fimmtudagur

Tannsteinn

Í morgun þurfti ég að fara til tannlæknis í annað skiptið á einum mánuði, eftir 6 ára fjarveru. Planið var að fjarlægja tannstein.

Eftir að hafa séð mig í síðast þar sem einungis var framkvæmd skoðun og ég leið nærri útaf vegna hræðslu,var ákveðið að fara nýja leið. Kellingin hafði fengið pillu með sér heim, sem hún svo tók klukkutíma áður en farið var í tannsteinspartýið.
Pillan átti nánast slá mig út og ég yrði í kæruleysis rússi milli svefns og vöku á meðan á plokkinu stæði.
Vandamálið var þá að koma sér á staðinn.
Hringt var í bróður sem lofaði að redda málunum.

Nóttinni var eytt í martraðir dauðans, þar sem fyrir komu ógeðfelldir tannlæknar með kvalarlosta og handsnúna bora ásamt ýmsum tannleysingjum sem ég nefni ekki hér. Klukkan fimm gafst ég upp og skrönglaðist framúr. Páfagarður var heimsóttur nokkrum sinnum og eitthvað var ætt um gólf.

Í bílferðinni inn eftir réri ég mér fram í gráðið í framsætinu sem galóð væri, óðamála og skíthrædd, því að pilluhelvítið var ekki að virka. Hún var ekki að virka.

Tannsteinninn plokkaður, ég með fullri meðvitund og eins og fulldekkað borð, plankastíf í stólnum. Skjálfti, sviti, viðbjóður. En þessu lauk og ég er allt í einu með sköllótttar tennur sem tungan þekkir ekki. Ég hafði ákveðið að ganga bara heim, en viti menn!
Eftir að ég var búin að borga milljónina sem þetta kostaði gerðist nokkuð merkilegt.

Pillan fór að virka.

Þar sem að enginn sá sér fært að sækja mig úr hremmingunum var afráðið að hringja á leigubíl. Út í hann drattaðist ég sem dauðadrukkin væri klukkan rúmlega níu að morgni og bað bílstjóran þvoglumælt að skila mér heim. Skildi ekkert í því að hann virtist ekki vita hvar það væri. Bílstjórinn með 20 ára reynslu fann nú samt út úr því á endanum.
Kannski hefur hann skutlað mér áður.

Þá tóku við hæðirnar fjórar. Guði sé lof að ég mætti engum í stigaganginum á þessari ferð minni. Hvernig útskýrirðu svona lagað?
Miðaldra kona á fjórum fótum skríðandi upp tröppurnar heim til sín snemmmorguns á fimmtudegi, tautandi: ”alveg að koma, alveg að koma.....alveg......”

Svaf eins og grjót í þrjá tíma. Hefði betur sofið í einn hjá tannsa.

það sagði hún þá.......

Engin ummæli: