þá fannst mér íbúðin fín á fallegum stað og bara sló til. Arkaði í bankann og tók út aleiguna - og skrifaði undir. Litla fjölskyldan átti að flytja inn í íbúð í Nob Hill, eða Snob Hill sem hún er kölluð af lókalnum og við vorum komin í lið með fína fólkinu. Þetta hafði ég ekki hugmynd um, en áttaði mig fljótlega á því þegar ég sá svipinn á listafókinu í Oakland þegar ég sagði þeim hvert ég væri að flytja. Þau skildu líka ekkert í mér að vilja ekki frekar búa þarna útfrá og taka bara lestina í skólann og ég nennti ekki að útskýra fyrir þeim að mér væri illa við að dóttir mín léki sér innan um byssur og róna, hvað þá róna með byssur. Ég flutti því inn á aðra hæð á Pine Street, með ekkert nema ferðatösku og sjálfa mig. Salvation Army átti eftir að bjarga búslóð fyrir slikk.
Seinna meir átti ég að vísu eftir að búa í litlu herbergi sem kostaði 15 þúsund í hverfi sem heitir Mission en þar hafa spænskættaðir hreiðrað vel um sig. Talandi um að vera eins og krækiber í helvíti. Svo lifir sem lærir.

það sagði hún þá.......

Kirtlar

Ég er eins og margir aðrir búin að láta fjarlægja óþarfa nokkurn er kallast hálskirtlar úr skrokki mínum. Hef í raun aldrei komist að því til hvers þeir eru, en eftir 33 ára slæma sambúð lét ég loksins verða að því að skilja við þá og henda þessu út.

Margir voru búnir að vara mig við. Þetta yrði hræðilega vont. Væri líka verra þegar að maður væri svona gamall (??) Mér fannst þó, þegar ég var farin að vera með hálsbólgu og/eða kverkaskít 350 daga á ári, að allt hlyti að vera þess virði að losna við þessa andskota. Uppi í mér blöstu við þeir stærstu og ófrýnilegustu kirtlar sem ég hef á ævi minni séð. Ég fór í aðgerð.

Eins og vanalega var ég sofnuð á “einum” í svæfingunni og vaknaði tveimur tímum seinna inni á stofu. Það fyrsta sem ég gerði var að kyngja.
Hey! Það var ekkert sárt! Ég reyndi aftur, ekkert!
Ég teygði mig í vatnsglas á borðinu og fékk mér sopa. Ekkert!

Jibbý!

Ég var greinilega svona rosalega heppin. Ég var ein af milljón sem finna ekkert fyrir því að fara í hálskirtlatöku! Hjúkrunarkona ein kom inn til að líta eftir mér og ég tilkynnti henni fjálglega að ég fynndi sko ekkert til. Hún sagði mér að ég skildi nú ekkert vera að tala. Þetta yrði sárara eftir því sem liði á daginn. Sárara? Ég fann ekkert til!
Zip. Nil. Nada!

Ég blés því á þetta bull og ákvað að fara að pissa. Frammi á gangi fann ég fyrir tilviljun föður vinkonu minnar, sem hafði víst verið í rannsókn. Ég fann mig knúna til að tilkynna honum að ég hefði verið í kirtlatöku og fynndi sko EKKERT til. Þar eftir blaðraði ég við gesti og gangandi þar til að bóndinn fyrrverandi kom að sækja mig.

Heim var haldið og ekki samkjaftað alla leiðina heim. Að vísu var ég pínu þvoglumælt, en ég skrifaði það á svæfinguna.Vinkonur mínar litu við eftir heimkomu og skildu lítið í því að þarna sat sjúklingurinn og kjaftaði á henni hver tuska. Þær spurðu hvort að ég ætti að vera að tala svona mikið og ég þeim að það væri sko allt í lagi, því ég fynndi ekkert til.

Upp úr klukkan fjögur gerðist það. Deyfingin og bólgusterarnir fóru endanlega úr mér.
Hvílíkur sársauki! Þarna sat ég með handklæði undir hökunni, skelfingu í augunum og slefaði. Innan í mér grét ég hástöfum en, ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að gera það upphátt. Næstu fimm daga lifði ég í helvíti. Þar næstu fimm í helvíti lite. Loksins dofnaði sársaukinn. Þá kom annað í ljós. Litli leikarinn gat ekki sagt G og K. Kirtlarnir höfðu verið svo stórir að vöðvarnir í hálsinum voru í engri þjálfun og kunni ekki að mynda hljóðin upp á eigin spýtur. Ég fór því og hitti talþjálfara, sat fyrir framan hann og tilkynnti að ég væri leiari og yrði að éta satt e og á.
Það var síðar lagað.

Ég hef ekki fengið hálsbólgu frá því þetta var gert.
En ég á þó eitt ráð fyrir ykkur sem eruð á leið í aðgerð.
Haldið kjafti!

það sagði hún þá.......

Keila

Fyrir u.þ.b. tveimur vikum ákvað samstarfsfólk mitt að skella sér í keiluferð. Ekki mitt uppáhald en................... það var farið. Keiluferðin sjálf var ekki í frásögur færandi heldur ferðin heim. Um þessa helgi var færðin all svakaleg – glerhált og vatn lá yfir öllu svellinu. Þegar keilubrölti var lokið - og vissir aðilar búnir að fá uppreisn æru og svikna sönnun þess að vera sannir karlmen vegna þess að þeir vinna í keilu og spila þar upp á líf og dauða ( með tiheyrandi öekrum og ópum), er komið að heimferð. Ég ákveð í sakleysi mínu þar sem ég búi nú handan við hornið á þessari höll - þá sé nú lítið mál fyrir mig að rölta heim og bara frískandi og gott fyrir sálina að hreinsa þokuna úr höfðinu. .
Í rólegheitunum geng ég af stað..........ekki hægt annað vegna færðar, en átta mig fljótlega á því að rólegheit og hrágúmmísólar eru ekki nóg. Mannbroddar hefðu verið eina málið.
Eftir ca fimm mínútna gang er ég stödd í brekku – en þá kemur að fyrsta pomminu. Undan mér fljúga fætur og sé ég allt í einu tærnar mínar í öfugu samhengi við stjörnur himins. Lent er með skelli á gangstéttinni og upphefst nú salíbuna dauðans sem líktist helst því að vera staddur í vatnsrennibraut. Þarna þeytist ég niður brekkuna á óæðri endanum og allt um kring frussast um mig vatn. Loks er staðnæmst við ljósastaur og brölt á fætur með tilheyrandi blóti og fussi. En þetta var ekki búið. Það sem eftir var leiðar datt ég ýmist á maga, rass eða hliðar og áfram var skautað. Þegar heim var komið var ekki þurr þráður á frúnni, marblettir stórir farnir að gera vart við sig og draup úr henni í hverju spori upp allar fjórar hæðirnar. Það er nú svo að ekkert slær hressandi kvöldgöngu við í Reykjavík að vetrarlagi.

það sagði hún þá.......

Ef ég væri kaddl

Ég verð stundum ótrúlega þreytt á því að vera kona.

Það koma tímar þar sem ég væri bara alveg til í að vera kall.
Verst að þá þyrfti ég kannski að kyssa kjeddlingar,
nema ég væri hommi,
en þá væri ég að vissu leiti kona svo það væri bara bull.

Ég væri til í að vera kall á mínum aldri.
Háskólamenntaður, myndarmaður um fertugt.

Svona nett kærulaus og clueless, skítsama um hrukkurnar á fésinu og bumbuna fyrir ofan strenginn. Snúður væri eitthvað sem ég borðaði þegar mig langaði í hann og pulsa og bland í poka flokkaðist sem hádegismatur .

Þegar ég færi í sturtu skellti ég mér bara beint í fötin eftir að hafa þurrkað mér, ekkert krem, hárblástur eða meiköpp. Bara renna fingrunum í gegnum lubbann og málið væri dautt. Ég gæti sprangað um ber að ofan í gallabuxum og ekki einu sinni spáð í það að brjóstin væru farin að síga aðeins og hárvöxtur væri eitthvað sem ég myndi raka framan úr mér þegar og ef ég nennti. Mætti jafnvel þannig og í áðurtöldum gallabuxum og bol á deit númer tvö og leiddi ekki einu sinni hugann að því hvernig ég liti út. Fengi líklegast stig út á það.

Ég gæti farið út og fengið mér að **** þegar mig langaði til og nóg væri til af ungu lambakjöti til að fullnægja þeirri frumþörf, en ég færi hinsvegar bara heim til mín strax að loknum verknaði, gjörsamlega samviskulaus og laus við móral þó ég hefði ekki einu sinni hugmynd um hvað drátturinn héti.

Neglur væru eitthvað sem ég leiddi hugann að þegar þær færu að trufla mig og ef ég þyrfti að leysa vind þá bara gerði ég það......því betra er jú úti en inni.

Ég þyrfti aldrei að þykjast hafa átt færri rekkjunauta en ég hefði í rauninni átt, aldrei að þykjast saklausari en ég væri eða spila mig umkomulausari og bjargarlausari en ég í raun væri. Tilfinningar væru eitthvað sem ég dílaði við í einrúmi og þá á klukkutíma.

Ég þyrfti ekki alltaf að passa mig á að vera ekki OF klár, OF hávær, OF klúr, OF framfærinn, OF ákveðinn.......OF......jaa bara OF, því að ég væri nefnilega karlmaður og þeir eru aldrei “OF” neitt nema þá kannski OF kvenlegir.

Gleraugun mín þættu sjarmerandi og gáfuleg, gráu hárin eitthvað til að skarta en ekki lita og bjór væri mældur í gleði per dós, en ekki kaloríum. Ræktin væri eitthvað sem ég stundaði rétt á meðan að ég landaði einhverri píunni, en kortið færi í vanrækt þegar að draumagæsinni væri loks landað.

Ég hefði í það minnsta í kringum 400 þúsund krónur í laun á mánuði og ef að mig langaði allt í einu að eyða öllum peningunum mínum í eitthvað eins og bíl eða veiðistöng þá þætti ekkert athugavert við það. Ég gæti talað um borvélina mína án þess að fólk teldi mig undarlegan og þegar ég yrði þungur í skapi hefði enginn áhyggjur af mér og ég yrði látinn í friði vegna þess að ég þyrfti bara að fá frið til að hugsa. Ég gæti orðið mega pirraður og látið eins og óhemja, en það væri bara eðlilegt því að einhver var leiðinlegur í vinnunni og ég þarf að fá útrás. Börnin mín sé ég einu sinni til tvisvar í mánuði og þá gef ég þeim pizzu að éta og splæsi í bíó og er talinn vera Guð. Ég horfi á boltann með félögunum og við þurfum ekki einu sinni að tala saman þegar við hittumst. Ég er ekkert að spá í hvort að þessi eða hinn sé reiður út í mig, hvort að ég hafi gert rétt í þessu máli eða ekki og mér er drullusama hvað öðrum finnst því að ég er karlmaður og hef alltaf rétt fyrir mér.

Ég þyrfti aldrei að skammast mín fyrir axlirnar á mér.

það sagði hún þá.......

Kakkalakkakot

Í blokkinni minni í San Fransisco bjó margt fólk og ekki allir jafn þrifalegir og ég.
Þar bjuggu líka kakkalakkar, en þeir eru víst fylgipöddur stórborga.
Það er nú svo að kakkalakkar sækja í óþrifnað og er því gott ráð að skilja aldrei eftir matvæli á borðum, mylsnu eða uppvask og gott er að venja sig á að fara út með ruslið tvisvar á dag. Þessu fylgdi ég alltaf, en samt var það nú svo að endrum og eins greip ég einn glóðvolgan brúnrass á skemmtigöngu um eldhúsbekki. Var þeim yfirleitt veittur snöggur dauðdagi, því betri er dauður lakki á blaði en lakki á vappi í baði.

Nú bar svo við að mér var boðið að skjótast frítt til Íslands í Júmbóþotu sem ferja átti til eyjunnar fögru og til baka á vegum Cargolux, en einhver ítök hafði gamla þar í þá daga.
Ég ákvað að taka boðinu og skellti mér heim í 3ja vikna frí. Var það ljúft.

Daginn eftir að ég kem aftur út, staulast ég eins og vanalega inn í eldhús og opna þar skáp með morgunkorni og öðrum þurrmat. Venjulega sátu pakkningarnar þarna í rólegheitunum sínum, en í þetta sinn virtist vera einhver hreyfing á þeim. Eftir að hafa náð almennilegum fókus varð mér ljóst að skápurinn iðaði af brúnrössum.
Ég argaði upp yfir mig, skellti skáphurðinni aftur og áður en varði var ég komin niður á fyrstu hæð og lá þar á hurð leigusalans viti mínu fjær af viðbjóði.

Ég tilkynni honum að annað hvort geri hann eitthvað í málunum eða ég fari í lögfræðing og haldi einnig eftir leigu mánaðarins. Þar sem ég bjó í fínu hverfi og borgaði svimandi háa leigu var mér stætt á slíkum yfirlýsingum. Hann sagðist ætla að ganga í málið strax, en ég þyrfti að fara að heiman yfir daginn og ekki koma aftur fyrr en að kveldi, því þarna yrðu notuð ansi sterk efni. Mér fannst það lítið mál.

Um kvöldið sný ég aftur í íbúðina. Ég opna hurð, kveiki ljósið og stóð á öskrunni.

Um alla íbúð lágu lík kakkalakkastórfjölskyldunnar. Gólfið var þakið! Baðið, vaskarnir, rúmið mitt, ALLT! Eftir að ég hafði talið í mig kjark, tiplaði ég varlega á tánum inn eftir íbúðinni, náði í ryksuguna inni í skáp og hófst handa við að jarða. Ég byrjaði inni í stofu og vann mig í átt að eldhúsinu. Þegar þangað inn var komið blasti þó við mér ótrúleg og jafnframt ógeðsleg sjón.
Á eldhúsveggnum hékk sá alstærsti kakkalakki sem ég hef augum litið. Hann var ennþá lifandi og vissi ég það vegna þess að ég sá hann hreyfast upp og niður þegar hann andaði.
Er ég viss um að þarna var komin móðir afkvæmana 200.000 sem ég hafði verið að soga upp um rörið á ryksugunni og kerlingarhelvítið neitaði að deyja. Hrollur hríslaðist eftir bakinu á mér og það rann á mig æði. Með snöggri hreyfingu og stríðsöskri reif ég af fæti mínum tréklossa og lamdi með öllu afli í kvikindið! Hélt ég síðan áfram að berja um stund. Þó nokkra stund.Þar sem að amerískir veggir eru ekki alveg jafn sterkbyggðir og íslenskir steypuveggir myndaðist þarna stór hola, en innviði pöddunnar dreifðust hins vegar um allan vegg.
Í marga daga á eftir vaknaði ég upp í svitakófi og hafði þá dreymt að ég væri ”The Incredible Shrinking Man” að berjast við kakkalakkamömmuna ofan í kjallara með títuprjón einan að vopni. Á daginn fékk ég óstöðvandi kláðaköst og er ekki laust við að ég finni fyrir kláða við það eitt að rita þessi orð.
En eftir þetta var íbúðin ”bombuð” reglulega.

Það sagði hún þá..........

Snillingar

Japanskir vísindamenn hafa unnið óvænt afrek: þeim hefur tekist að búa til vanillu með tilheyrandi angan úr kúamykju.
Japanir eru náttúrulega bara snillingar!
Það voru einmitt þeir sem á sínum tíma komu fram með bestu hugmynd ever:
Flauta sem sett er í óæðri endann og ef þar kemur gustur flautar hún lítin lagstúf, auk þess sem skynjarar senda um leið frá sér góðan ilm. Hef enn ekki rekist á þetta apparat í Bónus, en bíð spennt.

það sagði hún þá.......

Óstaðsettur í húsi

Ætli ÉG sé óstaðsett í húsi? Eða kannski er ég bara illa staðsett? Kannski hefur enginn staðsett mig og þess vegna finn ég mig ekki.Staðsetning. Að setja einhvern á sinn stað. Óstaðsett. Kona á fertusgaldi fannst óstaðsett við póstnúmer 105. Á sama stað fundust tveir kettir. Samkvæmt eyrnamarki er annar staðsettur við Lokastíg en hinn við Grettisgötu. Ekki er vitað hvaða erindi þeir áttu hjá viðkomandi þ.e. óstaðsetta konu, en þeim verður komið á sinn stað. Konan verður hins vegar færð til yfirheyrslu og yfirhalningar, jafnvel yfirfærslu hjá hinu opinbera.

það sagði hún þá.......

Lífsgæði

Hvað eru lífsgæði?
Mælir maður lífsgæði í því sem ég persónulega tel til sjálfsagðra mannréttinda
þ.e.a.s. vinnu, mat og þaki yfir höfuðið?

Það er fullt af fólki sem býr við þau réttindi, en telur sig samt ekki búa við lífsgæði.
Það er einnig til hellingur af fólki sem hefur ekki þessi réttindi,
en margir þeirra telja sig samt búa við lífsgæði.
Hvar liggur munurinn?

Gæði lífs þíns eru auðvitað ekki mæld í eignum.
Það erum við búin að heyra og sjá oft og mörgum sinnum
En hvernig er líf þitt ef að þú átt ekki neitt?
Hvað er ekki neitt?

Segjum að þú eigir ekki þak yfir höfuðið og ekki nóg í þig og á,
en að sama skapi elskar þig einhver og þú elskar hinn sama á móti
Þú átt börn sem elska þig og þú náttúrulega þau og ef þú ert heppinn vilja börnin þín eyða tíma með þér og vera nálægt þér. Þú ert umvafinn fjölskyldu og vinum.
Lífsgæði?
Já ég myndi segja það.

Svo er það hitt dæmið
Þú átt fínt hús og meira en nóg í þig og á,
en enginn elskar þig og þú elskar engan.
Þú átt börn sem að þú elskar, en þau elska þig ekki
og þau vilja aldrei vera með þér eða hjá.
Lífsgæði?
Ekki samkvæmt mínum kröfum.

Hvort dæmið fær í raun hærri einkunn á lífsgæðaskalanum?

Svo er það vinnan.
Við eyðum að meðaltali 9 tímum á dag í vinnunni,
fimm daga vikunnar u.þ.b. 48 vikur á ári.
Sumir miklu lengur og á Íslandi líklegast flestir.
Hvor er betur settur?
Þeim sem líður illa í vinnunni sinni en er með ágætis laun.
Eða sá sem að er glaður í vinnunni en á varla fyrir útgjöldum mánaðarins
Lífsgæði?

Er ekki best að hafa sem mest af pakkanum?
Líklegast - en er það kannski eitthvað sem er ómögulegt?
Er það frekja að vilja hafa sem flest af þessu í lagi?

Ég tel mig þurfa vinnu sem að veitir mér einhverja ánægju, vegna þess að ég eyði meirihluta lífs míns í vinnunni. Ég tel mig þurfa að hafa öruggt skjól að sofa í og þessvegna þarfnast ég þaks yfir höfuðið. Það þarf ekki að vera einhver lúxusvilla, en kannski ekki heldur lek rakahola með rottum og silfurskottum. Eftir að hafa prófað hitt finnst mér nauðsynlegt að eiga bíl á Íslandi, en það þarf ekki að vera neinn jeppi, bara eitthvað sem kemst frá A til B án þess að detta í sundur. Ég vil að til sé nægur matur fyrir mig og barnið mitt, en það þarf ekki að vera steik, en ekki bara hrísgrjón heldur. Ég vil fá að elska einhvern og að einhver elski mig og mér finnst mikilvægara en allt annað að ég njóti þeirrar lukku að barnið mitt elski mig og að á milli okkar séu góð tengsl.Vinir eru nauðsynlegir, þurfa ekki að vera margir, en að eiga vini að og að stunda eitthvað félagslíf er nauðsynlegt til að manneskjan þrífist.

Lífsgæði eru því að mínu mati þessi:

Ást
Góð samskipti við barnið mitt
Vinir
Vinna sem veitir mér ánægju
Laun sem nægja fyrir nauðsynjum.
Þak yfir höfuðið
Nægur matur og skeinir
Félagslíf
Bílskrjóður

Sumum finnst þetta frekt.

það sagði hún þá.......

Vitræna

Hef komist að þeim hræðilega sannleika að karlmenn óttast vitrænar konur. Þeim stendur ógn af gáfaðri konu, því hún gæti tekið upp á því að verða klárari en þeir. Það er auðvitað hræðileg tilhugsun og segir sig sjálft að þú stýrir ekki konu sem hefur vit á að stjórna sér sjálf. Hún kaupir líka ekki hvaða bull eða lygi sem þér gæti dottið í hug að láta út úr þér eftir að þú ert búinn að gera einhvern andskotann af þér og ætlar að reyna að klóra þig út úr því. Gáfuð kona gæti tekið upp á því að kveða mann í kútinn, vera með staðreyndir á hreinu og gæti jafnvel sagt manni sínum til annað slagið. Gáfuð kona lætur líka í ljós óánægju sína ef einhver er, vegna þess að hún áttar sig á henni og hún veit einnig að nú er árið 2006 og löngu búið að taka út þetta með að vera manni sínm undirgefin o.s.frv. Oft hafa gáfaðar konur líka gaman af því að tala og koma þá máli sínu vel frá sér og jafnvel með rökstuðningi. Vilja þær líklegast flestar líka að það heyrist í sér og eru þá ekki endilega í þeim pakkanum að hvísla, brosa og segja já allan liðlangan daginn. Málið er s.s að viljirðu ekki daga uppi sem gömul piparjúnka er best að vera vitlaus, viljalaus, óþroskuð og ekki verra ef búið er að krukka í hrukkurnar með gerviefni í sprautum. Það er víst vænlegast til vinnings. Ætli það sé hægt að þjálfa sig upp í þessum bjánaskap – eða er maður bara í skítamálum vegna gena og erfða.

það sagði hún þá.......

Á röltinu

Hvers vegna geng ég ekki oftar ofan í miðbæ neðan úr Hlíðum?
Vegna þess að ég hef prófað það og í hvert skipti sé ég ansi mikið eftir því.
Á síðustu metrunum hvort heldur sem er á leið niður eða uppeftir er ég alltaf búin að fá miklu meira en nóg.

Nú er ekki eins og ég sé óvön því að ganga eða sé í slæmu líkamlegu formi, það er bara eitthvað við þessa leið og einnig hefur veðurfar í Reykjavík eitthvað með það að gera.

Í dag, í tilefni þess að það var sumar út um gluggann............en einnig vegna þess að bíllinn minn fer ekki í gang. (Þarf víst að skipta um kerti, hef ekki einu sinni pínulitla hugmynd um hvernig maður gerir það) en aðallega vegna þess að það var sól úti og þar sem að það er 8. júlí og mér datt ekki annað í hug en að gaman gæti verið að rölta í bæinn í góða veðrinu. Aaaaaaa........ góóóóða veðrið.
Hálfnuð yfir Klambratún var ég farin að sjá eftir öllu saman. Kaldur vindurinn lamdi mig í andlitið, tárin streymdu niður kinnarnar, sultardropinn hékk frekjulega á nefbroddinum og maskarinn var kominn niður á höku, jafnvel háls. Mig sárvantaði vettlinga og húfu því ég var orðin gjörsamlega loppin á fingrum og eyrum og gerivörturnar hefðu örugglega getað skorið gler. Þrjóskuröskunin hélt mér þó við efnið og niður á völl komst ég fyrir rest. Það er nefnilega ekkert að sjá eða gera útivið í bænum fyrr en þú kemur niður á Austurvöll, staðreynd. Það gerir það að verkum að túrinn er enn lengri. Þegar þangað var komið var ég hinsvegar komin með vægt hælsæri og loppin inn að beini. Það endaði því með því að ég settist inn á kaffihús, því ég gat ekki hugsað mér að sitja skjálfandi útivið.

Þremur tímum síðar hélt ég heim á leið. Alla leiðina hugsaði ég með mér að ég ætti að finna strætó, en ég kann ekki á strætókerfið og átti ekkert klink svo ég hélt bara áfram höktinu. Á síðustu metrunum langaði mig að setjast niður, gráta og gefast upp. Vindurinn sem ég fékk í fangið á leiðinni niður í bæ hafði nú skipt um átt og var einnig í fangið á mér á leiðinni heim. Blöðrurnar voru sprungnar og andlitið ein stór hor og táraklessa.
Sjaldan hefur ein kona verið eins fegin og ég þegar ég staulaðist inn um dyrnar heima hjá mér um kvöldmatarleytið.

Skrítið að maður skuli ekki gera þetta oftar.

það sagði hún þá.......

Fyndin afstaða

Fyndin afstaða.

Þeir sem eru í einlífinu þekkja það, að stundum borgar sig að kaupa frekar tilbúinn mat.
Bæði er það oft ódýrara, að sjálfsögðu auðveldara og fyrir mig eru þetta yfirleitt tvær máltíðir í einni. Það er óhagstætt að elda mat fyrir einn.

Ég fór og keypti mér að borða þar sem ég var komin með ógeð á eggjum í bili og þurfti alvöru mat, ekki bara eitthvað heitt.

Í gangi var tilboð.
Með tilboðinu var gos.

Lindablinda: “Ég ætla að fá eitt svona tilboð takk, taka það með”
Stúlka: “Hvað má bjóða þér að drekka?”
Lindablinda: “kók, takk”

Stúlkan fer og dælir kóki í pappaglas.

Lindablinda:”Fyrirgefðu, ég er að taka þetta með”
Stúlka:” já ég veit”
Lindablinda:”Get ég ekki fengið gosið í dós, það er vonlaust að keyra með svona glas”
Stúlka:”Nei, það er ekki í tilboðinu”
Lindablinda:”Hvar stendur það?”
Stúlka: “Það er þannig á myndinni”

Hún benti mér á mynd á borðinu. Þá sprakk ég úr hlátri. Ég benti á matinn sem ég var að kaupa og svo á myndina.

Lindablinda:“þetta er nú ekki eins og á myndinni, en þetta er samt tilboðið”
Stúlkan: “það er bara gos í glasi á tilboði”

Ég maldaði í móinn en hún gaf sig ekki.
Eftir nokkurt röfl gafst ég upp og lufsaðist út í bíl. Á bílastæðinu hrundi gosglasið úr höndum mér þegar ég var að opna bílinn og small í steypuna.
Ég varð að hlæja.

Ég hefði náttúrulega sett fyrirtækið á hausinn hefði ég frekar fengið flösku í pokann. Ég var nú bara að borga máltíð með í það minnsta 400% álagningu.
Þetta er náttúrulega bara djók.

það sagði hún þá.......

Friður sé með yður

Hafið þið tekið eftir því að það er til fólk sem að gerir sig út sem friðarsinna, en hagar sér þó endalaust þannig að það er ekki annað að sjá en að innra með þeim ríki endalaus ófriður?

Sömuleiðis eru þessir friðarsinnar gjarnir á að gagnrýna endalaust samferðarfólk sitt í lífinu og setur sig þá í sömu spor og þeir eru, sem þeir gagnrýna hvað mest.
Fordómar spila þar stóra rullu, jafnvel gagnvart einhverju blásaklausu, sem engan meiðir, eins og tónlistarsmekk, áhugamálum, útliti, eða aldri.

Dómar falla hægri vinstri og hrokinn ríður húsum. Þetta er í mínum augum ekki friðsamleg hegðun. Það er eins og að segja að Gunnar í Krossinum sé sannkristinn maður og fylgi kenningum Jesú. Algjör þversögn.

Það er nefnilega svo merkilegt að þegar að innra með þér ólgar ófriður, er eins og að allt og allir fari í taugarnar á þér. Þú verður argur og sár út í allt og alla og finnst að þú verðir að gera eitthvað í þessu öllu saman, þá á ég ekki bara við stöðu heimsmála og stefnu yfirleitt, heldur ALLT. Ég hef sjálf verið á þessum ófriðarstað og ég get lofað því að á þeim tíma stafaði ekki frá mér kærleikur og/eða friður.
Enn í dag á ég það til að detta ofan í skurðinn, en ég er þá fljót að koma mér upp aftur.

Það er í sjálfu sér gott og gilt að vilja gera heiminn að betri stað að búa í og í raun það sem við viljum öll, en þarf að gera það með skítköstum og niðrandi umtali um það og þá sem maður er ósammála? Er það eina leiðin sem til er, að úthrópa fólk sem því miður veit ekki betur sem fávita og aumingja? Hvernig bætir þess konar hegðun heiminn? Hverju skilar það? Er þinn hroki öðruvísi en hroki þess sem þú ert að gagnrýna?

Það er eitt að vera ósammála einhverju, annað að dæma.

Á ég sem aðhyllist sjálf ekki Sjálfstæðisflokkinn að dæma alla sem í þeim flokki eru sem fávita og skítbuxa? Ég þekki fullt af góðu fólki sem eru Sjálfstæðismenn, en ég er kannski ekki sammála þeirra pólitísku skoðunum. Ég þekki líka fólk sem aðhyllist sömu skoðanir og ég á pólitík, en er kannski þegar öllu er á botninn hvolft ekkert voðalega gott fólk.

Þegar allt kemur til alls, ert það þú sjálfur sem hefur valdið.
Þú getur breytt sjálfum þér, hvernig þú hugsar og hvernig þú kemur fram við fólkið í kringum þig. Með því að bæta þig, bætir þú heiminn.

Gott leiðir af góðu. Elska er smitandi. Gleði er gefandi. Hrós er styrkjandi. Hlátur er lífsbætandi. Umhyggja er nærandi.

Þrátt fyrir að allar dimmu tilfinningarnar eigi líka rétt á sér og að án þeirra værum við ekki mannleg þá segi ég samt: Reynum að einbeita okkur að því að því góða. Hættum að rífa endalaust niður og setjum orkuna okkar frekar í að byggja upp.

það sagði hún þá.......

Í fréttum er þetta helst

Undanfarnar vikur hef ég reynt eftir fremsta megni að fylgjast ekki með fréttum, hvort sem er í blöðum, útvarpi eða sjónvarpi.

Það er mjög erfitt.

Eitthvað hefur þetta samt lekið inn óvart, en ég reyni að taka ekki eftir því, eða láta það hafa áhrif á mig. Þetta gerir mig tímabundið eilítið ”fáfróða” og þar sem að ég er ekki í vinnuumhverfi sem býður upp á fjölbreyttar samræður, dálítið snauða þegar kemur að umræðuefni. Við erum nefnilega alltaf að eyða tíma okkar í að tala um liðna eða komandi atburði, fréttir og veður. Ég ákvað að hætta því.

Ástæðan er þessi.

Mér finnst fréttir eins og þær eru í dag nánast alltaf neikvæðar. Þær láta mér líða illa, þar sem að það er oftast ekkert sem ég get gert til að breyta því sem er að gerast úti í heimi, eða jafnvel hér á landinu bláa. Þess vegna setti ég fréttirnar á ís. Oftar en ekki eru þær líka ekki réttar, sannar, eða merkilegar. Margt er bara hreint bull eða slúður.

Mér varð líka hugsað til þess sem að Þorvaldur Þorsteinsson, myndlistarmaður og lífskúnstner með meiru sagði eitt sinn við mig:

”Það sem er að gerast er ekki það sem gerðist einhversstaðar annars staðar áðan, í gær eða gerist á morgun. Það sem er að gerast ert þú - núna”.

Mér finnst það mikil speki.

Lífið mitt er að gerast - núna.
Ég ER - og ég er NÓG.

Og hver er ég? Ég er margt. Ég er a.m.k. ekki menntun mína eða starfsheiti. Ég er nóg.

það sagði hún þá.......

Blessuð börnin

Kona fer í búð að versla handa sér fínerí sem hana vantar þó örugglega ekki. Með sér tekur hún barnið sitt sem hefur líklegast fengið súkkulaði í morgunmat ( þ.e. Cocoapuffs) og hefði líklegast haft mun meira gaman (og gott) af því ef að mamma sín hefði gefið honum eitthvað staðgott að borða í morgunsárið, nennt að gera eitthvað sem honum finnst skemmtilegt - sinnt honum jafnvel (kannski snýtt), frekar en að rápa í kellingabúðir. Barnið verður því heldur órólegt í búðinni – þó að það virðist ekki trufla móðurina nokkurn skapaðan hlut, enda hún upptekin við að skoða og prófa fínt.Búðarkonan er þó heldur uggandi yfir þessu þar sem að barnið veður ofan á og í allt, togar og tætir, hleypur um þar sem ekki er hættulaust að hlaupa á (hættuleg horn og logandi ljós) - og er því upptekin og sveitt við að hlaupa á eftir gutta ásamt því að bera í mömmu fínterí þess á milli. Segir nokkrum sinnum “skamm” .............en voða lágt, því að maður má jú ekki skamma annara manna börn hvað þá ala þau upp. Þegar kemur að þeirri dýrðarstund að mamman er loks búin að finna eitthvað sem hana langar að eyða peningunum sínum í, er stutti orðin ansi órólegur. Er hann farinn að arga og góla og sparka í allt og alla sem nálægt honum koma, en mamman virðist taka lítið eftir því - þar til að búðarkonan rétt nær að grípa í litlar hendur sem nærri eru búnar að rífa niður logandi kerti og hella þá heitu kertavaxi yfir litla útgrátna andlitið. Stuttur rekur þá upp hið ógurlegasta gól og hófst nú frekjusöngurinn mikli, sem að sumir litlir kútar, sem aldrei er sagt “skamm” við syngja oft af miklum móð. En hvað gerir mamma þá? Jú! Hún nær í súkkulaði mola og TREÐUR upp í organdi gúllan á barni sínu, sem að sjálfsögðu þagnar þá samstundis og hefst handa við að reyna að vinna á bitanum. Þar sem að mamman svo hleypur á eftir snarvilltum unga sínum út úr búð og bagsar við að troða honum í bílsæti með ólum verður sveitta búðarkonan hugsi. “Ætli rætist nú vel úr honum þessum – líkt og mömmunni” hugsar hún með sjálfri sér og kímir.

það sagði hún þá.......

Flensan

Ég man núna hvers vegna ég virðist hafa sloppið við stóru flensuna sem meirihluti Íslandsþjóðar er að “deyja” úr þessa dagana.

Þegar ég var búsett í borg brattra brekkna (segið þetta hratt fimm sinnum í röð) fékk ég eitt sinn einhverja Asíuflensu Satans og var í ALVÖRU nærri dáin.
Ég bjó efst uppi í hverfi sem kalllast Nob Hill, einn efsti póllinn í miðbæ San Francisco og ég var alein.

Þegar ég var búin að veltast um í svitabaði og óráði í þrjá daga án þess að fá vott né þurrt, hósta upp úr mér einu lunga, milta og botnlanga í 29 stiga hita og engri loftræstingu, kom að því að ég varð að fá eitthvað að drekka. Þar sem ég skreið á öllum fjórum inn í eldhús að ná mér í vatn gerði soðinn heilinn á mér sér grein fyrir því að þetta gengi ekki. Ég myndi deyja í þessari íbúð og ég átti ekki einu sinni ketti til að éta mig.

Tækninni “mind over matter” sem hefur ávallt reynst mér vel, var beitt.
Eftir 3ja tíma skóítroðslu og finnung á veski og lyklum var haldið út í óvissuna. Þetta var að vísu ekki alger óvissa, þar sem ég þekkti hverfið mitt nokkuð vel, en ég vissi líka að eina apótekið sem væri opið svona seint væri staðsett nánast við endann á hæðinni á horni Union og Powell. Af stað var haldið. Í raun var ég eins og dauðadrukkinn astmasjúklingur þar sem ég hálfhentist og slengdist niður brekkurnar í átt að apótekinu.
Í “Tekinu” náði ég mér í allt sem hugsanlega gæti komið að gagni. (Stundum kemur sér vel að vera læknisdóttir. You pick up things). Afgreiðslufólk í stórborgum er öllu vant og kippti sér ekkert upp við þennan slagandi, tautandi ræfil sem keypti fulla körfu af dópi sem er harðbannað að éta uppi á Íslandi, en fæst þarna beint úr hillum.
Þá var komið að heimför.
Upp fjórar “blokkir” af bröttum brekkum sem fóru stigvaxandi var staulast.
Cablecar-arnir hættir að ganga og ekki um neitt annað að ræða en að fikra sig upp með veggjum, eða kannski meira toga. Alla leiðina heim grét ég með kvalarfullum ekkasogum, nokkrum sinnum settist ég niður á stéttina og bað góðan Guð að hirða mig þar sem ég gæti ekki meira, en eftir u.þ.b. fjóra tíma var ég þrátt fyrir allt stödd fyrir utan íbúðina mína. Göngutúr þessi tók venjulega um 10 mínútur. Ég hrundi upp í rúm með gallon af vatni og fullan poka af lyfjum og nú var tekið til við að maula og súpa pillur, hóstasaft og vatn.

Næstu fimm sólarhringum var eytt í lyfjamók og tissjú, en á sjötta degi reis frúin upp frá dauðum. Nokkrum kílóum léttari, með brunnið nef og föla ásjónu skreiddist ég fram í eldhús og hitaði mér súpu. Eftir tvo daga í viðbót og aðeins meiri súpu, fór mér að líða eins og manneskju og tók þá eftir því að símtólið á heimasímanum var ekki í falsinu. Hef líklegast lamið það úr í einhverju mókinu. Þetta var á dögum snúrusíma, en einnig gsm og tölvuleysis. Um leið og ég skellti símanum í skoruna hringdi hann.Á línunni var skíthræddur bekkjarbróðir og vinur. Sá hinn sami hafði nokkrum sinnum rennt við og lamið á hurðar. Ég kannaðist ekkert við það. Hann bauðst til að koma samstundis yfir. Ég þáði. Held að ég hafi fengið flensumóður dauðans og er því ónæm fyrir öllum A-B- og C-stofnum hér eftir. Eða það vona ég. Sem minnir mig á aðra móður. Móður allra kakkalakka, en það er önnur saga.

það sagði hún þá.......

Ammlis

Ferfalt Húrra!

Í dag á ég afmæli.

(Ég ætla samt að leyfa mér að núlla þetta ár í tölum svo ég geti átt fyrir stóru veislunni - sem yrði þá ekki fyrr en þar næsta ár. Finnst skemmtilegra að geta boðið upp á eitthvað annað en vatn og hörfræ).

Það er svo skemmtilegt að við systkinin samvöxnu eigum nefnilega afmæli svona í röð. Hann er þó fiskur með hrút í sér og ég hrútur með fisk í mér.

Elsta og yngsta merkið - eldur og vatn.

Við erum rosalega lík, nema hvað hann er með skott - en hann er samt með konuheila eins og ég.
Við trúum því að við höfum átt að vera tvíburar - en það ruglaðist eitthvað í sendingarkerfinu og það liðu óvart fimm ár á milli.

Sagan segir nefnilega að mamma hafi neitað að rembast undir lokin þegar verið var að koma mér í heiminn þar sem hún vildi að við ættum sitthvorn afmælisdaginn. Það kallar maður þrjósku.

Ég er því fædd klukkan 18 mínútur yfir miðnætti í Boston MA, USA og er því kani.


það sagði hún þá.......

Í skápnum

Fataskápurinn minn er undarlegt fyrirbæri.
Af einhverjum ástæðum er hann fullur af fötum sem að ég veit ekki hver keypti og þá í hvaða tilgangi. Í hvert skipti sem að ég þarf að klæða mig upp fyrir eitthvað ákveðið tilefni er alveg gefið að ég finn ekkert í troðfulla fataskápnum sem mig langar að fara í.
Það endar því iðulega á því að ég máta u.þ.b. 30 samsetningar af einhverju bulli, en enda svo iðulega á því að fara bara í gallabuxur og bol eins og vanalega. Stundum hef ég farið í eitthvað af þessum fáránlegu hlutum sem ég finn þarna inni og eyði svo nokkrum tímum líðandi og lítandi út eins kona sem er á kafi í ruglinu. Nú er það svo að margt sem skápurinn geymir er komið allnokkuð til ára sinna, en ég á erfitt með að henda fötum sem mér þykir vænt um, en eitthvað er þarna um nýrri hluti líka.
Ég get bara ómögulega skilið hver keypti þessi föt og í hvaða ástandi sú manneskja var á þeim tíma.

Ég meina.

Hvenær hef ég gengið stuttum bolum eða peysum?
Hvenær geng ég í pilsi?
Hvenær nenni ég að strauja skyrtur?
Hvenær hef ég fílað skæra liti sem eru ekki bláir?
Hvenær hef ég getað haldið hvítum fötum hvítum?
Hvenær hef ég þolað hör?
Hvenær hef ég fílað buxur sem ná ekki upp fyrir lífbein?

Aldrei.

Samt á ég svona föt inni í þessum undarlega skáp!

Svo eru það fötin sem ég fíla, en veit að karlmenn fíla ekki.
Það eru fötin sem að mig langar alltaf að fara í en veit að ef ég fer í þau þá er garanterað að ég geng ekki í augun á hinu kyninu.
Það er nefnilega í raun bara eitt sem gengur þar og það byrjar ekki á þægilegt.

það sagði hún þá.......

Ég vildi að ég væri

vín á þinni skál,
gneisti í þínum glæðum,
garn í þinni nál,
skeið þín eða skæri,
skipið sem þig ber,
gras við götu þína,
gull á fingri þér,
bók á borði þínu,
band á þínum kjól,
sæng þín eða svæfill,
sessa í þínum stól,
ár af ævi þinni,
eitt þitt leyndarmál,
blóm á brjósti þínu,
bæn í þinni sál.

Davíð Stefánsson

það sagði hún þá.......

Brúðkaupsraunir

Ég hef farið í mörg brúðkaup um ævina,
en ávallt með maka.

Að fara í brúðkaup makalaus er svolítið eins og að fara á barnasýningu í leikhúsinu án þess að hafa með sér barn. Örugglega gaman og ágætis skemmtun, en pínu ljúfsárt og aðeins hálf upplifun.

Um helgina er ég að fara í brúðkaup - ein - og ég hef áhyggjur af því.
Veit ekki alveg af hverju, kannski er ég hrædd um að það verði sárt og vafalaust munu gamlar minningar kvikna í hugskotum mínum.

Sá hins vegar myndina “The Wedding Crashers” um daginn með unglingnum og hugsaði:
”Ef þetta væri nú svona - þá gæti verið gaman að fara ein”

En það er ekki svona. Ég er bara oddatala

ps.

Jæja, brúðkaupið yfirstaðið og ég enn lifandi. Er það stórmerkilegt miðað við aðstæður.

En, þetta hófst að sjálfsögðu með því að vinkonurnar penu og prúðu kunnu ekki að haga sér í kirkju. Hlógu, flissuðu og blöðruðu upphátt, rúntandi um á kirkjubekkjunum. Ég er samt á því að Guði sé ekkert illa við hlátur og ekki Jesú heldur ef út í það er farið. Þetta var nú gleðistund og mér finnst skrítin þessi jarðafarastemmning sem virðist alltaf eiga að ríkja í kirkjum á Íslandi.

Brúðhjónin glæst og fögur silgdu inn kirkjugólfið og þurftu margir að berjast við skæluna enda brúðurin eins og Grace Kelly. Brúðguminn féll í skuggan eins og ávallt gerist í þessum uppákomum.

Við tóku hrísgrjónagrýtingar og rómversk át og drykkjuveisla. Þar sem að brúðhjónin eru sælkerar miklir, reka m.a. þar til gerða verslun, var ekki við öðru að búast en að maturinn yrði dýrðlegur- sem hann var. Allt rann þetta ljúflega niður.

Veislustjórinn fór á kostum, ræður voru haldnar, atriði sett í gang og endaði svo allt með því eftir áeggjan vinkvenna að gamlan fór í púlt alls óundirbúin. Eftir á mundi hún ekkert hvað hún hafði sagt en var sem betur fer vel studd.En hún móðgaði víst engan.

Við tóku trúnófundir yfir borðum og klósettum. Mér hefur alltaf þótt svo vænt um þig, þú hefur alltaf verið besti vinur minn yfirlýsingar ásamt varalitadreifingum og tilheyrandi eyrnaslefi. Partur af prógramminu.

Í lokin var dansað frá sér allt vit og bera fætur mínir þess heldur betur merki í dag. Er ekki frá því að ég þurfi að fá mér nýja. Heljarinnar fjör. Ekki endaði ég nú inni í línskáp með neinum, en greip hins vegar óvart brúðarvöndin sem síðar varð bara til tómra leiðinda. Gaf ég hann því systur brúðarinnar. Kærastinn hennar var víst búinn að lofa því að giftast henni ef hún gripi hann. Fanst mér hann verða að standa við orð sín og henti honum því til hennar. Ég ætla hvort eð er aldrei að giftast aftur.

Eins og í öllum góðum partýum klikktu margir út með nokkrum óvönduðum svívirðingum og meiningum í lokin og því næst haldið heim að sofa. Eða það gerði ég í það minnsta.

Þetta brúðkaup var því hin besta skemmtun eftir allt saman. Varð ég ekki vör við makaleysi nema helst í vangalögunum, en ég vangaði þá bara við kellingar í staðinn.


það sagði hún þá.......

Frísamningur

Finnst stundum að stjórnvöld eigi að verðlauna okkur sem höngum hér á klakanum.
Við sem hopum eigi og stöndum okkar pligt..........með bros á vör.
Fyrir hvert ár sem þú lafir út veturinn á Íslandi, nota bene; án kvartana,
færðu viku í frí - í sólina - á kostnað ríkissjóðs.
Suður á bóginn, í annað tempó, ermalausan bol og sálarró.

Ein vika á ári fengi mig til að þegja alveg yfir snjókomu í aprílmánuði,
en líklegast brosa hringinn í staðinn.

það sagði hún þá.......

Listamannsdraumur

Ég á mér draum.

Draumurinn er að hafa aðstöðu til að taka RISASTÓRAN striga og stekkja hann á ramma.

Síðan langar mig að mála RISASTÓRT málverk á strigann á meðan að ég hlusta á einhvert galið snilliverk í græjunum.

Mikið held ég að þetta gæti orðið gaman.

Einhvern tíma ætla ég að koma þessu í framkvæmd, en þangað til - á ég mér draum.


það sagði hún þá.......

Bæn

Elsku Dvuð.

Ég held að það sé kominn tími til að við spjöllum saman. Ég og Þú.
One on One.
Face to Face.
Þetta er nefnilega ekki alveg að virka eins og það er í dag.

Ég hef reynt að ná sambandi við þig í gegnum tíðina, ýmist með áköllum og upphrópunum, eða þá hvísli. Auk þess hef ég oftsinnis öskrað nafn þitt ofan í koddann minn, eða þá leyft því að bergmála milli veggjanna í sálu minni.
Æpt, gólað gargað!
Hingað til virðist sem þú hafir verið upptekinn við annað, ekki á landinu, eða hreinlega sama - en............ hvað veit ég?
Kannski trúði ég bara ekki á þig.

En.................

Nú er svo komið, að ég hef fengið nóg.

Nóg af sorg og sút………svo ég ætla eitthvað út…….nei, afsakaðu - þú gafst okkur jú söng og húmor, ég datt í Ellen...........en ég hef - sem sagt - fengið nóg.
Það er ekki endalaust hægt að hlaða sorg og vonbrigðum á fólk......þ.e.a.s. ekki nema að þau séu einhverskonar tilraunaverkefni í burðarþoli á erfiðleikum.......og ef að raunin er sú, vil ég hér með segja mig úr því skítaprógrammi. Ég var greinilega full, með óráði eða hvorutveggja þegar og ef ég skrifaðu undir þesskonar samning. Man í hið minnsta ekki eftir því.

Ég játa að allir þurfa sinn skammt af erfiði og ég verð að viðurkenna, að margt af því sem ég hef fengið að reyna hefur gert mig að betri manneskju, betri mér, gefið mér skilning, gefið mér samhyggð og víkkað út sjóndeildarhringinn minn...........en nú er komið nóg.

Ég nenni ekki að standa í þessu lengur.
Standa undir þessu.
Ég er þreytt á að þrauka.
Þreytt á að þrauka í gegnum vanlíðanina.

Það væri sök sér ef þú dömpaðir þessu öllu á mig eina, en að taka fyrir heila fjölskyldu er í raun bara skítlegt. Spurning hvort maður eigi yfirhöfuð að vera að eyða púðri í svona lið eins og þig. Ég hef lagt allt í þínar hendur og samt setið eftir einskis vísari og týndari en áður.

Á HVAÐA NÁMSKEIÐI ER ÉG - OG LANGAR MIG AÐ VERA ÁFRAM Á ÞVÍ??


það sagði hún þá.......

Blaðburður dauðans

Tók að mér blaðburð þar sem að fjárhagsstaða heimilisins bauð ekki upp á annað. Ekki vegna þess að mér finndist þetta eitthvað sérstaklega heillandi starfsvettvangur.
Í gærmorgun var ég risin úr rekkju klukkan fimm því ég átti að fara að kenna í spriklheimum klukkan 6:20 og stefndi á að vera búin að bera út þegar að að því kæmi.
Úti var blautt en blítt veður og ótrúleg kyrrð, fyrir utan rottuskömm í kattarstærð sem skoppaði yfir götuna hinummegin. Einnig biðu mín úti risastórir plastvafðir bunkar með blöðum í og upplýsingum um viðtakendur. Engir voru þó burðarpokarnir og engin kerra. Ég var nú ekki að stressa mig neitt sérstaklega á því, tók up tólið og hringdi í ”blaðberaþjónustuna” Klukkan var þá orðin 5:10. Á hinum endanum svaraði símsvari sem tjáði mér að “blaðberaþjónustan” væri opin á milli klukkan fimm og tuttugu og ég ætti vinsamlegast að skilja eftir skilaboð. Klukkan 5:25 gafst ég upp. Ég rauk niður í geymslu og fann þar stóran svartan ruslapoka. Inni í hjólageymslu var gömul regnhlífakerra sem ég kippti með. Ég skellti blöðunum í ruslapokann og hossaðist svo af stað með kerruna (sem virtist vera hölt á einari) yfir í næstu götu. Blaðburðarlúði dauðans mættur á kantinn. Nú byrjaði fröken náttblind að rýna í listann. Burðurinn var aðeins frábrugðinn hefðbundnum þennan morgun vegna þess að með honum fylgdi aukablað sem borið var í hverja lúgu. Átti þetta til að rugla kellu í rýminu auk þess sem ég var að flýta mér þannig að þegar leið að lokum burðar vantaði 3 blöð í bunkann. Ég klóraði mér í hausnum og skoðaði listann eilítið betur. Úps - ég hafði skellt blöðum inn um lúgur hjá fólki sem var einungis með helgaráskrift. Jæja, ég hringi í “blaðberaþjónustuna”. Þar er svarað og þeir segjast redda því, ég minnist á kerruna og pokana - ekki málið - reddum því líka. Eftir að ég skelli á man ég að ég hafði gleymt að stimpla mig inn í gegnum símann. Ég hringdi inn og ”hóf blaðburð” með því að ýta á einn og ”lauk blaðburð” með því að ýta á tvo, en það var ekki tekið mark á því. Tölvan trúði ekki að ég hefði verið tíu sekúndur að bera út. Ég reyndi nokkrum sinnum en gafst svo upp. Núna var ég orðin allt of sein og rauk í vinnu.

Upp úr hádegi kíkti ég við heima í pásu.
Engin kerra - engir pokar.
Um kvöldmatarleytið, engi kerra - engir pokar.

Það yrði víst plastpoki og barnakerra áfram. Alltaf er ég svo ósmart.

Þakklát, en ósmart.

það sagði hún þá.......

Bína mín

Stundum skríður litla ástsjúka kisudýrið mitt
upp á bringuna á mér þar sem ég ligg klesst niður í sófa -
(að gera eitthvað gáfulegt eins og að horfa á sjónvarpið)
og kemur sér fyrir.
Leggst hún þá eins og Sphinx
með framloppurnar upp við hálsinn á mér og malar.
Ef ég svo tek upp á því að syngja með lagi í bíómynd,
eða með auglýsingunum - sem er bara sad –
þá malar hún enn hærra, nuddar nebbanum í mig,
hnoðar á mér hálsinn með loppunum
og horfir með ást og aðdáun í augun á mér.
Hún hefur einnig ávallt átt það til
að koma hlaupandi til mín
þar sem ég gaula með ryksugunni,
eða sit með Joni Mitchell í vægum bláma
fyrir framan græjurnar á skítlegu laugardagskvöldi
og nudda sér upp við mig í áköfum bríma.

Nú veit ég ekki alveg hvernig ég á að taka þessu.

Kattagól hefur hingað til ekki talist fagurt
og breimhljóð eru ekki fögur nema í þeirra eigin eyrum......
þ.e. kattanna.
Það sem nagar mig er efinn.

Er hún að elska sönginn minn af því að hann er svo fagur,
eða elskar hún sönginn minn af því að hann er svo ”fagur”

það sagði hún þá.......

Á leið út

Árið 1992 lagði ég alein upp í ferðalag til Bandaríkjanna þar sem ég hugðist hefja nám í leikhúslistum. Þegar upp á Leifstöð var komið gekk mér þó ansi illa að sleppa hendinni af dóttur minni sem þá var tæplega tveggja ára, en planið var að ég færi á undan fjölskyldunni og kæmi okkur fyrir, en þau myndu svo sameinast mér tveimur mánuðum síðar. Endaði þetta með því að faðir hennar reif hana úr fanginu á mér og ýtti mér grenjandi í gegnum hliðið.

Í þá rúma fimm tíma sem það tók að fljúga til New York grét ég út í eitt. Frekar leiðinlegt fyrir manninn sem sat við hliðina á mér en ég réð ekki við mig, hann þóttist lesa. Á Kennedy flugvelli beið ég í tvo tíma eftir næsta flugi og enn var grátið. Loks kom útkall í Southwest vél dauðans, en sætaskipan í þeim sardínudósum er þrengri en rútuferð til helvítis. (já, hef skroppið í nokkrar ferðir þangað) Dollan angaði auk þess af sterkri karrý og gamalli svitalykt. Sessunauturinn var 200 kíló og eftir að hafa hoppað og skoppað um háloftin í þessu skrapatóli í fjóra tíma fékk maginn minn nóg. Ælupokinn.....eða pokarnir voru notaðir til hins ítrasta, ásamt vænum skammti af tissjú, því ekki hætti ég að skæla þó ég væri að æla. Loks aumkuðu freyjurnar sig yfir mig og færðu mig fram í viðskipta farrýmið, sem var líkara venjulegu farrými hjá Flugleiðum, en þar var ekki jafn “troðið” og á hinu rýminu.

Eftir sex tíma var lent í Las Vegas og þar sat ég útæld og grátin innan um klingjandi fjárhættuspilsmaskínur í aðra tvo tíma. Loks kom tveggja tíma lokahnykkurinn yfir til San Fransisco en þá voru liðnir u.þ.b. 20 tímar frá því að ferðalag hófst. Ég skrölti út úr vélinni og í gegnum völundarhús immigration og flugvallarbygginga þar til ég fann farangursbeltið. Þegar allar töskur voru farnar af bandinu til réttmætra eigenda sinna varð mér ljóst að mínar ætluðu ekki að mæta. Ég þurfti því að fylla út nokkur HUNDRUÐ eyðublöð hjá kátum starfsmönnum flugvallarins, en það þarf ekki að segja það tvisvar að ég var orðin frekar framlág þegar þarna var komið. Þar sem ég lenti seint að kveldi átti ég bókað herbergi á flugvallarhóteli og þangað var ég keyrð í hótelrútu, eða eiginlega hótelvagni.

Ég var tannbursta, nærbuxna og allslaus í hótelherbergi sem að vegna mistaka í bókun var herbergi sérhannað fyrir fatlaða einstaklinga með ýmiskonar handföngum og upptogum ......sem reyndar komu sér ágætlega þar sem að ég var orðinn hálfgerður aumingi eftir þetta ferðalag. Ég hringdi heim en þar tók það fyrrverandi langan tíma að skilja hvað ég var að segja því ekkasogin voru þvílík. Mig langaði bara heim og það var það eina sem ég gat sagt; ég vil fara heim.


Daginn eftir vaknaði ég eldsnemma enda ennþá í ruglinu sem ég átti eftir að kynnast betur í framtíðinni, en það er nokkuð sem fylgir 9 stunda tímamismun. Seinna lærði ég ýmis trikk til að minnka áhrif þotuklessu, en þarna var ég alveg ný í bransanum. Ferðataskan mín tók fagnandi á móti mér fyrir utan hóteldyrnar, þreytt og lúin var hún þó, enda búin að ferðast allan sólarhringinn. Það fyrsta sem ég gerði var að tannbursta mig, því næst fór ég í sturtu og hreina brók. Alla tíð síðan hef ég ferðast með þetta hvorutveggja í handfarangri og ekki séð eftir því.

Ég hafði náð sambandi við Íslendinga búsetta í að ég hélt San Fransisco, þar sem ég átti að fá inni þar til ég væri búin að finna húsnæði, en það kom þó fljótlega á daginn að fólk þetta var búsett í Oakland - sem er EKKI San Fransisco, þó svo að það sé "rétt hjá"!! Þar búa voðalega margir blökkumenn og ég var hvítari en njóli innan um þessa skoppara og hoppara og fjandanum hræddari þar sem þeir blöstuðu á pimpuðum kerrum um göturnar með hip hop í botni og sungið var af ákafri innlifun um að drepa hvíta manninn og nauðga konunum þeirra. Sjarmerandi.

Hinu indæla íslenska fólki sem skaut yfir mig skjólshúsi fannst nú ekki mikið til mín koma enda voru þau alveg með eindæmum mikið listafólk og bóhemar öll sömul. Ég var bara heimsk, ljóshærð diskópía í þeirra augum enda var ég ekki, svo ég vitni í menntskælinginn minn, grindhoruð, berfætt og í þunnum kjól. Þau vildu því sem minnst hafa saman við mig að sælda, en það hef ég löngu fyrirgefið þeim enda gerðu þau mér greiða. Þau létu mig bara fá lykilinn af íbúð einni sem nú stóð tóm þar sem að eigendur voru á ferðalagi og þarna átti ég svo að búa alein innan um annarra manna handklæði, rúmföt og eldhúsáhöld og vera auðvitað kúl með það. Ég sat hinsvegar í stofunni matar og allslaus í 9 tíma, það hafði gleymst að segja mér hvar búðin væri og ég ætlaði ekki eitthvað út að rápa út í bláinn, en allan tímann hugsaði ég hvað ég væri að gera þarna.

Þegar að nágrannarnir hófu að þenja byssurnar undir kvöldið skreið ég skíthrædd upp í rúm en ekki áður en ég hafði náð í risastóran hníf innan úr eldhúsi sem ég stakk undir koddann. Það viðurkennist hér með að ekki var mikið sofið þessa fyrstu nótt. Daginn eftir neyddist ég til að ramba út í búð þar sem að hungur og þorsti voru farin að plaga mig. Alltaf vesen með þessi tvö. Ofurvarlega og með dollarana vel falda innanklæða í túristabelti smokraði ég mér í átt að götu sem leit vænlega út með tilliti til verslunar. Á hverju horni sátu tannlausir rónar og götustrákar og ekki voru mér spöruð orðin. Voru það ýmist kynþáttasvívirðingar í minn garð eða þá hótanir um náin kynni frá hendi þessara prýðispilta allra. Ég horfði bara stíft niður fyrir mig - en átti eftir að læra eins og margt annað að þegar þú gengur um ókunn stræti þar sem fólk er jafnvel ekki vinveitt þér er vænlegast að horfa hrokafullur fram fyrir sig, ganga ákveðnum þungum skrefum áfram og ekki skaðar að hafa sígarettu á milli fingrana sem hægt er að töffarast með. Þess á milli líturðu með fyrirlitningu en jafnframt fullkomnu áhugaleysi á það sem fyrir augu ber og stoppar aldrei. Þetta sérstaka göngulag átti ég eftir að þróa með mér í gegnum árin þar til það varð að listformi. Mun það jafnvel verða sýnt á Laugaveginum á menningarnótt ef andinn kemur yfir mig.

En til að gera langa sögu stutta fann ég þarna lítinn markað þar sem ég gat nálgast nauðsynlega næringu, en það sem betra var, var að ég fann lestastöðina þar sem lestin sem myndi bera mig til Borgarinnar er ann ég mest beið.

það sagði hún þá.......