fimmtudagur

Í skápnum

Fataskápurinn minn er undarlegt fyrirbæri.
Af einhverjum ástæðum er hann fullur af fötum sem að ég veit ekki hver keypti og þá í hvaða tilgangi. Í hvert skipti sem að ég þarf að klæða mig upp fyrir eitthvað ákveðið tilefni er alveg gefið að ég finn ekkert í troðfulla fataskápnum sem mig langar að fara í.
Það endar því iðulega á því að ég máta u.þ.b. 30 samsetningar af einhverju bulli, en enda svo iðulega á því að fara bara í gallabuxur og bol eins og vanalega. Stundum hef ég farið í eitthvað af þessum fáránlegu hlutum sem ég finn þarna inni og eyði svo nokkrum tímum líðandi og lítandi út eins kona sem er á kafi í ruglinu. Nú er það svo að margt sem skápurinn geymir er komið allnokkuð til ára sinna, en ég á erfitt með að henda fötum sem mér þykir vænt um, en eitthvað er þarna um nýrri hluti líka.
Ég get bara ómögulega skilið hver keypti þessi föt og í hvaða ástandi sú manneskja var á þeim tíma.

Ég meina.

Hvenær hef ég gengið stuttum bolum eða peysum?
Hvenær geng ég í pilsi?
Hvenær nenni ég að strauja skyrtur?
Hvenær hef ég fílað skæra liti sem eru ekki bláir?
Hvenær hef ég getað haldið hvítum fötum hvítum?
Hvenær hef ég þolað hör?
Hvenær hef ég fílað buxur sem ná ekki upp fyrir lífbein?

Aldrei.

Samt á ég svona föt inni í þessum undarlega skáp!

Svo eru það fötin sem ég fíla, en veit að karlmenn fíla ekki.
Það eru fötin sem að mig langar alltaf að fara í en veit að ef ég fer í þau þá er garanterað að ég geng ekki í augun á hinu kyninu.
Það er nefnilega í raun bara eitt sem gengur þar og það byrjar ekki á þægilegt.

það sagði hún þá.......

Engin ummæli: