fimmtudagur

Friður sé með yður

Hafið þið tekið eftir því að það er til fólk sem að gerir sig út sem friðarsinna, en hagar sér þó endalaust þannig að það er ekki annað að sjá en að innra með þeim ríki endalaus ófriður?

Sömuleiðis eru þessir friðarsinnar gjarnir á að gagnrýna endalaust samferðarfólk sitt í lífinu og setur sig þá í sömu spor og þeir eru, sem þeir gagnrýna hvað mest.
Fordómar spila þar stóra rullu, jafnvel gagnvart einhverju blásaklausu, sem engan meiðir, eins og tónlistarsmekk, áhugamálum, útliti, eða aldri.

Dómar falla hægri vinstri og hrokinn ríður húsum. Þetta er í mínum augum ekki friðsamleg hegðun. Það er eins og að segja að Gunnar í Krossinum sé sannkristinn maður og fylgi kenningum Jesú. Algjör þversögn.

Það er nefnilega svo merkilegt að þegar að innra með þér ólgar ófriður, er eins og að allt og allir fari í taugarnar á þér. Þú verður argur og sár út í allt og alla og finnst að þú verðir að gera eitthvað í þessu öllu saman, þá á ég ekki bara við stöðu heimsmála og stefnu yfirleitt, heldur ALLT. Ég hef sjálf verið á þessum ófriðarstað og ég get lofað því að á þeim tíma stafaði ekki frá mér kærleikur og/eða friður.
Enn í dag á ég það til að detta ofan í skurðinn, en ég er þá fljót að koma mér upp aftur.

Það er í sjálfu sér gott og gilt að vilja gera heiminn að betri stað að búa í og í raun það sem við viljum öll, en þarf að gera það með skítköstum og niðrandi umtali um það og þá sem maður er ósammála? Er það eina leiðin sem til er, að úthrópa fólk sem því miður veit ekki betur sem fávita og aumingja? Hvernig bætir þess konar hegðun heiminn? Hverju skilar það? Er þinn hroki öðruvísi en hroki þess sem þú ert að gagnrýna?

Það er eitt að vera ósammála einhverju, annað að dæma.

Á ég sem aðhyllist sjálf ekki Sjálfstæðisflokkinn að dæma alla sem í þeim flokki eru sem fávita og skítbuxa? Ég þekki fullt af góðu fólki sem eru Sjálfstæðismenn, en ég er kannski ekki sammála þeirra pólitísku skoðunum. Ég þekki líka fólk sem aðhyllist sömu skoðanir og ég á pólitík, en er kannski þegar öllu er á botninn hvolft ekkert voðalega gott fólk.

Þegar allt kemur til alls, ert það þú sjálfur sem hefur valdið.
Þú getur breytt sjálfum þér, hvernig þú hugsar og hvernig þú kemur fram við fólkið í kringum þig. Með því að bæta þig, bætir þú heiminn.

Gott leiðir af góðu. Elska er smitandi. Gleði er gefandi. Hrós er styrkjandi. Hlátur er lífsbætandi. Umhyggja er nærandi.

Þrátt fyrir að allar dimmu tilfinningarnar eigi líka rétt á sér og að án þeirra værum við ekki mannleg þá segi ég samt: Reynum að einbeita okkur að því að því góða. Hættum að rífa endalaust niður og setjum orkuna okkar frekar í að byggja upp.

það sagði hún þá.......

Engin ummæli: