fimmtudagur

Brúðkaupsraunir

Ég hef farið í mörg brúðkaup um ævina,
en ávallt með maka.

Að fara í brúðkaup makalaus er svolítið eins og að fara á barnasýningu í leikhúsinu án þess að hafa með sér barn. Örugglega gaman og ágætis skemmtun, en pínu ljúfsárt og aðeins hálf upplifun.

Um helgina er ég að fara í brúðkaup - ein - og ég hef áhyggjur af því.
Veit ekki alveg af hverju, kannski er ég hrædd um að það verði sárt og vafalaust munu gamlar minningar kvikna í hugskotum mínum.

Sá hins vegar myndina “The Wedding Crashers” um daginn með unglingnum og hugsaði:
”Ef þetta væri nú svona - þá gæti verið gaman að fara ein”

En það er ekki svona. Ég er bara oddatala

ps.

Jæja, brúðkaupið yfirstaðið og ég enn lifandi. Er það stórmerkilegt miðað við aðstæður.

En, þetta hófst að sjálfsögðu með því að vinkonurnar penu og prúðu kunnu ekki að haga sér í kirkju. Hlógu, flissuðu og blöðruðu upphátt, rúntandi um á kirkjubekkjunum. Ég er samt á því að Guði sé ekkert illa við hlátur og ekki Jesú heldur ef út í það er farið. Þetta var nú gleðistund og mér finnst skrítin þessi jarðafarastemmning sem virðist alltaf eiga að ríkja í kirkjum á Íslandi.

Brúðhjónin glæst og fögur silgdu inn kirkjugólfið og þurftu margir að berjast við skæluna enda brúðurin eins og Grace Kelly. Brúðguminn féll í skuggan eins og ávallt gerist í þessum uppákomum.

Við tóku hrísgrjónagrýtingar og rómversk át og drykkjuveisla. Þar sem að brúðhjónin eru sælkerar miklir, reka m.a. þar til gerða verslun, var ekki við öðru að búast en að maturinn yrði dýrðlegur- sem hann var. Allt rann þetta ljúflega niður.

Veislustjórinn fór á kostum, ræður voru haldnar, atriði sett í gang og endaði svo allt með því eftir áeggjan vinkvenna að gamlan fór í púlt alls óundirbúin. Eftir á mundi hún ekkert hvað hún hafði sagt en var sem betur fer vel studd.En hún móðgaði víst engan.

Við tóku trúnófundir yfir borðum og klósettum. Mér hefur alltaf þótt svo vænt um þig, þú hefur alltaf verið besti vinur minn yfirlýsingar ásamt varalitadreifingum og tilheyrandi eyrnaslefi. Partur af prógramminu.

Í lokin var dansað frá sér allt vit og bera fætur mínir þess heldur betur merki í dag. Er ekki frá því að ég þurfi að fá mér nýja. Heljarinnar fjör. Ekki endaði ég nú inni í línskáp með neinum, en greip hins vegar óvart brúðarvöndin sem síðar varð bara til tómra leiðinda. Gaf ég hann því systur brúðarinnar. Kærastinn hennar var víst búinn að lofa því að giftast henni ef hún gripi hann. Fanst mér hann verða að standa við orð sín og henti honum því til hennar. Ég ætla hvort eð er aldrei að giftast aftur.

Eins og í öllum góðum partýum klikktu margir út með nokkrum óvönduðum svívirðingum og meiningum í lokin og því næst haldið heim að sofa. Eða það gerði ég í það minnsta.

Þetta brúðkaup var því hin besta skemmtun eftir allt saman. Varð ég ekki vör við makaleysi nema helst í vangalögunum, en ég vangaði þá bara við kellingar í staðinn.


það sagði hún þá.......

Engin ummæli: