fimmtudagur

Blessuð börnin

Kona fer í búð að versla handa sér fínerí sem hana vantar þó örugglega ekki. Með sér tekur hún barnið sitt sem hefur líklegast fengið súkkulaði í morgunmat ( þ.e. Cocoapuffs) og hefði líklegast haft mun meira gaman (og gott) af því ef að mamma sín hefði gefið honum eitthvað staðgott að borða í morgunsárið, nennt að gera eitthvað sem honum finnst skemmtilegt - sinnt honum jafnvel (kannski snýtt), frekar en að rápa í kellingabúðir. Barnið verður því heldur órólegt í búðinni – þó að það virðist ekki trufla móðurina nokkurn skapaðan hlut, enda hún upptekin við að skoða og prófa fínt.Búðarkonan er þó heldur uggandi yfir þessu þar sem að barnið veður ofan á og í allt, togar og tætir, hleypur um þar sem ekki er hættulaust að hlaupa á (hættuleg horn og logandi ljós) - og er því upptekin og sveitt við að hlaupa á eftir gutta ásamt því að bera í mömmu fínterí þess á milli. Segir nokkrum sinnum “skamm” .............en voða lágt, því að maður má jú ekki skamma annara manna börn hvað þá ala þau upp. Þegar kemur að þeirri dýrðarstund að mamman er loks búin að finna eitthvað sem hana langar að eyða peningunum sínum í, er stutti orðin ansi órólegur. Er hann farinn að arga og góla og sparka í allt og alla sem nálægt honum koma, en mamman virðist taka lítið eftir því - þar til að búðarkonan rétt nær að grípa í litlar hendur sem nærri eru búnar að rífa niður logandi kerti og hella þá heitu kertavaxi yfir litla útgrátna andlitið. Stuttur rekur þá upp hið ógurlegasta gól og hófst nú frekjusöngurinn mikli, sem að sumir litlir kútar, sem aldrei er sagt “skamm” við syngja oft af miklum móð. En hvað gerir mamma þá? Jú! Hún nær í súkkulaði mola og TREÐUR upp í organdi gúllan á barni sínu, sem að sjálfsögðu þagnar þá samstundis og hefst handa við að reyna að vinna á bitanum. Þar sem að mamman svo hleypur á eftir snarvilltum unga sínum út úr búð og bagsar við að troða honum í bílsæti með ólum verður sveitta búðarkonan hugsi. “Ætli rætist nú vel úr honum þessum – líkt og mömmunni” hugsar hún með sjálfri sér og kímir.

það sagði hún þá.......

Engin ummæli: