fimmtudagur

Miz Lion

Var minnt á gamla píanókennarann minn í gær. Hafði að vísu séð á henni smettið utaná einu pjásublaðinu um daginn en varð svo um að sjá þetta andlit martraða minna flennt út og strekkt á forsíðunni að ég máði það úr minninu. Það náði þó ekki að liggja í dvala lengi þar sem að einhver minntist á að slá á fingur við æfingar og allt í einu varð ég sex ára aftur. Frúin sem átti að kenna mér á hljóðfæri drauma minna var valin eftir samtal móður minnar og skólastjóra tónlistarskólans sem ég hafði verið flautunemandi í, en vegna framúrskarandi hæfileika á blokkflautuna átti ég nú að fá að komast í “alvöru” tónlistarnám. Kennarafrauka þessi átti nefnilega að vera svo einstaklega flink og fagleg, sú besta í bissnessnum, en það láðist að nefna að hún væri ekki mannleg, hataði börn og fyndist hrein kvöl og pína að umgangast þau. Í tvö ár mætti ég til þessarar hræðilegu kerlingar***** þar sem hún lamdi inn í mig nótnalestur og fingraæfingar af þvílíku offorsi að ég kláraði nokkur stig á einu bretti og það allt af einskærri hræðslu við hvað hún myndi gera ef ég klikkaði. Hún notaði til þessa sína hvellu og ógnandi rödd ásamt naglaþjölinni góðu sem hún beitti ópart á fingurna á nemendum sínum þess á milli sem hún sat út við horn á skólastofunni, horfði út um gluggan og pússaði á sér neglurnar með henni. Athugasemdirnar í tímum voru eftirfarandi: Nei! Aftur! Vitlaust! Þess á milli var lítið sagt og ekki var mikið um uppörvandi orð. Með einhverju móti tókst henni að finna öll þau leiðinlegustu og andstyggilegustu verk sem hafa verið samin fyrir þetta hljóðfæri, en sem betur fer hafði ég sjálf næmt eyra og hafði upp á tónverkum sem höfðuðu til mín og æfði mig á þeim sjálf heimafyrir. Það varð stundum til þess að naglaþjölinni var beytt ótæpilega í næsta tíma, en bjargaði áhuga mínum á píanóinu.
Seinna átti ég eftir að fá yndislegan píanókennara sem enn þann dag í dag er að spyrja mig hvenær ég ætli að koma og spila fyrir hana aftur, þrátt fyrir að ég hafi hætt að læra um það leiti sem ég byrjaði að sofa hjá. Ég er enn að gæla við hugmyndina um að láta verða að því að byrja aftur. Vantar bara píanóið, það er heima hjá gömlu.

það sagði hún þá.......

Engin ummæli: