fimmtudagur

Á leið út

Árið 1992 lagði ég alein upp í ferðalag til Bandaríkjanna þar sem ég hugðist hefja nám í leikhúslistum. Þegar upp á Leifstöð var komið gekk mér þó ansi illa að sleppa hendinni af dóttur minni sem þá var tæplega tveggja ára, en planið var að ég færi á undan fjölskyldunni og kæmi okkur fyrir, en þau myndu svo sameinast mér tveimur mánuðum síðar. Endaði þetta með því að faðir hennar reif hana úr fanginu á mér og ýtti mér grenjandi í gegnum hliðið.

Í þá rúma fimm tíma sem það tók að fljúga til New York grét ég út í eitt. Frekar leiðinlegt fyrir manninn sem sat við hliðina á mér en ég réð ekki við mig, hann þóttist lesa. Á Kennedy flugvelli beið ég í tvo tíma eftir næsta flugi og enn var grátið. Loks kom útkall í Southwest vél dauðans, en sætaskipan í þeim sardínudósum er þrengri en rútuferð til helvítis. (já, hef skroppið í nokkrar ferðir þangað) Dollan angaði auk þess af sterkri karrý og gamalli svitalykt. Sessunauturinn var 200 kíló og eftir að hafa hoppað og skoppað um háloftin í þessu skrapatóli í fjóra tíma fékk maginn minn nóg. Ælupokinn.....eða pokarnir voru notaðir til hins ítrasta, ásamt vænum skammti af tissjú, því ekki hætti ég að skæla þó ég væri að æla. Loks aumkuðu freyjurnar sig yfir mig og færðu mig fram í viðskipta farrýmið, sem var líkara venjulegu farrými hjá Flugleiðum, en þar var ekki jafn “troðið” og á hinu rýminu.

Eftir sex tíma var lent í Las Vegas og þar sat ég útæld og grátin innan um klingjandi fjárhættuspilsmaskínur í aðra tvo tíma. Loks kom tveggja tíma lokahnykkurinn yfir til San Fransisco en þá voru liðnir u.þ.b. 20 tímar frá því að ferðalag hófst. Ég skrölti út úr vélinni og í gegnum völundarhús immigration og flugvallarbygginga þar til ég fann farangursbeltið. Þegar allar töskur voru farnar af bandinu til réttmætra eigenda sinna varð mér ljóst að mínar ætluðu ekki að mæta. Ég þurfti því að fylla út nokkur HUNDRUÐ eyðublöð hjá kátum starfsmönnum flugvallarins, en það þarf ekki að segja það tvisvar að ég var orðin frekar framlág þegar þarna var komið. Þar sem ég lenti seint að kveldi átti ég bókað herbergi á flugvallarhóteli og þangað var ég keyrð í hótelrútu, eða eiginlega hótelvagni.

Ég var tannbursta, nærbuxna og allslaus í hótelherbergi sem að vegna mistaka í bókun var herbergi sérhannað fyrir fatlaða einstaklinga með ýmiskonar handföngum og upptogum ......sem reyndar komu sér ágætlega þar sem að ég var orðinn hálfgerður aumingi eftir þetta ferðalag. Ég hringdi heim en þar tók það fyrrverandi langan tíma að skilja hvað ég var að segja því ekkasogin voru þvílík. Mig langaði bara heim og það var það eina sem ég gat sagt; ég vil fara heim.


Daginn eftir vaknaði ég eldsnemma enda ennþá í ruglinu sem ég átti eftir að kynnast betur í framtíðinni, en það er nokkuð sem fylgir 9 stunda tímamismun. Seinna lærði ég ýmis trikk til að minnka áhrif þotuklessu, en þarna var ég alveg ný í bransanum. Ferðataskan mín tók fagnandi á móti mér fyrir utan hóteldyrnar, þreytt og lúin var hún þó, enda búin að ferðast allan sólarhringinn. Það fyrsta sem ég gerði var að tannbursta mig, því næst fór ég í sturtu og hreina brók. Alla tíð síðan hef ég ferðast með þetta hvorutveggja í handfarangri og ekki séð eftir því.

Ég hafði náð sambandi við Íslendinga búsetta í að ég hélt San Fransisco, þar sem ég átti að fá inni þar til ég væri búin að finna húsnæði, en það kom þó fljótlega á daginn að fólk þetta var búsett í Oakland - sem er EKKI San Fransisco, þó svo að það sé "rétt hjá"!! Þar búa voðalega margir blökkumenn og ég var hvítari en njóli innan um þessa skoppara og hoppara og fjandanum hræddari þar sem þeir blöstuðu á pimpuðum kerrum um göturnar með hip hop í botni og sungið var af ákafri innlifun um að drepa hvíta manninn og nauðga konunum þeirra. Sjarmerandi.

Hinu indæla íslenska fólki sem skaut yfir mig skjólshúsi fannst nú ekki mikið til mín koma enda voru þau alveg með eindæmum mikið listafólk og bóhemar öll sömul. Ég var bara heimsk, ljóshærð diskópía í þeirra augum enda var ég ekki, svo ég vitni í menntskælinginn minn, grindhoruð, berfætt og í þunnum kjól. Þau vildu því sem minnst hafa saman við mig að sælda, en það hef ég löngu fyrirgefið þeim enda gerðu þau mér greiða. Þau létu mig bara fá lykilinn af íbúð einni sem nú stóð tóm þar sem að eigendur voru á ferðalagi og þarna átti ég svo að búa alein innan um annarra manna handklæði, rúmföt og eldhúsáhöld og vera auðvitað kúl með það. Ég sat hinsvegar í stofunni matar og allslaus í 9 tíma, það hafði gleymst að segja mér hvar búðin væri og ég ætlaði ekki eitthvað út að rápa út í bláinn, en allan tímann hugsaði ég hvað ég væri að gera þarna.

Þegar að nágrannarnir hófu að þenja byssurnar undir kvöldið skreið ég skíthrædd upp í rúm en ekki áður en ég hafði náð í risastóran hníf innan úr eldhúsi sem ég stakk undir koddann. Það viðurkennist hér með að ekki var mikið sofið þessa fyrstu nótt. Daginn eftir neyddist ég til að ramba út í búð þar sem að hungur og þorsti voru farin að plaga mig. Alltaf vesen með þessi tvö. Ofurvarlega og með dollarana vel falda innanklæða í túristabelti smokraði ég mér í átt að götu sem leit vænlega út með tilliti til verslunar. Á hverju horni sátu tannlausir rónar og götustrákar og ekki voru mér spöruð orðin. Voru það ýmist kynþáttasvívirðingar í minn garð eða þá hótanir um náin kynni frá hendi þessara prýðispilta allra. Ég horfði bara stíft niður fyrir mig - en átti eftir að læra eins og margt annað að þegar þú gengur um ókunn stræti þar sem fólk er jafnvel ekki vinveitt þér er vænlegast að horfa hrokafullur fram fyrir sig, ganga ákveðnum þungum skrefum áfram og ekki skaðar að hafa sígarettu á milli fingrana sem hægt er að töffarast með. Þess á milli líturðu með fyrirlitningu en jafnframt fullkomnu áhugaleysi á það sem fyrir augu ber og stoppar aldrei. Þetta sérstaka göngulag átti ég eftir að þróa með mér í gegnum árin þar til það varð að listformi. Mun það jafnvel verða sýnt á Laugaveginum á menningarnótt ef andinn kemur yfir mig.

En til að gera langa sögu stutta fann ég þarna lítinn markað þar sem ég gat nálgast nauðsynlega næringu, en það sem betra var, var að ég fann lestastöðina þar sem lestin sem myndi bera mig til Borgarinnar er ann ég mest beið.

það sagði hún þá.......

Engin ummæli: