fimmtudagur

Upplifði dálítið undarlegt í gær.

Í stigaganginum mínum býr eldri kona.

Þessi kona hefur vanið sig á þann ósið að í hvert sinn sem aðrir í stigaganginum, nágrannar hennar, mæta henni á ganginum virðist hún knúin til að tuða og röfla yfir öllu og engu, sönnu og ósönnu, skiljanlegu og óskiljanlegu. Einnig hefur hún tekið upp á því að banka upp á í tíma og ótíma til að kvarta undan engu og öllu.
Hefur þetta leitt til þess að allir eru farnir að forðast þessa konu eins og pestina og veigra sér við að nota stigaganginn, eða opna hurðina ef ekki er von á gesti.
Er þetta auðvitað bara sorglegt.

Í gær var ég á harðahlaupum niður stigann þegar að konan stendur allt í einu fyrir framan mig eins og þrumuský í framan og er að óskapnast yfir einhverju ógurlegu. Þar sem að ég gat ekki komist framhjá henni án þess að hún færði sig varð ég að stöðva framgang minn og hlýða á konuna. Skildist mér að málið væri að einhver heimilishjálp hennar hefði ekki komist inn til hennar vegna þess að dyrabjallan hennar væri biluð. Ég spurði þá af hverju heimilishjálparkonan hefði ekki bara ýtt á aðra bjöllu. Þá varð hún alveg galin. Þar sem að ég var á hraðferð varð mér á að segja: ”Æi, (nafn) mín. Ekki vera alltaf svona neikvæð, það er svo leiðinlegt þetta endalausa tuð” um leið og ég smokraði mér framhjá henni og hljóp áfram niður. Frúin gargaði eitthvað á eftir mér og ég kallaði:”Suss, ekki neikvæð!” og út var ég rokin.

Þegar ég kom heim seinna um daginn kom ég við í þvottahúsinu. Er ég skrönglast upp með fullt fangið af þvotti sé ég að konan stendur í hurðargættinni sinni og þar sem ég geng framhjá henni ...ULLAR hún framan í mig!! Mér bregður svo við að stundarkorn er ég frosin. Áður en ég veit af er ég búin að ulla á hana á móti og held svo áfram leið minni, ekki viss um hvort ég eigi að hlæja eða gráta.
Þá kom það. Konan æpir á eftir mér: ” Þú ert bara helv**** hó**!!!!”
Nú fauk í mína. Ég snéri mér við og sagði konunni að skammast sín.
Hún ætlaði að fara að bæta í munnsöfnuðinn en ég endurtók:”Skammastu þín, svona segir maður ekki við fólk!” og hún þagnaði. Ég fór inn til mín í sjokki.
Hvernig tekur maður á svona löguðu?
Og ég sem hef ekki verið við karlmann kennd í laaaaaaangan tíma.

það sagði hún þá.......

Engin ummæli: