fimmtudagur

Flensan

Ég man núna hvers vegna ég virðist hafa sloppið við stóru flensuna sem meirihluti Íslandsþjóðar er að “deyja” úr þessa dagana.

Þegar ég var búsett í borg brattra brekkna (segið þetta hratt fimm sinnum í röð) fékk ég eitt sinn einhverja Asíuflensu Satans og var í ALVÖRU nærri dáin.
Ég bjó efst uppi í hverfi sem kalllast Nob Hill, einn efsti póllinn í miðbæ San Francisco og ég var alein.

Þegar ég var búin að veltast um í svitabaði og óráði í þrjá daga án þess að fá vott né þurrt, hósta upp úr mér einu lunga, milta og botnlanga í 29 stiga hita og engri loftræstingu, kom að því að ég varð að fá eitthvað að drekka. Þar sem ég skreið á öllum fjórum inn í eldhús að ná mér í vatn gerði soðinn heilinn á mér sér grein fyrir því að þetta gengi ekki. Ég myndi deyja í þessari íbúð og ég átti ekki einu sinni ketti til að éta mig.

Tækninni “mind over matter” sem hefur ávallt reynst mér vel, var beitt.
Eftir 3ja tíma skóítroðslu og finnung á veski og lyklum var haldið út í óvissuna. Þetta var að vísu ekki alger óvissa, þar sem ég þekkti hverfið mitt nokkuð vel, en ég vissi líka að eina apótekið sem væri opið svona seint væri staðsett nánast við endann á hæðinni á horni Union og Powell. Af stað var haldið. Í raun var ég eins og dauðadrukkinn astmasjúklingur þar sem ég hálfhentist og slengdist niður brekkurnar í átt að apótekinu.
Í “Tekinu” náði ég mér í allt sem hugsanlega gæti komið að gagni. (Stundum kemur sér vel að vera læknisdóttir. You pick up things). Afgreiðslufólk í stórborgum er öllu vant og kippti sér ekkert upp við þennan slagandi, tautandi ræfil sem keypti fulla körfu af dópi sem er harðbannað að éta uppi á Íslandi, en fæst þarna beint úr hillum.
Þá var komið að heimför.
Upp fjórar “blokkir” af bröttum brekkum sem fóru stigvaxandi var staulast.
Cablecar-arnir hættir að ganga og ekki um neitt annað að ræða en að fikra sig upp með veggjum, eða kannski meira toga. Alla leiðina heim grét ég með kvalarfullum ekkasogum, nokkrum sinnum settist ég niður á stéttina og bað góðan Guð að hirða mig þar sem ég gæti ekki meira, en eftir u.þ.b. fjóra tíma var ég þrátt fyrir allt stödd fyrir utan íbúðina mína. Göngutúr þessi tók venjulega um 10 mínútur. Ég hrundi upp í rúm með gallon af vatni og fullan poka af lyfjum og nú var tekið til við að maula og súpa pillur, hóstasaft og vatn.

Næstu fimm sólarhringum var eytt í lyfjamók og tissjú, en á sjötta degi reis frúin upp frá dauðum. Nokkrum kílóum léttari, með brunnið nef og föla ásjónu skreiddist ég fram í eldhús og hitaði mér súpu. Eftir tvo daga í viðbót og aðeins meiri súpu, fór mér að líða eins og manneskju og tók þá eftir því að símtólið á heimasímanum var ekki í falsinu. Hef líklegast lamið það úr í einhverju mókinu. Þetta var á dögum snúrusíma, en einnig gsm og tölvuleysis. Um leið og ég skellti símanum í skoruna hringdi hann.Á línunni var skíthræddur bekkjarbróðir og vinur. Sá hinn sami hafði nokkrum sinnum rennt við og lamið á hurðar. Ég kannaðist ekkert við það. Hann bauðst til að koma samstundis yfir. Ég þáði. Held að ég hafi fengið flensumóður dauðans og er því ónæm fyrir öllum A-B- og C-stofnum hér eftir. Eða það vona ég. Sem minnir mig á aðra móður. Móður allra kakkalakka, en það er önnur saga.

það sagði hún þá.......

Engin ummæli: