fimmtudagur

Sumar?

Hafið þið tekið eftir því hversu uppteknir Íslendingar eru af veðrinu?
Það líður ekki sá dagur að ég lendi ekki í umræðum um veðrið.
Þetta er mjög merkilegt vegna þess að í raun er nánast alltaf sama veðrið á Íslandi.
Kalt, blautt og vindasamt.
Samt höldum við á hverju ári að það komi alvöru sumar, með sól og yl og göngum jafnvel svo langt að tala um vor!

Ég hef undanfarin 7 ár verið að vinna á Sumardeginum fyrsta og ávallt undir berum himni. Man ég ekki eftir einum slíkum degi þar sem ég var ekki íklædd lopapeysu og húfu með sultardropa á nefi óskandi fólki skjálfandi til hamingju með sumarið.
Bjartsýni þessa sama fólks var líka unun á að líta þar sem að létt og ljósklæddir foreldrar mættu með ungana sína íklædda spánnýjum sumarfötum ættuðum frá heitum löndum og síðan skulfu allir saman í kór. Eftir að hafa fokið eins og eina skrúðgöngu var leitað skjóls um stund innivið þar sem boðið var upp á heitt kakó, (aaaa...hvað er sumarlegra en heitt kakó?) en því næst var barist út aftur til að börnin gætu fengið að hossast um á hestbaki í tilefni dagsins. Á meðan að barnið fór hringinn stilltu foreldrar sér upp með bakið í vindinn og vonuðu innilega að túrinn tæki fljótt af. Þetta er auðvitað bara bráðfyndið og með ólíkindum að enn sé haldið í siðinn.

Á 17. júní, u.þ.b. tveimur mánuðum síðar ætti nú að vera komið sumar, en þar sem ég hef einnig unnið á þeim degi síðustu 7 ár get ég sagt með sanni að oftast voru allir mjög glaðir að skemmtanahald var innivið. Þá var hægt að þræla sér í gönguna, vitandi að við endann var skjól. Í fyrra var hins vegar mjög gott veður á 17, júní í fyrsta skipti á þessum ferli mínum. Stóð ekki á því að allir voru sammála og höfðu um það hátt, að halda ætti upp á daginn útivið hér eftir. Allir búnir að gleyma síðustu árum.

Kannski er það málið. Við Íslendingar erum bara svona gleymnir og þess vegna búum við hér áfram. Á hverju ári bíðum við glaðbeitt og brosandi eftir vori, sumri, og hausti sem aldrei kemur og gleymum að hér ríkir nánast eilífur vetur. Við lifum á þessum einstöku, óvanalegu sólardögum sem kíkja hér við en gleymum hinum. Kannski sér vindurinn um að feykja þessum slæmu minningum út í buskann? Blessað sé rokið.

það sagði hún þá.......

Engin ummæli: