fimmtudagur

Ríkisstarfsmenn

Ég hef á löööööngum ferli sem bæjar og ríkisstarfsmaður orðið vitni að ýmsu athygli verðu í fari fólks sem alla jafna situr þá stóla sem tilheyra þessum batteríum. Einkum er það merkilegt að því ofar sem starfsmaður er í goggunarröðinni því minna virðist skila sér frá honum, en hinsvegar þarf flestallt sem honum er rétt að fara fyrir nefnd. Allt virðist óskaplega þungt í vöfum og taka mikinn tíma, en staðreyndin er sú að alla jafna eru fæstir í vinnunni og margir sem eru í vinnunni eru gjörsamlega úti á túni þegar kemur að því að vita hvað þeir eiga að gera. Setningin:" Það er ekki í mínum verkahring" er mikið notuð og endalaust er hægt að benda á næsta mann þar til loks kemur að því að bent er á auðan stól þar sem situr einmana jakki sem einhver Guðmundur á víst, en hann virðist alltaf vera á fundi. Guðmundur er að vísu löngu hættur að mæta en fær þó ennþá tékkann sinn þann fyrsta hvers mánaðar svo lengi sem jakkinn er á stólnum. Lögbundnir kaffitímar og matarhlé eru hvergi virt af jafnmikilli ástúð og sannfæringu og á þessum stofnunum, enda loka sumar þeirra í matartímanum, sem á móti er kannski eini tíminn sem hinn almenni borgari hefur til að útrétta. Almenn fýla og neikvæðni einkennir ávallt vissan hluta fólks á þessum stöðum og virðist oft vera búið að murka úr þeim húmorinn fyrir æviráðninguna, en einnig er smámunasemin oft á tíðum stórkostleg og hægt er að eyða heilu dögunum í að ræða kaup á plastpokum. Margir þessara fýlupúka sitja og bíða færis að geta nappað einhvern fyrir að gera mistök í miðju góðverki og geta þá nöldrað yfir því út í hið óendanlega. Þessar týpur sjá allt sér til foráttu og þola ekki ef vel er gert því þá er ekkert til að kvarta yfir.

Á stað þar sem engin er yfirstjórnin og flestir hafa ekki hugmynd um hvaða starfi eða hlutverki þeir gegna verða til margir smákóngar. Þeir líta hins vegar ekki á sig sem slíka heldur sem kónga í ríki sínu og vei þeim er fara inn á þeirra svið. Þessir kóngar berja sér gjarnan á brjóst, hafa hátt og eru með stórar yfirlýsingar. Þeim finnst fátt skemmtilegra en að dreifa tilkynningum á starfsmenn þar sem beðið er um að þetta og hitt sé gert, en eins og með flest sem að þeir gera er eftirfylgnin engin enda skiptir þá engu máli hvað gerist í raun. Þeir eru búnir að gefa skipunina, það er annara að framkvæma og ekki þeirra mál. Í raun er það svo fíflið - húsvörðurinn - sem ræður öllu og ekki gott að styggja hann, enda hefur hann alger lyklavöld og umsjón með klósettpappírnum og hefur því í raun umsjón með aðalrekstri stofnunarinnar.

Aðalstarfsemin er svo í höndum ungra og saklausra starfsmanna sem detta inn í tímabundin störf á sumrin eða rétt eftir skóla og hörkuduglegu og samviskusömu konunnar sem hefur unnið þarna svo áratugum skiptir fyrir lúsarlaunum án þess að fá svo mikið sem klapp á bakið. Kona þessi er með allt á hreinu og gengur um með höfuðið á undan sér í skynsömu pilsi og rúllukragabol. Hún másar örlítið þar sem hún þrammar á undan þér upp tröppurnar á ecco skónum og útskýrir mál sitt í leiðinni til þess að eyða engum tíma til einskis. Hún hefur komist yfir ótrúlegt magn af lyklum sem glamra hátt við hvert skref. Þetta er konan sem segir alltaf elskan mín við þig og útskýrir hvers vegna þú þarft 10 eyðublöð til að fá einn pakka af blýöntum. Það eru hennar líkar sem að halda öllu gangandi og hana er gott að þekkja.
Ég hefði gaman af því að láta gera almennilega úttekt á þessum stofnunum. Hversu margir mæta til vinnu, hver eru afköstin, hvaða fólk er nauðsynlegt og hvað ekki og hreinsa svo til. Líklegt er að uppi stæðu nokkrar vaskar konur og örfáir unglingar.
Ég sé það hinsvegar ekki gerast þar sem að það er gott að vera kóngur í ríki sínu og kóngar hafa yfirleitt hirð í kringum sig.

það sagði hún þá.......

Engin ummæli: