fimmtudagur

Tvíburi

Ég er fædd með tvíburabróður í rassinum. Það er alltaf pínu fyndið að segja þetta, þar sem þetta er heilagur sannleikur. En ef ég orða þetta á annan hátt þá er málið svona: Rétt fyrir ofan rófubeinið á mér var lítið gat, sem enginn sá, en ég hins vegar fæddist með. Margir fæðast með þennan kvilla og geta þessi göt verið á ýmsum stöðum - en þessi er þó algengastur. Þegar að fólk vex úr grasi á þetta gat til að láta á sér kræla með þeim hætti að það sem er í raun innan í gatinu fer að vera með vesen. Ýmislegt getur komið þessu af stað svo sem útreiðartúrar, eða aðrir reiðtúrar, en þá bólgnar þetta út og verður óskaplega sárt fyrir þolanda að sitja, liggja, standa eða bara .......vera. Þá þarf oft að skera í bólguna og hleypa úr því veseninu. Í mínu tilfelli var þetta 6 sm djúpt 3 sm vítt gat (að innan) og í því voru skinn, hár, beina og tannaleifar - hence the name - ”Tvíburabróðir”. Ég var um tvítugt þegar ég skreið nær dauða en lífi inn á spítala með bólgu á stærð við appelsínu, faðir minn er nefnilega læknir, sama þar og með píparann, rafvirkjann og .....já þið skiljið. Ég var s.s. skorin upp og svo hent inn á stofu sunny side up og morfín í æð. Ég var ung og óhörnuð og ákaflega spéhrædd. Það stöðvaði þó ekki skurðlækninn, sem á öðrum degi mætir inn á stofu hjá mér með hóp af læknanemum sem raða sér í kringum rúmið mitt. Án þess að yrða á mig sviptir hinn góði læknir af mér ábreiðunni og byrjar að pota, benda, ýta og glenna upp á mér bossalinginn á meðan hann talar latínu við áhugasama nemana sem eru nú komnir með nefin nánast ofan í gilið. Ég feikaði meðvitundarleysi.....og geri reyndar enn.


það sagði hún þá.......

Engin ummæli: