fimmtudagur

26.5.03

Snobb er undarlegt fyrirbæri. Fæst okkar viljum vera kölluð snobb en það er nú samt svo merkilegt að ansi margir eru það samt innst inni. Sama á við um fordóma. Margir básúna það út um víðan völl að þeir séu ekki fordómafullir en svo kemur á daginn að svo er ekki þegar að á reynir. En aftur að snobbinu. Hvað er snobb? Jú, það að finnast eitthvað eða einhver fínni en eitthvað eða einhver annar. Margir snobba fyrir peningum, aðrir fyrir menntun, sumir fyrir útliti, frægð, ættum og svo mætti lengi telja. En hvers vegna? Er einhver annar betri manneskja eða meiri vegna einhvers sem er á yfirborðinu eins og áðurtaldir hlutir? Fullt á fólki á Íslandi er frægt fyrir að hanga á börum og kaffihúsum og birtist fyrir það eitt í glansblöðum landsins og fullt af fólki snobbar fyrir því – hvað er málið? Ég hef oft sagt við sjálfa mig þegar að ég hef fundið fyrir því að mér finnst einhver persóna við hlið mér eða jafnvel bara í sjónvarpinu vera merkilegri en ég……..” ja, hún/hann kúkar líka” Það er nefnilega málið. Það kúka allir – og enginn er fínn þegar hann er að kúka. Sumir kúka líka á sig í annarri merkingu. Hversu margir af “flottustu” og “fínustu” einstaklingum þessa lands hafa ekki orðið gjaldþrota oftar en einu sinni – lagt líf sakleysingja í rúst en samt sem áður átt áfram sín einbýlishús og Benza og fyrir það ( að eiga peninga) haldið þeim status að fólk snobbar fyrir þeim og enn birtast myndir af þeim í blöðunum? Ansi margir. Og hvað með menntasnobbið? Fólk er ekki fínt nema að það hafi menntað sig. Ég veit um fólk sem hefur menntað sig í áratugi en vinnur samt sem kennarar á skítalaunum á meðan að Valli sem féll á Samræmdu keypti sér gröfu 17 ára og lifir góðu lífi í dag. Þegar að vaskurinn bilar hjá mér þá kann ég ekki að gera við hann þrátt fyrir að ég sé með fimm ára háskólamenntun. Sama með rafmagnið eða bílinn…..er þá fólkið sem að kann að laga það hjá mér lægra sett en ég vegna þess að það kann eitthvað sem tók ekki fimm ár í háskóla að læra? Iðn og verknám þykir bara ekki fínt. Hvað þá sjálfmenntaðir menn. Þeir einu sem fá virðingu út á það eru þeir sem lærðu ungir að stela og pretta og búa til pening. Ég gæti aldrei haldið það út að vera á sjó – en samt eru sjómenn annars flokks fólk á Íslandi. Svo er það útlitið. Fullt af fólki er fínt fyrir það eitt að vera fallegt. Þú getur orðið frægur fyrir að vera fallegur – sama þó þú sért skítakarakter- og fólk snobbar líka fyrir fegurð. Ég veit um menn og konur sem hafa lufsast um með fallegt dót á arminum sem ekki var einu sinni talandi eða var svo andstyggilegt að ekki var hægt að vera nálægt því, en hékk áfram með því vegna þess að það var fallegt og það að hafa þetta á arminum gaf þeim status. Ég veit ekki um neinn sem að snobbar fyrir mér – enda er ekkert sem að ég hef sem að fellur undir áðurnefndar kategoríur og mér finnst það fínt. Ég ætla að vona að allir sem að kynnast mér og vingast við mig á minni ævi geri það á réttum forsendum. Það getur ekki verið gott að vera orðinn áttræður og krumpaður og hugsa til þess að allir sem þú hélst að væru vinir þínir voru bara með þér af því að þú áttir peninga, varst fallegur eða varst svo asskoti vel menntaður.

Það sagði hún þá........

Engin ummæli: