fimmtudagur

Leikur

Dagurinn rann upp bjartur og fagur……. Um sex leytið.
Því næst varð hann dimmur og grár. Loks blautur og kaldur. Áður en varði var kominn fimbulvetur. Ég var búin að skipta fjórum sinnum um föt og gafst loksins upp.
Það var þó orðið nokkuð ljóst að ekki yrði farið í útileiki.

Keyrði vestur í bæ og sótti enn eitt snilldarbarnið sem alist hefur upp í hvatningu kerlingar. Sá hinn sami er undrabarn og spilar á gítar (acoustic og rafmagns), bassa (kontra og rafmagns) píanó, hljómborð, orgel, saxófón, melodicu, munnhörpu, syngur, leikur, gengur vel í skólanum, er í hljómsveit OG er félagslega vel staddur.
Er hægt að biðja um betra sidekick?

Á skemmtistað var barist í gegnum haglél dauðans sem var harðákveðið í að berja úr okkur allan sumar og gleðifíling, en listamenn eru ekkert ef ekki sveigjanlegir.

Blásið var í lófa, hrist í sig yl og gengið til fundar við gin ljónsins.

Sagan af Hans Klaufa lesin með undirspili, hljóðeffectum og leiktilburðum. Gargað míkrófónlaust í tjaldi (það er spes og einkar gott fyrir raddböndin).
Þurfti iðulega að stilla mig af til að detta ekki í hálsrembinginn og færa niður í þind.
Unglingurinn klikkaði ekki, allt undirbúið eins og “mamman” hafði beðið um.
Gamla kunni sjálf ekkert utanað - enda enginn tími til heimalærdóms.

Gera þurfti þó hlé á lestri um stund (3 mínútur, sem er eilífð á sviði), þegar að mesta haglhrynan gekk yfir því það buldi svo á þakinu að ekki heyrðust orða skil. Lítið gagn í að þruma yfir aumingjans börnunum og líta út eins og ofvirkur, hljóðlaus geðsjúklingur fyrir vikið. Ég beið - og bað.

Hópsöngur. Búmmatsjikkíbúmm! Gaman að reyna á höftin. Þeir fullorðnu feimnir og fóru hjá sér, börnin öpuðu því miður mörg eftir þeim, nokkur fjáls og óháð tóku þátt af öllum mætti. Okkur unglingnum fannst gaman.

Þá var það leikurinn. Alltaf fyndið að sjá hvað kynin eru eitruð gagnvart hvort öðru á vissum aldri. Ekki um það að RÆÐA að leiðast. SÉNSINN!!!

Kvödd með virktum og klappi. Nokkrir orðnir óþekkir í lokin, farnir að sprella óumbeðnir. Þá er tilganginum náð.

það sagði hún þá.......

Engin ummæli: