fimmtudagur

Lífsgæði

Hvað eru lífsgæði?
Mælir maður lífsgæði í því sem ég persónulega tel til sjálfsagðra mannréttinda
þ.e.a.s. vinnu, mat og þaki yfir höfuðið?

Það er fullt af fólki sem býr við þau réttindi, en telur sig samt ekki búa við lífsgæði.
Það er einnig til hellingur af fólki sem hefur ekki þessi réttindi,
en margir þeirra telja sig samt búa við lífsgæði.
Hvar liggur munurinn?

Gæði lífs þíns eru auðvitað ekki mæld í eignum.
Það erum við búin að heyra og sjá oft og mörgum sinnum
En hvernig er líf þitt ef að þú átt ekki neitt?
Hvað er ekki neitt?

Segjum að þú eigir ekki þak yfir höfuðið og ekki nóg í þig og á,
en að sama skapi elskar þig einhver og þú elskar hinn sama á móti
Þú átt börn sem elska þig og þú náttúrulega þau og ef þú ert heppinn vilja börnin þín eyða tíma með þér og vera nálægt þér. Þú ert umvafinn fjölskyldu og vinum.
Lífsgæði?
Já ég myndi segja það.

Svo er það hitt dæmið
Þú átt fínt hús og meira en nóg í þig og á,
en enginn elskar þig og þú elskar engan.
Þú átt börn sem að þú elskar, en þau elska þig ekki
og þau vilja aldrei vera með þér eða hjá.
Lífsgæði?
Ekki samkvæmt mínum kröfum.

Hvort dæmið fær í raun hærri einkunn á lífsgæðaskalanum?

Svo er það vinnan.
Við eyðum að meðaltali 9 tímum á dag í vinnunni,
fimm daga vikunnar u.þ.b. 48 vikur á ári.
Sumir miklu lengur og á Íslandi líklegast flestir.
Hvor er betur settur?
Þeim sem líður illa í vinnunni sinni en er með ágætis laun.
Eða sá sem að er glaður í vinnunni en á varla fyrir útgjöldum mánaðarins
Lífsgæði?

Er ekki best að hafa sem mest af pakkanum?
Líklegast - en er það kannski eitthvað sem er ómögulegt?
Er það frekja að vilja hafa sem flest af þessu í lagi?

Ég tel mig þurfa vinnu sem að veitir mér einhverja ánægju, vegna þess að ég eyði meirihluta lífs míns í vinnunni. Ég tel mig þurfa að hafa öruggt skjól að sofa í og þessvegna þarfnast ég þaks yfir höfuðið. Það þarf ekki að vera einhver lúxusvilla, en kannski ekki heldur lek rakahola með rottum og silfurskottum. Eftir að hafa prófað hitt finnst mér nauðsynlegt að eiga bíl á Íslandi, en það þarf ekki að vera neinn jeppi, bara eitthvað sem kemst frá A til B án þess að detta í sundur. Ég vil að til sé nægur matur fyrir mig og barnið mitt, en það þarf ekki að vera steik, en ekki bara hrísgrjón heldur. Ég vil fá að elska einhvern og að einhver elski mig og mér finnst mikilvægara en allt annað að ég njóti þeirrar lukku að barnið mitt elski mig og að á milli okkar séu góð tengsl.Vinir eru nauðsynlegir, þurfa ekki að vera margir, en að eiga vini að og að stunda eitthvað félagslíf er nauðsynlegt til að manneskjan þrífist.

Lífsgæði eru því að mínu mati þessi:

Ást
Góð samskipti við barnið mitt
Vinir
Vinna sem veitir mér ánægju
Laun sem nægja fyrir nauðsynjum.
Þak yfir höfuðið
Nægur matur og skeinir
Félagslíf
Bílskrjóður

Sumum finnst þetta frekt.

það sagði hún þá.......

Engin ummæli: