fimmtudagur

Í fréttum er þetta helst

Undanfarnar vikur hef ég reynt eftir fremsta megni að fylgjast ekki með fréttum, hvort sem er í blöðum, útvarpi eða sjónvarpi.

Það er mjög erfitt.

Eitthvað hefur þetta samt lekið inn óvart, en ég reyni að taka ekki eftir því, eða láta það hafa áhrif á mig. Þetta gerir mig tímabundið eilítið ”fáfróða” og þar sem að ég er ekki í vinnuumhverfi sem býður upp á fjölbreyttar samræður, dálítið snauða þegar kemur að umræðuefni. Við erum nefnilega alltaf að eyða tíma okkar í að tala um liðna eða komandi atburði, fréttir og veður. Ég ákvað að hætta því.

Ástæðan er þessi.

Mér finnst fréttir eins og þær eru í dag nánast alltaf neikvæðar. Þær láta mér líða illa, þar sem að það er oftast ekkert sem ég get gert til að breyta því sem er að gerast úti í heimi, eða jafnvel hér á landinu bláa. Þess vegna setti ég fréttirnar á ís. Oftar en ekki eru þær líka ekki réttar, sannar, eða merkilegar. Margt er bara hreint bull eða slúður.

Mér varð líka hugsað til þess sem að Þorvaldur Þorsteinsson, myndlistarmaður og lífskúnstner með meiru sagði eitt sinn við mig:

”Það sem er að gerast er ekki það sem gerðist einhversstaðar annars staðar áðan, í gær eða gerist á morgun. Það sem er að gerast ert þú - núna”.

Mér finnst það mikil speki.

Lífið mitt er að gerast - núna.
Ég ER - og ég er NÓG.

Og hver er ég? Ég er margt. Ég er a.m.k. ekki menntun mína eða starfsheiti. Ég er nóg.

það sagði hún þá.......

Engin ummæli: