fimmtudagur

Blaðburður dauðans

Tók að mér blaðburð þar sem að fjárhagsstaða heimilisins bauð ekki upp á annað. Ekki vegna þess að mér finndist þetta eitthvað sérstaklega heillandi starfsvettvangur.
Í gærmorgun var ég risin úr rekkju klukkan fimm því ég átti að fara að kenna í spriklheimum klukkan 6:20 og stefndi á að vera búin að bera út þegar að að því kæmi.
Úti var blautt en blítt veður og ótrúleg kyrrð, fyrir utan rottuskömm í kattarstærð sem skoppaði yfir götuna hinummegin. Einnig biðu mín úti risastórir plastvafðir bunkar með blöðum í og upplýsingum um viðtakendur. Engir voru þó burðarpokarnir og engin kerra. Ég var nú ekki að stressa mig neitt sérstaklega á því, tók up tólið og hringdi í ”blaðberaþjónustuna” Klukkan var þá orðin 5:10. Á hinum endanum svaraði símsvari sem tjáði mér að “blaðberaþjónustan” væri opin á milli klukkan fimm og tuttugu og ég ætti vinsamlegast að skilja eftir skilaboð. Klukkan 5:25 gafst ég upp. Ég rauk niður í geymslu og fann þar stóran svartan ruslapoka. Inni í hjólageymslu var gömul regnhlífakerra sem ég kippti með. Ég skellti blöðunum í ruslapokann og hossaðist svo af stað með kerruna (sem virtist vera hölt á einari) yfir í næstu götu. Blaðburðarlúði dauðans mættur á kantinn. Nú byrjaði fröken náttblind að rýna í listann. Burðurinn var aðeins frábrugðinn hefðbundnum þennan morgun vegna þess að með honum fylgdi aukablað sem borið var í hverja lúgu. Átti þetta til að rugla kellu í rýminu auk þess sem ég var að flýta mér þannig að þegar leið að lokum burðar vantaði 3 blöð í bunkann. Ég klóraði mér í hausnum og skoðaði listann eilítið betur. Úps - ég hafði skellt blöðum inn um lúgur hjá fólki sem var einungis með helgaráskrift. Jæja, ég hringi í “blaðberaþjónustuna”. Þar er svarað og þeir segjast redda því, ég minnist á kerruna og pokana - ekki málið - reddum því líka. Eftir að ég skelli á man ég að ég hafði gleymt að stimpla mig inn í gegnum símann. Ég hringdi inn og ”hóf blaðburð” með því að ýta á einn og ”lauk blaðburð” með því að ýta á tvo, en það var ekki tekið mark á því. Tölvan trúði ekki að ég hefði verið tíu sekúndur að bera út. Ég reyndi nokkrum sinnum en gafst svo upp. Núna var ég orðin allt of sein og rauk í vinnu.

Upp úr hádegi kíkti ég við heima í pásu.
Engin kerra - engir pokar.
Um kvöldmatarleytið, engi kerra - engir pokar.

Það yrði víst plastpoki og barnakerra áfram. Alltaf er ég svo ósmart.

Þakklát, en ósmart.

það sagði hún þá.......

Engin ummæli: