fimmtudagur

Maraþon

Þar sem að núverandi vinnustaðurinn minn var lokaður um páskana var það óhjákvæmilegt að manneskja sem er vön að sprikla allt upp í fimm tíma á dag, fengi alvarleg fráhvarfseinkenni. Það var þó ekki fyrr en á sunnudagseftirmiðdeginum sem ástandið var orðið óþolandi. Hvað átti ég að gera? Ég á eftir að fá mér ný hjól á línuskautana og reiðhjólið var með unglingnum hjá pabbanum. Það var því ekkert annað í boði en að skokka. Ekki mín uppáhalds tegund af hreyfingu og ansi langt síðan að ég hef farið út að hlaupa, enda engin þörf verið á.
Ég gallaði mig upp, setti á mig húfu til að vera örugg um að enginn þekkti mig og hélt af stað. Þegar hálftími var liðinn, ég komin langleiðina upp í Árbæ og ekki enn orðin móð fóru að renna á mig tvær grímur. Hvað var að mér? Hvar var súrefnisverkurinn í brjóstinu? Krampinn í kálfanum, verkurinn í mjóbakinu? Allir þessir þættir sem hingað til hafa stuðlað að því að ég hef komið mér undan því að skokka voru horfnir. Ég var orðin þindarlaus!! Ég ákvað samt að snúa við á þessum tímapunkti því ég vildi ekki enda eins og Forrest Gump, en þetta var merkileg reynsla. Býst við að ég geti sagt að ég sé í nokkuð góðu formi. Spurning að hlaupa í maraþoninu í sumar. Kemur einhver með?

það sagði hún þá.......

Engin ummæli: