fimmtudagur

Kirtlar

Ég er eins og margir aðrir búin að láta fjarlægja óþarfa nokkurn er kallast hálskirtlar úr skrokki mínum. Hef í raun aldrei komist að því til hvers þeir eru, en eftir 33 ára slæma sambúð lét ég loksins verða að því að skilja við þá og henda þessu út.

Margir voru búnir að vara mig við. Þetta yrði hræðilega vont. Væri líka verra þegar að maður væri svona gamall (??) Mér fannst þó, þegar ég var farin að vera með hálsbólgu og/eða kverkaskít 350 daga á ári, að allt hlyti að vera þess virði að losna við þessa andskota. Uppi í mér blöstu við þeir stærstu og ófrýnilegustu kirtlar sem ég hef á ævi minni séð. Ég fór í aðgerð.

Eins og vanalega var ég sofnuð á “einum” í svæfingunni og vaknaði tveimur tímum seinna inni á stofu. Það fyrsta sem ég gerði var að kyngja.
Hey! Það var ekkert sárt! Ég reyndi aftur, ekkert!
Ég teygði mig í vatnsglas á borðinu og fékk mér sopa. Ekkert!

Jibbý!

Ég var greinilega svona rosalega heppin. Ég var ein af milljón sem finna ekkert fyrir því að fara í hálskirtlatöku! Hjúkrunarkona ein kom inn til að líta eftir mér og ég tilkynnti henni fjálglega að ég fynndi sko ekkert til. Hún sagði mér að ég skildi nú ekkert vera að tala. Þetta yrði sárara eftir því sem liði á daginn. Sárara? Ég fann ekkert til!
Zip. Nil. Nada!

Ég blés því á þetta bull og ákvað að fara að pissa. Frammi á gangi fann ég fyrir tilviljun föður vinkonu minnar, sem hafði víst verið í rannsókn. Ég fann mig knúna til að tilkynna honum að ég hefði verið í kirtlatöku og fynndi sko EKKERT til. Þar eftir blaðraði ég við gesti og gangandi þar til að bóndinn fyrrverandi kom að sækja mig.

Heim var haldið og ekki samkjaftað alla leiðina heim. Að vísu var ég pínu þvoglumælt, en ég skrifaði það á svæfinguna.Vinkonur mínar litu við eftir heimkomu og skildu lítið í því að þarna sat sjúklingurinn og kjaftaði á henni hver tuska. Þær spurðu hvort að ég ætti að vera að tala svona mikið og ég þeim að það væri sko allt í lagi, því ég fynndi ekkert til.

Upp úr klukkan fjögur gerðist það. Deyfingin og bólgusterarnir fóru endanlega úr mér.
Hvílíkur sársauki! Þarna sat ég með handklæði undir hökunni, skelfingu í augunum og slefaði. Innan í mér grét ég hástöfum en, ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að gera það upphátt. Næstu fimm daga lifði ég í helvíti. Þar næstu fimm í helvíti lite. Loksins dofnaði sársaukinn. Þá kom annað í ljós. Litli leikarinn gat ekki sagt G og K. Kirtlarnir höfðu verið svo stórir að vöðvarnir í hálsinum voru í engri þjálfun og kunni ekki að mynda hljóðin upp á eigin spýtur. Ég fór því og hitti talþjálfara, sat fyrir framan hann og tilkynnti að ég væri leiari og yrði að éta satt e og á.
Það var síðar lagað.

Ég hef ekki fengið hálsbólgu frá því þetta var gert.
En ég á þó eitt ráð fyrir ykkur sem eruð á leið í aðgerð.
Haldið kjafti!

það sagði hún þá.......

Engin ummæli: