fimmtudagur

Vitræna

Hef komist að þeim hræðilega sannleika að karlmenn óttast vitrænar konur. Þeim stendur ógn af gáfaðri konu, því hún gæti tekið upp á því að verða klárari en þeir. Það er auðvitað hræðileg tilhugsun og segir sig sjálft að þú stýrir ekki konu sem hefur vit á að stjórna sér sjálf. Hún kaupir líka ekki hvaða bull eða lygi sem þér gæti dottið í hug að láta út úr þér eftir að þú ert búinn að gera einhvern andskotann af þér og ætlar að reyna að klóra þig út úr því. Gáfuð kona gæti tekið upp á því að kveða mann í kútinn, vera með staðreyndir á hreinu og gæti jafnvel sagt manni sínum til annað slagið. Gáfuð kona lætur líka í ljós óánægju sína ef einhver er, vegna þess að hún áttar sig á henni og hún veit einnig að nú er árið 2006 og löngu búið að taka út þetta með að vera manni sínm undirgefin o.s.frv. Oft hafa gáfaðar konur líka gaman af því að tala og koma þá máli sínu vel frá sér og jafnvel með rökstuðningi. Vilja þær líklegast flestar líka að það heyrist í sér og eru þá ekki endilega í þeim pakkanum að hvísla, brosa og segja já allan liðlangan daginn. Málið er s.s að viljirðu ekki daga uppi sem gömul piparjúnka er best að vera vitlaus, viljalaus, óþroskuð og ekki verra ef búið er að krukka í hrukkurnar með gerviefni í sprautum. Það er víst vænlegast til vinnings. Ætli það sé hægt að þjálfa sig upp í þessum bjánaskap – eða er maður bara í skítamálum vegna gena og erfða.

það sagði hún þá.......

Engin ummæli: