fimmtudagur

Komin út

Eftir u.þ.b. 20 mínútna lestarferð, sem ég áttaði mig síðar á að var að mestum hluta undir sjávvarmáli, var mér spýtt út á mörkum Union og Powell, miðpunkti San Fransisco – Ðe túristahorn. Ég var komin heim. Ég hafði íklæðst stuttbuxum og bol í borg byssuskotanna, en áttaði mig fljótt á því að þessi stutta vegalengd á milli þessara tveggja borga skipti þó miklu máli hvað varðar veðurfar vegna þess að Oakland er inni í landi, en Frisco stendur við fjörð. Þar er því oft “pínu” vindasamt og einnig á þokan það til að leggjast yfir hana ef mjög heitt er í veðri og þá verður hreinlega kalt. Það á til dæmis aldrei að ferðast til San Fransisco í Júlí - það er ávísun á lopapeysur og skyggni 0 metrar. En, ég var því frekar ferðalangsleg og púkó þar sem ég arkaði um borgina með gæsahúð og bera kálfa þar til ég datt inn í búð sem ég átti síðar eftir að versla mikið í. Salvation Army búðir í USA selja nefnilega sömu hágæða tískufötin sem seld eru í versluninni Spútnik ofl. í Reykjavík en á því verði sem á að á að selja notaðan sveittan fatnað með saumsprettum á - þ.e. slikk, en ekki á sama uppsprengda verðinu og nýtt drasl, eins og gert er hér heima. Ég varð mér úti um gamlar Levi’s gallabuxur og forláta mótorhjólastígvél og göngulagið góða hóf að fæðast.
Á þessum eina degi náði ég að ganga nánast alla borgina endana á milli, enda er hún í raun ekkert voðalega stór. Ég villtist líka inn í Tenderloin hverfið, þar sem ég hefði hæglega getað endað mína ferð hér á jörðu, en þar sem að ég var komin í stígvélin og áttaði mig fljótlega á að ég var ekki komin á góðan stað náði ég að töffarast þaðan út á lífi. Ég arkaði upp og niður hæðir, úúúú aði og aaaaa aði, og var einfaldlega á fullu í að rápa og glápa. Í einni götu hátt uppi á einni hæðinni sá ég skilti í glugga “For Rent” stóð þar rauðum stöfum. Þetta var hið snyrtilegasta hverfi með fallegum gömlum húsum og einni götu fyrir ofan var lítill garður með leikvelli. Príma staður fyrir litlu fjölskylduna. Seinna átti ég eftir að sjá þennan litla róló ansi oft í bíómyndum en hann er staðsettur fyrir framan hið fræga Fairmount Hotel. Ég bankaði uppá og hitti fyrir leigusalann. Hann vildi ólmur leigja mér íbúðina fyrir litlar 90 þúsund krónur – athugið að þetta var árið 1992, en ég var alveg græn. Ég var búin að heyra að leiguverð væri hátt og þó að mér blöskraði þá fannst mér íbúðin fín á fallegum stað og bara sló til. Arkaði í bankann og tók út aleiguna - og skrifaði undir. Litla fjölskyldan átti að flytja inn í íbúð í Nob Hill, eða Snob Hill sem hún er kölluð af lókalnum og við vorum komin í lið með fína fólkinu. Þetta hafði ég ekki hugmynd um, en áttaði mig fljótlega á því þegar ég sá svipinn á listafókinu í Oakland þegar ég sagði þeim hvert ég væri að flytja. Þau skildu líka ekkert í mér að vilja ekki frekar búa þarna útfrá og taka bara lestina í skólann og ég nennti ekki að útskýra fyrir þeim að mér væri illa við að dóttir mín léki sér innan um byssur og róna, hvað þá róna með byssur. Ég flutti því inn á aðra hæð á Pine Street, með ekkert nema ferðatösku og sjálfa mig. Salvation Army átti eftir að bjarga búslóð fyrir slikk.
Seinna meir átti ég að vísu eftir að búa í litlu herbergi sem kostaði 15 þúsund í hverfi sem heitir Mission en þar hafa spænskættaðir hreiðrað vel um sig. Talandi um að vera eins og krækiber í helvíti. Svo lifir sem lærir.

það sagði hún þá.......

Engin ummæli: