fimmtudagur

Utanlegs

Það er ekki tekið út með sældinni að vera læknisdóttir. Eins og ég hef nefnt áður, þá er það nú oftast þannig að á heimili pípara lekur allt, hjá rafvirkjanum er allt sambandslaust, en læknisbörn eru hins vegar ávallt send fárveik í skóla og vinnu.
Iðulega var ég send heim úr skólanum eftir að hafa gubbað út alla gangana því ég hafði eftir aumingjalegt kvart heima fyrir verið send í skólann með orðunum: “það er ekkert að þér” sem svo reyndist vera gubbupest, hettusótt, hlaupabóla eða flensa.

Ég var því alin upp við að það væri aldrei neitt að mér og best væri að sleppa því að kvarta. Leið því oft ansi langur tími frá því að mér varð eitthvað illt, þar til eitthvað var gert í því. Verst er að ég er líka svo ljómandi óheppin í heilsuferðinu. Stundum var byrjað á að hringja í föður vor og sagt eitthvað í líkingu við:”Ég er með eitthvað skrítið í hálsinum, á ég að hafa einhverjar áhyggjur af því?” Ef svarið var nei, var haldið í vinnu þrátt fyrir að það væri mér jafnvel um megn að kyngja munnvatni.

Nótt eina í seint í ágústmánuði árið 1989 vaknaði ég upp við afar óþægilegan verk í kviðarholinu. Svipaði honum þó nokkuð til vindverkja einungis miklu, miklu verri.
Þar sem að það er aldrei neitt að mér ákvað ég að bíta nú á jaxlinn og bíða eftir að þetta liði hjá. Þetta var um fjögur leytið. Um sex leytið er ég ekki alveg að fíla þetta lengur og ákveð að slá á þráðinn til gamla mannsins. Hann var eitthvað létt úldinn, enda sofandi og tilkynnti mér að líklegast þyrfti ég bara að skella mér á klósettið.
Ég tók þessu náttúrulega sem heilögum sannleik og skreið samviskusamlega inn á bað. Þar gerðist hins vegar ekkert, en verkurinn fór þó versnandi. Ég hringdi aftur í gamla manninn. Hann sagði mér að ég gæti svo sem komið upp á spítala til hans klukkan átta, en klukkan var þá hálfsjö.

Klukkan átta var ég löngu mætt fyrir utan stofuna hjá honum enda orðin gjörsamlega viðþolslaus af kvölum. Karlinum brá nú eitthvað við að sjá mig og sagði mér að leggjast upp á bekkinn. Þar potaði hann eitthvað í mallann á mér en varð svo voða skrítinn í framan. Sagðist ætla að skreppa fram, en kom von bráðar með martröð allra sjúklinga í eftirdragi, skurðlækni dauðans, sem hann biður um að kíkja á mig og gefa sér álit.
Eftir fruntalegt pot og píningar af hálfu hins einkar mannlega skurðlæknis lá fyrir úrskurður. Stúlkunni var að blæða út!

Babú bíllinn var nú kallaður út hið snarasta og hringt og tilkynnt um komu kerlingar, því þetta var mál fyrir annan spítala. Þegar þangað er komið er ég sett í svæfingu og beint í bráðauppskurð. Kom í ljós að annar eggjaleiðarinn hafði sprungið í loft upp og var kviðarholið nú fullt af blóði. Læknirinn setti smella, renna, hneppa, hnýta í gang og ég vaknaði einum eggjaleiðara fátækari.

Eitthvað var nú ræfilslegur svipurinn á föðurnum sem kom að heimsækja litluna sína upp á spítala, en ég sagði honum að þetta væri allt í lagi. Hinn læknirinn sem ég hafði heimsótt tveimur vikum áður hafði líka sagt mér að það væri ekkert að mér.
Í hvert sinn sem ég fæ vindverk í dag er ég mætt á slysó. Ég tek enga sénsa á svoleiðis verk aftur. Oftast endar það nú með góðu prumpi um leið og ég heyri nafnið mitt kallað úr afgreiðslunni. En “better safe than sorry” segi ég bara. Allir aðrir verkir fá hins vegar að kvelja mig óáreittir áfram.

það sagði hún þá.......

Engin ummæli: