fimmtudagur

Til-finningar

Mörgum verður oft tíðrætt um tilfinningar. Oftar þó um þær ”góðu” en sjaldnar þær ”slæmu”. Mér finnst persónulega eðlilegt að tala um tilfinningar mínar og einnig sýna þær, vegna þess að þannig er ég gerð og hef ávallt verið. Ég hef aldrei verið fylgjandi þeirri stefnu að fela tilfinningar mínar, bera þær ekki á torg, láta eins og ekkert sé o.s.frv. Ástæða þessa er sú að tilfinningarnar eru svo stór partur af okkur og geta breytt sýn okkar á allt og alla í kringum okkur. Sum okkar – ykkar elskuleg þar með talin – erum þeim ókosti búin að eiga erfitt með að hafa stjórn á þessum tilfinningum. Þær fara því stundum að stjórna okkur. Það getur stundum endað illa – en persónulega hefur mér þó alltaf líkað betur við innsæið mitt og hjartað, heldur en rökhyggjuna sem stundum treður sér inn og jafnvel eyðileggur allt. Frekar að renna á rassinn eða fá á túlann og hafa verið samkvæmur sjálfum sér, en að tróna á toppnum með skítuga samvisku. En ég er líka á móti því að það sé ávallt verið að tala um slæmar og góðar tilfinningar og þar með setja okkur í þá stöðu, að ef okkur líður ekki vel eða erum ósátt, þá eigum við að skammast okkar fyrir þá líðan.Við höfum verið slæm. Ég vil tala um dimmar og bjartar tilfinningar því að þær spanna jú allan litaskalan þessar elskur og reiði er ekkert verri en gleði – hún er líka tilfinning, en hún er dimm. Aðalmálið er hvernig við tökum á þessum tilfinningum. Það á ekki að vera bannað að tala um dimmu tilfinningarnar en leyfilegt að tala um þær björtu (jafnvel hrópa þær af skókassa ofan í bæ) og þar með loka þær dimmu innan í sér og láta sjálfan sig halda að allir í heiminum séu glaðir nema þú og þar með skammast sín heil ósköp yfir þessari ólund. Fólk sem er alltaf í Pollýönnuleik og þykist alltaf vera í góðu skapi á bara bágt að mínu mati, því það getur ekki verið að það sé mjög mennskt. Finnst mér það líka bara falskt og ég treysti þeim ekki. Við erum fædd með allar okkar tilfinningar – ekki bara þessar björtu. Það er hins vegar til fólk sem að hefur náð góðum tökum á lífinu sínu, er sátt við sjálfan sig og sitt nánasta, hefur átt góða að og auðvelda ævi og er því í sannleika glatt og ánægt – uppfullt af björtum tilfinningum. Það fólk er heppið, en afar sjaldséð. Hins vegar eru margir sem eru alltaf í þykjó leik vegna þess að það má ekki segja það sem þeim finnst. Það má ekki láta í ljós óánægju sína. Þá fer að grassera og bulla innan í þeim potturinn sem að svo kannski gýs einn daginn og sprengir allt í loft upp, jafnvel eitthvað sem þeim var kært. Eða étur það upp að innan, en þá heitir það krabbamein. ( það er mín skoðun) En ég mun alltaf segja satt. Hvort sem ég er dimm – eða björt. Ef ykkur líkar ekki hreinskilnin, má alltaf sleppa því að lesa. Það er nefnilega val.

það sagði hún þá.......

Engin ummæli: