fimmtudagur

Tónlist

Maður hefur nú, maður hefur nú, lent í öðru eins í vetur og staðið sig og staðið sig svo miklu, miklu, miklu, miiiiiiiklu betur.

Sat og hlustaði á Jónas og Diddú í gærkveldi. Var það gott.
Spottið kom inn og sagði:
”Manstu mamma þegar þú varst alltaf að gera svona við mig”.

Það man ég.

Þegar hún var lítil reyndi ég eftir fremsta megni að ”kenna” henni að ”hlusta” á tónlist. Finna tónlist. Sjá tónlist. Upplifa tónlist.

Þegar hún var bara tveggja ára var þetta auðvelt. Við einfaldlega lékum lögin saman. Ímynduðum okkur hvað væri að gerast. Hugurinn var svo óheftur og frjáls að það fór allt á flug. Um stofuna var skutlast fram og til baka, lýsingar voru ótrúlegar, litla andlitið svo kómískt og skemmtilegt þar sem það fetti sig og bretti. Eina lagið sem mátti aldrei spila var Air on G string eftir Bach, þá fór litla neðri vörin að titra og mamman var grátbeðin um að taka ”vonda” lagið af. ”Það er sárt mamma, sárt”. Sorgin og treginn greinilega þetta áþreyfanlegur á unga aldri. Eftir því sem hún varð eldri reyndist þetta þó erfiðara þar til að að því kom að þetta þótti einfaldlega ótrúlega hallærislegt.

Ég tel samt að hún búi ávallt að þessu og komi til þess að njóta þess seinna, en aldrei kom ég henni til að langa að læra á hljóðfæri. En þetta voru yndislegar stundir.


það sagði hún þá.......

Engin ummæli: