fimmtudagur

Á heimili mínu búa....

auk unglingsins, tveir undarlegir einstaklingar. Eru þetta tveir lágvaxnir, loðnir og með eindæmum kröfuharðir einstaklingar sem eiga það til að framkalla ýmiskonar sóðaskap á annars fyrirmyndarhreinu heimili mínu - Eiga þeir það til að dröslast með matinn sinn um öll gólf, dreifa fíngerðum illa lyktandi sandi um allt, fara úr hárum í föt og sófa og síðast en ekki síst skilja eftir litlar uppsölur sem að tilvalið er að stíga í á fúlum morgni með berum tásum.

Þess á milli reka þeir upp ámátleg vein sem líklegast eru kvörtun vegna umönnnunarskorts eða almennra leiðinda. Þó verður kórinn háværastur þegar ég hef lokað að mér inn í svefnherbergi á kvöldin vegna þess að mér leiddist orðið að vakna með hár í nefinu og munninum auk þess að þessar verur eru með eindæmum plássfrekar og troða sér þangað sem þeim hentar - skítt með þótt að ég sé þá í kuðli úti í horni þess vegna.

Hef ég boðið þessum einstaklingum mörgum sinnum að flytjast burt af heimili mínu - opnað dyrnar upp á gátt og sagt vessgú - en þeir virða boð mitt að vettugi og sitja sem fastast. Ekki hef ég nú brjóst í mér að farga þessum vitleysingum - því þótt pirrandi séu - þá eru þetta ósköp fallegir slúbbertar. Annar er steingeldur og blíður 8 ára fress - andlitsfríður, bröndóttur með hvíta bringu. Hin er hreinræktuð Abbyssiníuprinsessa með ættbók og alles, ástsjúk og frek og étur pilluna einu sinni í viku. Hún er nú orðin 5 ára gömul.

Ég hef reynt að ræða við þessar elskur um umgengni og sóðaskap og hvað mér þykir leiðinlegt að þau skuli alltaf þurfa að brýna klærnar sínar á húsgögnunum mínum, en ekki á mottunum og klórutrjánum sem keypt voru sérstaklega til þess arna, en það er eins og þau skilji mig ekki. Ég er því alveg að gefast upp á því að búa með þessum bjánum. Það er ekki alveg nóg að vilja svona kúrudýr bara til að klappa og ilja sér á tásunum á kvöldin. Eða hvað? Það er nú ósköp ljúft reyndar.

það sagði hún þá.......

Engin ummæli: