fimmtudagur

Á röltinu

Hvers vegna geng ég ekki oftar ofan í miðbæ neðan úr Hlíðum?
Vegna þess að ég hef prófað það og í hvert skipti sé ég ansi mikið eftir því.
Á síðustu metrunum hvort heldur sem er á leið niður eða uppeftir er ég alltaf búin að fá miklu meira en nóg.

Nú er ekki eins og ég sé óvön því að ganga eða sé í slæmu líkamlegu formi, það er bara eitthvað við þessa leið og einnig hefur veðurfar í Reykjavík eitthvað með það að gera.

Í dag, í tilefni þess að það var sumar út um gluggann............en einnig vegna þess að bíllinn minn fer ekki í gang. (Þarf víst að skipta um kerti, hef ekki einu sinni pínulitla hugmynd um hvernig maður gerir það) en aðallega vegna þess að það var sól úti og þar sem að það er 8. júlí og mér datt ekki annað í hug en að gaman gæti verið að rölta í bæinn í góða veðrinu. Aaaaaaa........ góóóóða veðrið.
Hálfnuð yfir Klambratún var ég farin að sjá eftir öllu saman. Kaldur vindurinn lamdi mig í andlitið, tárin streymdu niður kinnarnar, sultardropinn hékk frekjulega á nefbroddinum og maskarinn var kominn niður á höku, jafnvel háls. Mig sárvantaði vettlinga og húfu því ég var orðin gjörsamlega loppin á fingrum og eyrum og gerivörturnar hefðu örugglega getað skorið gler. Þrjóskuröskunin hélt mér þó við efnið og niður á völl komst ég fyrir rest. Það er nefnilega ekkert að sjá eða gera útivið í bænum fyrr en þú kemur niður á Austurvöll, staðreynd. Það gerir það að verkum að túrinn er enn lengri. Þegar þangað var komið var ég hinsvegar komin með vægt hælsæri og loppin inn að beini. Það endaði því með því að ég settist inn á kaffihús, því ég gat ekki hugsað mér að sitja skjálfandi útivið.

Þremur tímum síðar hélt ég heim á leið. Alla leiðina hugsaði ég með mér að ég ætti að finna strætó, en ég kann ekki á strætókerfið og átti ekkert klink svo ég hélt bara áfram höktinu. Á síðustu metrunum langaði mig að setjast niður, gráta og gefast upp. Vindurinn sem ég fékk í fangið á leiðinni niður í bæ hafði nú skipt um átt og var einnig í fangið á mér á leiðinni heim. Blöðrurnar voru sprungnar og andlitið ein stór hor og táraklessa.
Sjaldan hefur ein kona verið eins fegin og ég þegar ég staulaðist inn um dyrnar heima hjá mér um kvöldmatarleytið.

Skrítið að maður skuli ekki gera þetta oftar.

það sagði hún þá.......

Engin ummæli: