fimmtudagur

15.5.03

Var komin á fætur fyrir sex í morgun. Vaknaði bara eins og hvert annað gamalmenni og gat ekki sofið lengur. Fór samt ekkert svo snemma að sofa. Það var samt ágætt - klukkan átta var ég búin að fara í leikfimi, borða morgunmat, lesa blaðið og setja í eina vél. Það væri kannski fínt ef að maður vaknaði alltaf svona sprækur. Er annars með hálfgerðan móral yfir fýlublogginu um daginn - en svona er þetta bara. Suma daga er maður bara pissed og aðra skárri!!! Það er að koma helgi aftur og ég skil eiginlega ekki hvernig stendur á þessum hraða. Tíminn bara flýgur áfram og maður hefur varla tíma til að taka eftir. Það væri kannski best að fara að undirbúa jólin hvað úr hverju svona til að vera reddí þegar þar að kemur! Ég held að það sé orðið of seint að plana einhverja skólagöngu í haust - búin að missa af öllum deddlænum. Er hvort eð er ekkert búin að ákveða hvað ég ætla að verða þegar ég er orðin stór. Ég ætlaði alltaf að verða leikari - eða frá því að ég var sex ára og fór að sjá Jesús krist súperstjörnu í Austurbæjarbíói. ( Hef aldrei ákveðið neitt annað ) Man að það var farið með fjölskylduna á miðnætursýningu og ég var látin leggja mig um daginn. Sat svo og skalf af hrifningu og spennu alla sýninguna - fannst þetta æði. Sjokkeraðist allhressilega þegar að Pálmi hengdi sig á sviðinu - líka þegar Jens Hansson - saxófónleikari Sálarinnar - stóð upp í miðri sýningu og spurði hvar klósettið væri! Man annars bara eftir tveimur leikhúsferðum með foreldrunum - hin var Svartfugl í Iðnó. Við fórum ekkert mikið saman fjölskyldan.......eða ég man ekki eftir því allaveganna. man eftir Spánarferð þegar ég var fimm ára. Drukknaði næstum í djúpu lauginni ( Tóti bróðir bjargaði mér ) og lokaðist í lyftu. Spánverjarnir elskuðu mig af því að ég var pínulítil með hvítt hár og blá augu. Fékk alltaf gefins ís frá Tony vegna þessa. Endalausir bíltúrar þar sem að miðstöðin var í botni, engir gluggar opnir út af ryki og pabbi reykjandi frammí - eftir góðan túr í amerísku dýnunni var lillunni alltaf orðið óglatt og endaði úti í vegakanti ælandi. Man eftir ferð í Borgarfjörðin þar sem ég var nærri drukknuð í ánni ( Tóti bróðir bjargaði mér ) Einhverjum bíltúrum að skoða veiðiár með pabba þar sem hann þuldi upp fjallanöfnin - náttúruna.......spurði mig svo út úr á leiðinni til baka - ég mundi aldrei neitt. Ég næstum farin út í Ölfusá í bílnum einu sinni - pabbi náði að rykkja í handbremsuna á elleftu stundu......skrítið að mér skuli vera illa við vatn! ferð til Svíþjóðar og Danmerkur - Tóti bróðir á gelgjunni - ég fékk sólsting eftir að hafa verið í jarðaberjagarði - borða ekki jarðaber í dag. Það er nánast allt og sumt. Kannski voru einhverjar sumarbústaðaferðir en ég held að ma og pa hafi alltaf farið tvö í frí og ég var sett í pössun hjá Eddu frænku ( þar sem ég fitnaði alltaf því þar voru alltaf kaffitímar í eftirmiðdaginn og á kvöldin með heimalöguðu bakkelsi) eða þá að amma gamla kom og passaði okkur öll þrjú. man alltaf þegar að kraninn losnaði af vaskinum á litla baðinu og amma þessi rólega kona stóð argandi og gargandi í vatnselgnum og við Tóti hlógum svo mikið að við gátum ekkert gert. Afhverju er ég þá alltaf með móral yfir því að ég sé ekki að gera neitt með dóttur minni? Þetta er bara lenskan í minni famelíu. Ætla nú samt að reyna að dröslast austur í Hallormsstað með tjald í sumar - eins gott að það verði veður.

það sagði hún þá.......

Engin ummæli: