fimmtudagur

Kakkalakkakot

Í blokkinni minni í San Fransisco bjó margt fólk og ekki allir jafn þrifalegir og ég.
Þar bjuggu líka kakkalakkar, en þeir eru víst fylgipöddur stórborga.
Það er nú svo að kakkalakkar sækja í óþrifnað og er því gott ráð að skilja aldrei eftir matvæli á borðum, mylsnu eða uppvask og gott er að venja sig á að fara út með ruslið tvisvar á dag. Þessu fylgdi ég alltaf, en samt var það nú svo að endrum og eins greip ég einn glóðvolgan brúnrass á skemmtigöngu um eldhúsbekki. Var þeim yfirleitt veittur snöggur dauðdagi, því betri er dauður lakki á blaði en lakki á vappi í baði.

Nú bar svo við að mér var boðið að skjótast frítt til Íslands í Júmbóþotu sem ferja átti til eyjunnar fögru og til baka á vegum Cargolux, en einhver ítök hafði gamla þar í þá daga.
Ég ákvað að taka boðinu og skellti mér heim í 3ja vikna frí. Var það ljúft.

Daginn eftir að ég kem aftur út, staulast ég eins og vanalega inn í eldhús og opna þar skáp með morgunkorni og öðrum þurrmat. Venjulega sátu pakkningarnar þarna í rólegheitunum sínum, en í þetta sinn virtist vera einhver hreyfing á þeim. Eftir að hafa náð almennilegum fókus varð mér ljóst að skápurinn iðaði af brúnrössum.
Ég argaði upp yfir mig, skellti skáphurðinni aftur og áður en varði var ég komin niður á fyrstu hæð og lá þar á hurð leigusalans viti mínu fjær af viðbjóði.

Ég tilkynni honum að annað hvort geri hann eitthvað í málunum eða ég fari í lögfræðing og haldi einnig eftir leigu mánaðarins. Þar sem ég bjó í fínu hverfi og borgaði svimandi háa leigu var mér stætt á slíkum yfirlýsingum. Hann sagðist ætla að ganga í málið strax, en ég þyrfti að fara að heiman yfir daginn og ekki koma aftur fyrr en að kveldi, því þarna yrðu notuð ansi sterk efni. Mér fannst það lítið mál.

Um kvöldið sný ég aftur í íbúðina. Ég opna hurð, kveiki ljósið og stóð á öskrunni.

Um alla íbúð lágu lík kakkalakkastórfjölskyldunnar. Gólfið var þakið! Baðið, vaskarnir, rúmið mitt, ALLT! Eftir að ég hafði talið í mig kjark, tiplaði ég varlega á tánum inn eftir íbúðinni, náði í ryksuguna inni í skáp og hófst handa við að jarða. Ég byrjaði inni í stofu og vann mig í átt að eldhúsinu. Þegar þangað inn var komið blasti þó við mér ótrúleg og jafnframt ógeðsleg sjón.
Á eldhúsveggnum hékk sá alstærsti kakkalakki sem ég hef augum litið. Hann var ennþá lifandi og vissi ég það vegna þess að ég sá hann hreyfast upp og niður þegar hann andaði.
Er ég viss um að þarna var komin móðir afkvæmana 200.000 sem ég hafði verið að soga upp um rörið á ryksugunni og kerlingarhelvítið neitaði að deyja. Hrollur hríslaðist eftir bakinu á mér og það rann á mig æði. Með snöggri hreyfingu og stríðsöskri reif ég af fæti mínum tréklossa og lamdi með öllu afli í kvikindið! Hélt ég síðan áfram að berja um stund. Þó nokkra stund.Þar sem að amerískir veggir eru ekki alveg jafn sterkbyggðir og íslenskir steypuveggir myndaðist þarna stór hola, en innviði pöddunnar dreifðust hins vegar um allan vegg.
Í marga daga á eftir vaknaði ég upp í svitakófi og hafði þá dreymt að ég væri ”The Incredible Shrinking Man” að berjast við kakkalakkamömmuna ofan í kjallara með títuprjón einan að vopni. Á daginn fékk ég óstöðvandi kláðaköst og er ekki laust við að ég finni fyrir kláða við það eitt að rita þessi orð.
En eftir þetta var íbúðin ”bombuð” reglulega.

Það sagði hún þá..........

Engin ummæli: